Fara í innihald

Rifsþéla

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Rifsvespa)
Nematus ribesii

Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Liðdýr (Arthropoda)
Flokkur: Skordýr (Insecta)
Ættbálkur: Æðvængjur (Hymenoptera)
Ætt: Sagvespur (Tenthredinidae)
Ættkvísl: Nematus
Tegund:
N. ribesii

Tvínefni
Nematus ribesii
(Scopoli, 1763)

Rifsþéla (fræðiheiti: Nematus ribesii) einnig verið nefnd Rifsvespa, er blaðvespa af ætt sagvespa sem legst á rifstegundir (Ribes) og veldur iðulega miklum skaða á þeim með því að lirfan étur upp öll laufblöð runnanna. Hún leggst helst á Stikilsber (R. uva-crispa) en einnig á Rauðberjarifs (R. rubrum) og fleiri rifstegundir.

Útbreiðsla

[breyta | breyta frumkóða]
Fullorðin fluga Rifsþélunnar

Hún finnst um alla Evrópu og Norður-Ameríku, þó eru ekki til nákvæmar upplýsingar um útbreiðslu, né almennt um lifnaðarhætti hennar. Rifsþéla var fyrst skráð hjá Náttúrufræðistofnun Íslands 2010 en sagnir af henni höfðu þó borist nokkrum árum áður. Hún var búinn að breiðast út um Höfuðborgarsvæðið og Suðurland árið 2012 og farin að valda skaða víða í görðum.[1]

Lirfur að éta lauf af Stikilsberjarunna við Fossvoginn, 2012.
Lirfa Rifsþélunnar étur laufið alveg inn að stilki og klárar þannig allt lauf af heilu runnunum eins og sjá má á þessari grein.

Fullorðin dýr skríða úr púpum á vorin til að maka sig og verpa og virðist hún því liggja í vetrardvala á fullorðinsstigi. Fullorðin fluga er um 7 millimetrar á stærð og lík öðrum blaðvespum í útliti utan litarhafts og þá sérstaklega kvenflugan. Bæði kyn eru með dökkan haus, gula rák ofan við kjálkana og gulan baug yfir augum sem oft er meira áberandi á kvendýrinu. Fæturnir eru gulir. Karlflugan er með dökkan frambol og gul framhorn. Afturbolur dökkur að ofan og ljósgul að neðan, sem nær þó mishátt upp. Kvenflugan er ólík að því leyti að frambolurinn er gulur nema bakplötur og kviðplötur dökkar, afturbolur hins vegar allur gulur en ekki bara að neðan eins og á karldýrinu. Lirfan er ljósgulgræn með dökkum dílum, með einum hárbrúsk kver, um allan búkinn. Hausinn er svartur sem og fætur og eru gangvörturnar mjög áberandi á afturbúknum.

Varnir gegn ágangi rifsþélunnar

[breyta | breyta frumkóða]

Allt að þrjár kynslóðir púpa sig og klekjast út yfir sumarið en það er sú síðasta sem kemur fram í september-október sem myndar kynslóð næsta árs. Því dugir yfirleitt ekki að eitra einu sinni að vori heldur verður að glíma við hana allt sumarið og haustið. Kvenflugan verpir eggjum sínum undir blöðin, oftast þau sem eru næst jörðu og því er eitt besta ráðið að skoða vel undir öll neðstu blöðin og leita uppi eggin og drepa þau strax þar.

Á vorin þegar fyrstu lirfurnar eru að fara á kreik er best að handtína þær, annaðhvort með því að hrista runnann kröftuglega svo þær falli til jarðar og tína þær þannig upp, eins auðveldar það aðgang fugla að lirfunum, eða tína þær beint af blöðunum. Með því móti er hægt að minnka umfang næstu kynslóða. Þetta þarf að endurtaka allt sumarið.

Að úða með lífrænu eitri eins og brúnsápu blandaða með sítrónudropum og fleiri slíkum uppskriftum, virkar bara upp að vissu marki, því eins og með tínsluna þá virkar það bara á þær lirfur sem þá stundina eru á runnanum og því þarf að endurtaka úðunina reglulega og einnig með hverri nýrri kynslóð.[2]

Náttúrulegir óvinir/ varnir

[breyta | breyta frumkóða]

Fyrsta tilfelli líffræðilegra varnaraðgerða í Kanada var þegar sníkjuvespunni Trichogramma minutum var safnað af William Saunders 1882 í New York-ríki og sleppt í Ontario til að halda niðri rifsþélu þar.[3]

Í upprunalegum heimkynnum hennar (Evrópu) eru eftirfarandi náttúrulegir óvinir hennar:[4]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Rifsþéla - Nematus ribesii“. garðurinn. Sótt 12. september 2012.
  2. „Stor stikkelsbærbladhveps“. havenyt.dk. Sótt 12. september 2012.
  3. McLeod J. H., McGugan B. M., Coppel H. C. (1962). A Review of the Biological Control Attempts Against Insects and Weeds in Canada. Technical Communication No. 2. Reading, England: Commonwealth Agricultural Bureau.
  4. „Nematus ribesii (imported currantworm)“. Cabi.org. Sótt 10. desember 2020.

Sjá einnig

[breyta | breyta frumkóða]

Nematus leucotrochus