François Duvalier
François Duvalier | |
---|---|
Forseti Haítí | |
Í embætti 22. október 1957 – 21. apríl 1971 | |
Forveri | Antonio Thrasybule Kébreau |
Eftirmaður | Jean-Claude Duvalier |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 14. apríl 1907 Port-au-Prince, Haítí |
Látinn | 21. apríl 1971 (64 ára) Port-au-Prince, Haítí |
Þjóðerni | Haítískur |
Stjórnmálaflokkur | Þjóðeiningarflokkurinn |
Maki | Simone Duvalier (g. 1939) |
Börn | Marie‑Denise Duvalier Nicole Duvalier Simone Duvalier Jean-Claude Duvalier |
Háskóli | Ríkisháskóli Haítí |
Starf | Læknir, stjórnmálamaður |
François Duvalier (14. apríl 1907 – 21. apríl 1971), einnig kallaður Papa Doc, var forseti Haítí frá 1957 til 1971. Hann var kjörinn forseti árið 1957 eftir popúlíska kosningaherferð þar sem hann kynti undir þjóðernishyggju blökkumanna. Eftir að hann stóð af sér misheppnað valdarán árið 1958 tók stjórn Duvaliers fljótt á sig alræðismynd og Duvalier varð einræðisherra landsins. Duvalier setti á fót dauðasveitir sem drápu andófsmenn án dóms og laga. Þessar sveitir voru svo afkastamiklar að Haítímenn þorðu jafnvel ekki að tala gegn ríkisstjórninni í einrúmi. Duvalier herti enn frekar tök sín á stjórn landsins með því að blanda saman haítískri goðafræði við persónudýrkun á sjálfum sér.
Duvalier hafði verið læknir áður en hann tók við völdum. Gælunafn hans, „Papa Doc“, kom til vegna starfsgreinar hans og sérþekkingar í læknisfræðum. Duvalier réð yfir Haítí til dauðadags og lét völdin síðan ganga til sonar síns, Jean-Claude, sem var kallaður „Baby Doc“.
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Duvalier fæddist til miðstéttarfjölskyldu í Port-au-Prince, höfuðborg Haítí. Hann nam læknisfræði og mannfræði í háskóla borgarinnar og útskrifaðist með læknapróf árið 1934.[1] Hann var eftir nám ráðinn til starfa sem læknir hjá heilbrigðisstjórn landsins og tók þátt í sigursælli herför gegn hitabeltissjúkdómnum frambóesíu.[2] Sem læknir þótti hann ljúfmannlegur, iðinn og föðurlegur en jafnframt nokkuð viðutan. Vegna þessara persónueiginleika hlaut Duvalier viðurnefnið „Papa Doc“.[3]
Árið 1939 stofnaði Duvalier námsmannablaðið Les Griots, sem átti að ýta undir þjóðerniskennd blökkumanna, meðal annars með vísunum í goðafræði og dulspeki Haítímanna. Í blaðinu gagnrýndi Duvalier einnig ríkjandi stjórnvöld, sem voru aðallega skipuð yfirstétt haítískra kreóla sem áttu ættir að rekja bæði til hvítra nýlenduherra og svartra þræla. Frá 1949 til 1950 var Duvalier heilbrigðisráðherra í ríkisstjórn Dumarsais Estimé, sem var gjarnan talinn talsmaður „hreinræktaðra“ blökkumanna á Haítí.[3]
Duvalier fór í felur eftir að hershöfðinginn Paul Magloire framdi valdarán gegn Estimé árið 1950. Duvalier hélt sig fjarri sviðsljósinu á sex ára valdatíð Magloire en eftir að Magloire hrökklaðist frá völdum árið 1956 hóf hann afskipti af stjórnmálum á ný. Duvalier bauð sig fram í forsetakosningum árið 1957 og náði kjöri, en talið er að hann hafi haft rangt við þar sem yfirlýstur stuðningsmaður hans sá um framkvæmd kosninganna.[3]
