Phuket

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kort af Phuket eyju. Baðstrendur eru merktar með brúnum lit

Phuket er eyja og hérað syðst á Taílandi. Phuket er stærsta eyja Tælands og frá eyjunni er brú yfir í héraðið Phang Nga. Phuket héraðið nær yfir Phuket eyju og 32 aðrar minni eyjur á vesturströnd Tælands í Andamanhafi. Phuket héraðið er 576 ferkílómetrar og á þessum slóðum hefur frá alda öðli verið verslunarleið milli Indlands og Kína. Áður fyrr var þar mikil verslun með tin og gúmmí en núna er stór hluti af tekjum frá þjónustu við ferðamenn.

Saga eyjunnar[breyta | breyta frumkóða]

Eldra nafn Phuket er Thalong. Portúgalski sæfarinn Fernão Mendes Pinto kom til Síam árið 1545. Hann er fyrsti evrópski sæfarinn sem lýsir Phuket en hann kallaði eyjuna ‘Junk Ceylon’ en það nafn notuðu Portúgalar fyrir eyjuna á landakortum sínum. Pinto lýsir Junk Ceylon sem miðstöð verslunarskipa þar sem þau taka vistir. Seinna hnignaði þeirri miðstöð vegna sjóræningja og veðurfars. Frakkar lögðu kapp á að fá yfirráð yfir verslun með tin frá Phuket. Árið 1680 hóf franska Austur-Indíufélagið að flytja tin frá Phuket. Árið 1685 staðfesti Narai konungur Síam einkarétt Frakka á verslun með tin í Phuket. Frakkar voru hins vegar reknir frá Síam eftir uppreisnina í Síam árið 1688 en þá var Narai konungi steypt af stóli. Þann 10. apríl 1689 fór frakkinn Desfarges fyrir leiðangri sem skyldi endurheimta stjórn Frakka í Síam. Hann hernam Phuket en hrökklaðist burtu í janúar 1690. Búrma réðist á Phuket árið 1785. Skipstjórinn Francis Light sem stýrði einu af skipum breska Austur-Indíufélagsins var á leið fram hjá eyjunni og kom boðum til stjórnvalda að hann hefði séð að yfirvöld í Búrma væru að undirbúa innrás. Than Phu Ying Chan eiginkona nýlátins stjórnanda eyjunnar og systir hennar Mook (คุณมุก) skipulögðu varnir borgarinnar með því sem þær gátu. Eftir eins mánaðar umsátur um höfuðborg Phuket þá gafst umsátursliðið upp þann 13. mars 1785 og voru systurnar tvær hylltar sem hetjur.

  Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.