Fara í innihald

Petsamoförin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Petsamoförin (eða Petsamóförin) var ferð strandferðaskipsinsEsju“ árið 1940 til Petsamó í Norður-Finnlandi að sækja þar 258 Íslendinga sem höfðu orðið innlyksa á meginlandi Evrópu vegna ófriðarins (þ.e. vegna seinni heimsstyrjaldarinnar). Mest voru það Íslendingar sem höfðu dvalist styttri eða lengri tíma í Kaupmannahöfn. Farþegar sem komu heim með „Esju“ úr þessari ferð eru venjulega kallaðir petsamófarar. Á meðal farþega voru t.d. myndlistamennirnir Jón Engilberts og Gunnlaugur Blöndal, leikararinn Lárus Pálsson, Georgía Björnsson forsetafrú og arkítektinn Sigvaldi Thordarson.

Bærinn sem áður hét Petsamo heitir í dag Pechenga og tilheyrir Rússlandi, en Sovétríkin tóku þetta landsvæði af Finnum í lok seinni heimstyrjaldarinnar. Pechenga er við Norður-Íshafið um 50 km austan við Kirkenes í Noregi, en þangað nær Finnland ekki í dag.

Ferðin heim

[breyta | breyta frumkóða]

„Esjan“ lagði af stað frá Reykjavík til að sækja fólkið til Kaupmannahafnar þann 20. september eftir að bresk og þýsk hernaðaryfirvöld höfðu gefið henni fararleyfi. Fyrst var siglt með farþegana til Malmö í Svíþjóð og fóru þeir með lest þaðan norður alla Svíþjóð og Finnland en skipinu var siglt vestur og norður fyrir Noreg. Esjan var þó hertekin af þýskum herflugvélum á útleið og var skipað að sigla til Þrándheims þar sem hún var kyrrsett í fjóra daga. Þar komu tveir íslenskir sjómenn um borð. Þessi hertaka „Esjunnar“ lengdi leið hennar um 400 sjómílur.

Hinn 5. október var lagt af stað heim frá Petsamó. Þrengsli voru mikil en farþegar skemmtu sér með hljóðfæraslætti, söng, upplestri og dansi og gáfu meðal annars út blað, sem þeir nefndu Íshafspóstinn. Það var lesið upp í útvarpi skipsins. „Esjan“ hafði viðkomu í Kirkwall á Orkneyjum vegna afskipta bresks eftirlits og lengdi það för hennar enn meira en krókurinn til Þrándheims gerði áður. En til Reykjavíkur komst „Esjan“ að lokum, eða þann 15. október 1940.