Duvalier hafði áður notið stuðnings haítískra menntamanna en sem forseti reyndi hann öðru fremur að vinna hylli hins ómenntaða meirihluta Haítíbúa. Þetta gerði hann m. a. með því að vísa til haítískrar dulspeki og galdralækninga. Hann útmálaði sjálfan sig sem vúdúprest og reyndi að endurvekja vúdúhefðir á Haítí. Hann kallaði sjálfan sig jafnframt „holdgerving haítíska eyríkisins“ og spyrti sjálfum sér bæði saman við anda úr vúdútrúnni og við hinn kristna Guð og Jesú Krist. Þegar John F. Kennedy Bandaríkjaforseti var myrtur árið 1963 hélt Duvalier því fram að hann hefði dáið vegna bölvunar sem hann lagði á Kennedy.[4]
Á valdatíð sinni stofnaði Duvalier sérstakar dauðasveitir til þess að bæla niður óánægjuraddir og hvers kyns mótspyrnu gegn stjórn sinni. Dauðasveitirnar voru kallaðar Tonton Macoute í höfuðið á haítískri þjóðsagnapersónu, nokkurs konar Grýlu sem var sögð ræna óþekkum börnum og stinga þeim ofan í strigapoka. Lögreglusveitir Duvaliers réðust tilefnislaust inn á heimili fólks af handahófi og beittu ofbeldi og pyntingum til þess að kveða niður allt hugsanlegt andóf gegn forsetanum.[3]
Undir stjórn Duvaliers dróst landsframleiðsla Haítí verulega saman og útflutningságóði minnkaði um þrjá fjórðunga frá því sem hann hafði verið á 18. öld.[2] Duvalier dró sjálfum sér miklar fjárhæðir úr útflutningssjóðum og mikill hluti erlendra fjármuna sem ætlaðir voru til þróunarhjálpar runnu beint í vasa forsetans.[1] Þar sem Duvalier var svarinn andkommúnisti sættu Bandaríkjamenn sig með semingi við ógnarstjórn hans og reyndu að viðhalda bandalagi við Haítí. Duvalier tókst sér í lagi að styrkja bandalag sitt við Bandaríkin eftir að Fidel Castro komst til valda á Kúbu og Duvalier greiddi atkvæði með alþjóðlegu viðskiptabanni gegn stjórn hans.
Árið 1959 fékk Duvalier alvarlegt hjartaáfall sem læknar töldu hafa valdið varanlegum heilaskaða. Á meðan Duvalier var að ná sér tók Clément Barbot, leiðtogi Macoute-liðanna, við stjórn landsins. Þegar Papa Doc rankaði við sér fór hann að gruna Bardot um að brugga launráð gegn sér og lét setja hann í fangelsi. Barbot var sleppt úr fangelsi árið 1963 en fór hann þá að leggja á ráðin um að hefna sín á Duvalier með því að ræna börnum hans og taka völdin í landinu. Duvalier komst á snoðir um fyrirætlanir Barbots og lét skipa handtöku hans en Barbot tókst lengi að forðast lögreglusveitir forsetans. Papa Doc taldi að Barbot hefði beitt vúdúgöldrum til að breyta sér í svartan hund og fyrirskipaði því að allir svartir hundar á Haítí skyldu teknir af lífi. Að lokum var Barbot handsamaður og hann hálshöggvinn af stjórnvöldum. Duvalier hélt eftir höfði Barbots til að geta átt áfram í samskiptum við anda hans með vúdúgöldrum.[5]
Duvalier lést árið 1971 úr hjartagalla og sykursýki. Hann lét völdin ganga til nítján ára gamals sonar síns, Jean-Claude, sem gekk undir gælunafninu „Baby Doc“.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ 1,0 1,1 Leland Stowe (19. júlí 1965). „Þar ríkir djöfull í mannsmynd“. Fálkinn. bls. 24-25; 40-41.
- ↑ 2,0 2,1 Halldór Sigurðsson (1. október 1967). „Svört bylting á Haítí“. Samvinnan. bls. 42-44.
- ↑ 3,0 3,1 3,2 3,3 „Francois Duvalier“. Lesbók Morgunblaðsins. 23. maí 1965. bls. 2; 14.
- ↑ Rolland Murray. „The African American Review“. Black Crisis Shuffle: Fiction, Race, and Simulation. The Johns Hopkins University Press, 2008: 215–233. .
- ↑ Björn Teitsson (19. janúar 2011). „Baby Doc snýr aftur til Haítí“. DV. bls. 16-17.
Fyrirrennari: Antonio Thrasybule Kébreau |
|
Eftirmaður: Jean-Claude Duvalier |