Pólýfónkórinn, Hamrahlíðarkórinn, Kór Öldutúnsskóla og 2 kammersveitir – Mattheusarpassía
Pólýfónkórinn, Hamrahlíðarkórinn, Kór Öldutúnsskóla og 2 kammersveitir – Mattheusarpassía, tónleikar 1982 | |
---|---|
P.005-8 | |
Flytjandi | Pólýfónkórinn, Hamrahlíðarkórinn, Kór Öldutúnsskóla og 2 kammersveitir, Elísabet Erlingsdóttir, Sigríður Ella Magnúsdóttir, Michael Goldthorpe, Ian Caddy, Kristinn Sigmundsson, Simon Vaughan, stjórnandi Ingólfur Guðbrandsson |
Gefin út | 1983 |
Stefna | Kórsöngur |
Útgefandi | Pólýfónkórinn |
Pólýfónkórinn, Hamrahlíðarkórinn, Kór Öldutúnsskóla og 2 kammersveitir – Mattheusarpassía er fjórföld hljómplata með Pólýfónkórnum, Hamrahlíðarkórnum, Kór Öldutúnsskóla og 2 kammersveitum sem gefin var út 1983. Um er að ræða fyrsta heildarflutning Mattheusarpassíu Bachs á Íslandi í apríl 1982 og jafnframt stærstu uppfærslu Ingólfs Guðbrandssonar og Pólýfónkórsins fram að þeim tíma. Einsöngvarar eru Elísabet Erlingsdóttir, Sigríður Ella Magnúsdóttir, Michael Goldthorpe, Ian Caddy, Kristinn Sigmundsson og Simon Vaughan. Einleikarar eru Rut Ingólfsdóttir, Þórhallur Birgisson, Inga Rós Ingólfsdóttir, Alfreð Lessing, Bernhard Wilkinson, Kristján Þ. Stephensen, Daði Kolbeinsson, Björn Kåre Moe og Helga Ingólfsdóttir. Stjórnandi Hamrahlíðarkórsins er Þorgerður Ingólfsdóttir, stjórnandi Kórs Öldutúnsskóla er Egill Friðleifsson. Konsertmeistarar eru Rut Ingólfsdóttir og Þórhallur Birgisson. Stjórnandi uppfærslunnar er Ingólfur Guðbrandsson. Upptaka: Ríkisútvarpið. Stjórn upptölu: Máni Sigurjónsson. Vinnsla tónbands: Tryggvi Tryggvason. Pressun: Teldec í Þýskalandi.
Verkið er sungið á frummálinu, þýsku, fyrir utan kóralana sem eru sungnir á íslensku.
Uppfærsla og umsagnir
[breyta | breyta frumkóða]Í flutningi á Mattheusarpassíunni fékk Pólýfónkórinn, sem þá var skipaður 133 manns, til liðs við sig Hamrahlíðarkórinn með 78 félaga og Kór Öldutúnsskóla með 41 félaga. Hljóðfæraleikarar og einsöngvarar voru 50 samtals. Tónleikunum var afar vel tekið og sagði Thor Vilhjálmsson í umsögn sinni: „Það er árvisst undur og kraftaverk að Ingólfur Guðbrandsson ofurhugi flytur okkur hin stærstu kórverk tónbókmenntanna, með sínu vaska liði; og hefur komið sér upp dýrlegu hljóðfæri sem er Pólýfónkórinn, hefur náð að virkja músíkást hugsjónafólks sem leggur á sig ómælda vinnu og sækir æ hærra. Og nú síðast Mattheusarpassían eftir Bach. Þetta gerðist þann dag sem á að vera leiðinlegasti dagur ársins, að sögn; föstudaginn langa. Mikið var gaman þennan dag.“[1]
Sigurður Þór Guðjónsson segir: „Mér fallast satt að segja hendur að skrifa um fyrsta flutning Mattheusarpassíunnar í heild á Íslandi. Ég er þeirrar skoðunar að þetta verk sé kannski heilagasta tónlist sem sköpuð hefur verið. Þó hafði ég aldrei heyrt verkið í tónleikasal. En nú á föstudaginn langa rann upp sú langþráða stund. Og ég hika ekki við að telja þennan flutning einhverja fegurstu, einstæðustu og upphöfnustu athöfn sem ég hef lifað. Þetta var allt eins og í öðrum heimi.“[2]
Jón Ásgeirsson segir í umsögn sinni; „Það tekur nærri fjóra klukkutíma að flytja allt verkið og með rétt mátulegu kaffihléi, stóð flutningur þess frá því kl. 2 e.h. til 7 um kvöldið eða nærri því og fyrir undirritaðan var þetta aðeins stundarkorn [..]. Ingólfur Guðbrandsson, stjórnandi þessa flutnings, leitaði fanga víða og sparaði hvergi til svo flutningur verksins yrði sem mestur og glæsilegastur. Umhverfis kórinn hans, Pólýfónkórinn, hafði hann skipað Barnakór Öldutúnsskóla, Egils Friðleifssonar, Kór Menntaskólans við Hamrahlíð sem Þorgerður Ingólfsdóttir stjórnar, tveimur kammerhljómsveitum, þar sem saman sátu efnilegir tónlistarnemendur og bestu tónlistarmenn þjóðarinnar, undir handleiðslu Rutar Ingólfsdóttur og Þórhalls Birgissonar, ásamt erlendum tónlistarmönnum, gambaleikaranum Alfred Lessing, söngvurunum Michael Goldthorpe, Ian Caddy, Simon Waughan og íslenskum söngvurum, Elísabetu Erlingsdóttur, Sigríði Ellu Magnúsdóttur og efnilegum söngvurum eins og Kristni Sigmundssyni, Unu Elefsen, Margréti Pálmadóttur og Ásdísi Gísladóttur. Þessum stóra hópi ágætra tónlistarmanna stýrði Ingólfur Guðbrandsson til fangbragða við erfitt og krefjandi tónverk meistara Bach, með þeim árangri að telja verður þessa tónleika tímamót í sögu tónleikahalds á Íslandi og tónleikana í heild mikinn listasigur fyrir fullhugann, bardagamanninn og listamanninn Ingólf Guðbrandsson.“[3]
Tóndæmi
[breyta | breyta frumkóða]- Tóndæmi ⓘ Bach hafði sérstakt dálæti á þessi lagi en hann notaði það fimm sinnum í Mattheusarpassíunni í síbreyttri tónhæð og raddfærslu. Í tóndæminu syngja áhorfendur í sal með kórunum þremur.
