Reiðhjallavirkjun
Reiðhjallavirkjun er vatnsaflsvirkjun á Vestfjörðum. Hún var stofnuð árið 1958 og afl hennar er 520 KW. Eigandi Reiðhjallavirkjunar er Orkubú Vestfjarða.
Fyrstu framkvæmdir hófust á vegum Hólshrepps sumarið 1929, með stíflugerð fyrir 0,05 Gl inntakslón uppi á Reiðhjalla. Reiðhjalli er 330 metra yfir sjávarmáli og steypuefni var flutt neðan frá, fyrst með bíl fram að Syðradalsvatni og þar var efnið sett í sekki og flutt með pramma yfir vatnið í Gilsodda en áður hafði ós vatnsins verið stíflaður til að hækka vatnsborðið svo pramminn flyti þegar hann var hlaðinn. Frá Gilsodda voru sekkirnir fluttir að rótum Reiðhjalla og svo á klakki (á hestum) upp að stíflustæðinu. Ekki tókst þá að ljúka við virkjunina vegna fjárskorts og virkjunin komst ekki í gagnið fyrr en 30 árum seinna. Þann 8. mars 1958 var Fossárvirkjun, eða Reiðhjallavirkjun eins og hún er nefnd í dag, tekin formlega í notkun.
Heildarlengd stíflunnar er 350 m, þar af 30 m. steinsteypt, með mestu hæð 5,5 m. Yfirfallið er í 333 metrum yfir sjávarmáli. Sett afl var 400 kW með hverfli af Pelton-gerð. Raunfallhæð við fullt álag var um 292 m og rennslið við sama álag 0,177 m3/s. Fyrsti rafveitustjóri virkjunarinnar var Jóhann Líndal og vélstjóri sem sinnti öryggisvöktum var Kjartan Guðjónsson frá Bolungarvík. Orkubú Vestfjarða hefur rekið virkjunina frá árinu 1978 og hefur framleiðslan verið um 2,9 GWh á ári. Mikið lindarrennsli skýrir góða nýtingu, því vatnasviðið er ekki nema 0,8 km2.
Sumarið 1989 bilaði rafalinn í virkjuninni og var endurnýjaður og var vinnu við stífluhús og endurbætur á stíflu lokið í ágúst 1991.
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- Orkuvefsjá Iceland Energy Portal Geymt 18 október 2019 í Wayback Machine
- Reiðhjallavirkjun á vef Orkubús Vestfjarða Geymt 13 nóvember 2013 í Wayback Machine