Radovan Karadžić
Radovan Karadžić Радован Караџић | |
---|---|
Forseti Lýðveldis Bosníu-Serba | |
Í embætti 7. apríl 1992 – 19. júlí 1996 | |
Varaforseti | Biljana Plavšić Nikola Koljević |
Forveri | Embætti stofnað |
Eftirmaður | Biljana Plavšić |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 19. júní 1945 Petnjica, Svartfjallalandi, Júgóslavíu |
Þjóðerni | Bosníuserbi |
Stjórnmálaflokkur | Serbneski lýðræðisflokkurinn |
Maki | Ljiljana Zelen Karadžić |
Háskóli | Háskólinn í Sarajevó Columbia-háskóli |
Starf | Geðlæknir |
Undirskrift |
Radovan Karadžić (kýrillískt letur: Радован Караџић; f. 19. júní 1945) er bosníu-serbneskur stjórnmálamaður sem var dæmdur fyrir þjóðarmorð, glæpi gegn mannúð og stríðsglæpi af Alþjóðlega stríðsglæpadómstólnum fyrir fyrrum Júgóslavíu. Hann var forseti Lýðveldis Bosníu-Serba (Republika Srpska) á tíma Bosníustríðsins. Karadžić er stundum kallaður „Bosníuslátrarinn“ í vestrænni fjölmiðlaumfjöllun vegna ábyrgðar hans á stríðsglæpum, sér í lagi á fjöldamorðunum í Srebrenica árið 1995.
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Radovan Karadžić fæddist árið 1945 nálægt bænum Šavnik í Svartfjallalandi. Faðir hans, Vuko, hafði verið meðlimur í andspyrnuhreyfingum þjóðernissinna sem börðust bæði gegn stuðningsmönnum nasista og gegn kommúnistahreyfingum Titos á tíma seinni heimsstyrjaldarinnar. Vuko var í fangelsi mestalla barnæsku sonar síns. Árið 1960 flutti Radovan Karadžić til Sarajevó og kynntist þar eiginkonu sinni, Ljiljönu. Karadžić nam læknisfræði og hóf störf sem geðlæknir á spítala í borginni. Hann varð jafnframt þekkt ljóðskáld og var undir miklum áhrifum frá serbneska þjóðernissinnanum og rithöfundinum Dobrica Ćosić, sem hvatti hann til að taka þátt í stjórnmálum.[1] Sem geðlæknir sérhæfði Karadžić sig í ofsóknarbrjálæði.[2]
Árið 1990 tók Karadžić þátt í stofnun Serbneska lýðræðisflokksins. Flokkurinn átti að vera andsvar við flokkum króatískra þjóðernissinna innan Bosníu og átti að vinna að hugsjóninni um öfluga Serbíu. Þegar Bosnía og Hersegóvína urðu sjálfstætt ríki stofnaði Karadžić óháðan lýðveldisflokk með höfuðstöðvar í Pale í úthverfi Sarajevó og varð leiðtogi hans. Flokkurinn naut verndar serbneska leiðtogans Slobodans Milošević og skipulagði árásir Serba gegn Bosníökum og Króötum í Bosníu.[1]
Karadžić var leiðtogi Lýðveldis Bosníu-Serba (Republika Srpska) í Bosníustríðinu, sem entist frá 1992 til 1995. Á tíma sátu Serbar um Sarajevó í 43 mánuði og börðust gegn hersveitum Bosníaka. Fjöldi óbreyttra borgara féll í sprengjuárásum og árásum leyniskyttna. Þúsundir Bosníaka og Króata voru hraktar frá heimilum sínum og konum og stúlkum var nauðgað í stórum stíl. Að sögn Sameinuðu þjóðanna drápu hersveitir Karadžićs að minnsta kosti 7.500 karlmenn og drengi í umsátrinu um Srebrenica í júlí árið 1995. Þá sökuðu þær Karadžić um að nota 284 friðargæsluliða Sameinuðu þjóðana sem mannlega skildi og um að gera árásir í Sarajevó.[1]
Karadžić neyddist til þess að segja af sér sem leiðtogi Serbneska lýðræðisflokksins árið 1996 eftir að flokknum var hótað refsiaðgerðum af vesturveldunum. Eftir Dayton-samkomulagið, sem batt enda á Bosníustríðið, fór Karadžić í felur til að forðast handtöku vegna ásakana á hendur honum um stríðsglæpi.[1] Þair Karadžić og helsti herforingi hans, Ratko Mladić, voru með eftirlýstustu mönnum Evrópu á næstu árum en Karadžić naut enn óformlegs stuðnings Serbneska lýðræðisflokksins, sem fór áfram með stjórn Lýðveldis Bosníu-Serba innan Bosníu-Hersegóvínu.[3]
Karadžić var á flótta undan réttvísinni í tólf ár, eða þar til hann var handtekinn í Belgrad árið 2008. Karadžić hafði dulbúið sig með því að láta sér vaxa sítt skegg og hafði tekið upp nafnið Dragan Dabić. Hann hafði starfað við óhefðbundnar lækningar á einkarekinni skurðstofu í borginni.[4] Karadžić var í kjölfarið framseldur til Alþjóðlega stríðsglæpadómstólsins í Haag.[5]
Árið 2016 var Karadžić dæmdur til 40 ára fangelsisvistar af Alþjóðlega stríðsglæpadómstólnum.[6] Áfrýjunardómstóll Sameinuðu þjóðanna þyngdi dóminn árið 2019 og dæmdi Karadžić í lífstíðarfangelsi.[7] Karadžić var færður í fangelsi í Bretlandi árið 2021.[8]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ 1,0 1,1 1,2 1,3 „Hver er þessi Radovan Karadzic?“. Vísir. 22. júlí 2008. Sótt 5. ágúst 2024.
- ↑ Hrafn Jökulsson (26. janúar 1993). „Glæpamaður, geðlæknir og skáld“. Alþýðublaðið. bls. 5.
- ↑ Jón Óskar Sólnes (25. apríl 2004). „Leitin að alræmdasta stríðsglæpamanni Evrópu“. Morgunblaðið. bls. 22–23.
- ↑ Jón Bjarki Magnússon (23. júlí 2008). „Karadzic dulbjó sig sem lækni“. DV. bls. 10.
- ↑ „Karadzic framseldur til Haag“. mbl.is. 30. júlí 2008. Sótt 5. ágúst 2024.
- ↑ „Ábyrgur fyrir dauða 100.000 manns“. DV. 24. mars 2016. Sótt 5. ágúst 2024.
- ↑ Kjartan Kjartansson (20. mars 2019). „Karadzic dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir þjóðarmorð“. Vísir. Sótt 5. ágúst 2024.
- ↑ Ásgeir Tómasson (12. maí 2021). „Karadzic færður í fangelsi í Bretlandi“. RÚV. Sótt 5. ágúst 2024.