- Tóndæmi ⓘ
Um Mattheusarpassíu
[breyta | breyta frumkóða]Í efnisskrá með útgáfunni skrifar Ingólfur Guðbrandsson um Mattheusarpassíuna; „Í fyrsta sinn á Íslandi gefst nú kostur á að heyra Mattheusarpassíu Bachs í heild sinni. Ef grannt er skoðað, sést að margslungið form verksins er svo rökrænt, heilsteypt og táknrænt, að jafnvægi raskast um leið og eitthvað er fellt úr.
Texti Mattheusarpassíunnar er ofinn úr þremur þáttum. Uppistaða hans er 26. og 27. kapítuli Mattheusarguðspjalls, en inn á milli er fléttað trúarlegum hugleiðingum um píslarsöguna eftir póstmeistarann og skáldið Christian F. Henrici, sem betur er þekktur undir skáldheitinu Picander. Til viðbótar þessu tvennu koma svo trúarljóð hins kristna safnaðar um píslarsöguna, eins og þau birtust í lútherskum safnaðarsöng á dögum Bachs. Þessi þríþætta samröðun textans liggur til grundvallar skilningi á verkinu og byggingu þess.
Á sama hátt og texti verksins á sér þrjár ólíkar uppsprettur má innan þess finna þrjár aðgreindar heildir, sem hver um sig spannar afmarkað svið, en af einstæðri snilld sinni mótar Bach úr þeim heildarmynd, dregna skýrum dráttum.
Í fyrsta lagi er hið jarðneska sögusvið atburðanna, sem lýst er í píslarsögu Krists, eins og hún birtist í 26. og 27. kapítula Mattheusarguðspjalls. Hér eru raktir atburðir þeir, sem áttu sér stað í höll æðsta prestsins, húsi Símons líkþráa, á Olíufjallinu, í Getsemane, á Golgatahæð og við gröf Jesú. Þar eru túlkuð orð og athafnir persónanna, sem guðspjallið segir frá: Jesú, Péturs, Júdasar, æðsta prestsins, Pílatusar, vitnanna, þjónustustúlknanna, hermanna, lærisveinanna, prestanna og hinna skriftlærðu og viðbrögð lýðsins. Söguþráðurinn er tengdur saman af frásögn guðspjallamannsins. Þessi þáttur verksins er þrunginn dramatískri spennu, sem sífellt vex eftir því sem lengra líður rás atburðanna og nær hámarki í hrollvekjandi hrópi lýðsins, sem vill fá Barrabas látinn lausan en Jesú krossfestan: Barrabam — Lass ihn kreuzigen.
Annað svið verksins er andlegs og huglægs eðlis. Í resitatívum og aríum við texta Picanders eru orð og tilfinningar trúaðra sálna látin í ljós í dýpstu samhyggð með þjáningum og fórnardauða frelsarans. Þar eru atburðir hins jarðneska sögusviðs hugleiddir og skýrðir á æðra plani — eins konar upphafinn trúaróður kristinnar, guðhræddrar sálar. Til þessa þáttar verksins telst einnig hin volduga kóralfantasía, sem lýkur upp verkinu: Kommt ihr Töchter, helft mir klagen. Þar er hinum trúuðu og dætrum Zions — táknmynd kristninnar — stefnt til Golgata til að taka þátt í þjáningum og krossdauða Krists. Sama gildir um lokakór fyrri þáttar, aðra kóralfantasíu: O, Mensch, bewein dein Sünde gross, hugleiðingu um jarðvist Krists frá fæðingu til dauða, sem myndar ásamt inngangskórnum ramma um atburðina í fyrri þætti verksins, allt til Júdasarkossins og handtöku Jesú.
Resitatív og aríur seinni þáttar mynda með ljóðrænum blæ sínum og hljóðlátum innileik mótvægi gegn sívaxandi spennu atburðanna á sjálfu sögusviðinu. Í niðurlagi verksins flytja einsöngsraddirnar hver af annarri frelsaranum kveðjur og þakkir hinna guðhræddu, en kórinn tekur undir: Mein Jesu, gute Nacht, og verkinu lýkur með alþýðlegum saknaðarsöng beggja kóranna: Wir setzen uns mit Tränen nieder.
Þriðja svið verksins, kóralarnir, er ekki bundið hinum tveimur fyrrnefndu, hinu sögulega, dramatíska né hinu huglæga, ljóðræna í tíma né rúmi, heldur ótímabundin hugleiðing hins kristna safnaðar um líf og dauða frelsarans. Bach fléttar þá inn á milli atriða passíunnar með þátttöku safnaðarins í huga. Þannig mynda þeir einnig sjálfstæða heild innan ramma verksins. Óvíða er fagnaðarerindið fagurlegar boðað en í hendingum þessara einföldu en máttugu laglína, sem Bach hefur klætt í listrænan búning af einstæðri hugkvæmni og snilld, svo að því er líkast sem þær spanni alla kristna kenningu og kristinn dóm.“