Richard Thors

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Richard Thors ( 29. apríl 1888 - 16. apríl 1970) var framkvæmdastjóri útgerðarfyrirtækisins Kveldúlfs og hafði um árabil mikil áhrif á viðskiptasamninga Íslands við erlend ríki. Hann var sonur Thors Jensen og bróðir Ólafs Thors forsætisráðherra. Richard var fyrst í námi í Danmörku, síðar í Þýskalandi og loks í Skotlandi og Englandi. Hann stofnaði ásamt föður sínum og bræðrum útgerðarfyrirtækið Kveldúlf árið 1912 og var framkvæmdastjóri þess frá stofnun ásamt Ólafi bróður sínum og lengi stjórnarformaður. Í fyrri heimsstyrjöldinni var Richard virkur þátttakandi í samningum um viðskipti Íslands við Bretland en Sveinn Björnsson síðar forseti var þó formaður samninganefnda. Gerðir voru samningar við Bretland árið 1916 og annar samningur við Bretland var undirritaður 23. maí 1918. Richard Thors var einnig þátttakandi í samninganefndum um viðskipti Íslands við önnur ríki, svo sem saminga við Spán árið 1934, Ítalíu 1935 og Noreg 1939. Í síðari heimsstyrjöld var Richard Thors fulltrúi í fastanefnd utanríkisviðskipta og svo í útflutningsnefnd að stríðinu loknu. Kveldúlfur var þátttakandi í Sölusambandi íslenzkra fiskframleiðenda (SÍF) og var Richard stjórnarformaður og framkvæmdastjóri SÍF til áttræðisaldurs.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]