Rúbidín
Kalín | |||||||||||||||||||||||||
Rúbidín | Strontín | ||||||||||||||||||||||||
Sesín | |||||||||||||||||||||||||
|
Rúbidín (úr latínu rubidus, „dökkrauður“) er frumefni með efnatáknið Rb og sætistöluna 37 í lotukerfinu. Þetta er mjúkt, silfurhvítt málmkennt frumefni í flokki alkalímálma. Náttúruleg samsæta rúbidíns, 87Rb, er lítillega geislavirk. Rúbidín er gríðarlega hvarfgjarnt með svipaða eiginleika og önnur frumefni í flokki 1, til dæmis brennur það fyrirvaralaust ef það kemst í snertingu við loft. Nafnið er dregið af því að það brennur með rauðfjólubláum loga. Það var fyrst uppgötvað með litrófsgreiningu árið 1861.
Rúbidín nýtist engum lífverum svo vitað sé en lifandi frumur taka það upp á sama hátt og kalín. Það er í 23. sæti yfir algengustu frumefni jarðskorpunnar. Það er því álíka algengt og sink og algengara en kopar.
Einkenni
[breyta | breyta frumkóða]Rúbidín bráðnar við 39,3 °C. Líkt og aðrir alkalímálmar hvarfast það hratt við vatn. Efnahvarfið er venjulega svo útvermið að það kveikir í vetnisgasinu sem verður til. Rúbidín hefur líka sést brenna fyrirvaralaust í snertingu við loft.
Líkt og hinir alkalímálmarnir myndar það kvikasilfursmelmi með kvikasilfri og getur myndað málmblöndu með gulli, sesíni, kalíni og natríni.
Notkun
[breyta | breyta frumkóða]Rúbidín er lítið notað í iðnaði en eiginleikar efnisins eru nýttir við rannsóknir og þróun á sviði efnafræði og rafeindatækni. Það er stundum notað sem ódýr valkostur við sesín í mælitækjum.
Það er stundum notað í flugelda til að gefa fjólubláan loga.