Fara í innihald

Pontíus Pílatus

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Pílatus)
„Hvað er sannleikur?“ — Pílatus talar við Krist á málverki eftir Níkolaj Ge (1890).

Pontíus Pílatus var fimmti rómverski landstjóri Júdeu frá 26–36.

Hann var skipaður í embætti af Tíberíusi Rómarkeisara og er best þekktur í dag fyrir að dæma krossfestingu Jesú frá Nasaret.

Pílatus var sendur til Júdeu árið 26 til að gegna þar embætti landstjóra Rómarveldis.[1] Embættistitill hans var praefectus og hann var formlega undirmaður rómverska landstjórans í Sýrlandi. Pílatus var af stétt riddara og fékk því ekki eins virðulegan titil og margir aðrir landstjórar Rómarveldis.[2] Þar sem Tíberíus keisari dregið sig til hlés til eyjarinnar Capri árið 26 kann að vera að Pílatus hafi verið skipaður af ráðherra hans, Sejanusi, sem var þá nánast einvaldur í keisaradæminu.[3]

Í Júdeu hafði Pílatus aðsetur í borginni Caesariu og lét þar rista áletrun á stein til heiðurs Ágústusi Rómarkeisara. Áletrunin hefur varðveist að hluta og uppgötvaðist hún við fornleifauppgröft árið 1961.[2]

Í sagnaritum Fílons frá Alexandríu er Pílatusi lýst sem grimmum stjórnanda sem lét sig almenningsálit litlu varða og virti lítils siði og menningu innfæddra þegna sinna. Fílon greinir frá því að Pílatus hafi vakið reiði Gyðinga í Júdeu með því að setja upp gyllta skildi tileinkaða Ágústusi í konungshöllinni í Jerúsalem, sem þeir álitu brot gegn siðum sínum. Fílon greinir frá því að forystumenn Gyðinga hafi sent kvörtun til Tíberíusar keisara og þannig neytt Pílatus til að taka niður skildina.[4]

Sagnaritarinn Jósefos Flavíos fjallar um Pílatus í tveimur ritum sínum, Gyðinga sögu og Gyðingastríðunum. Líkt og Fílon gefur Jósefos til kynna að Pílatus hafi verið óvinsæll landstjóri sem hafi sýnt Gyðingum í Júdeu yfirgang.[4]

Jósefos greinir frá því að þegar Pílatus hafði verið landstjóri í tíu ár hafi grimmd hans gagnvart Samverjum leitt til þess að hann var kallaður heim til Rómar á fund Tíberíusar. Þegar þangað var komið hafi Tíberíus hins vegar verið nýlátinn. Tíberíus lést árið 37 og því er jafnan gert ráð fyrir því að tíu ára stjórnartíð Pílatusar í Júdeu hafi verið frá árinu 26 til 36. Ekkert er vitað um afdrif Pílatusar eftir að hann kom til Rómar.[5]

Pílatus í nýja testamentinu

[breyta | breyta frumkóða]
Ecce homo („Sjáið manninn“) eftir Antonio Ciseri.

Í öllum fjórum guðspjöllum nýja testamentsins er sagt frá því að Pílatus hafi dæmt Jesú frá Nasaret til krossfestingar í kringum páskahátíðina, líklega árið 30 eða 33. Pílatus gegnir því mikilvægu hlutverki í kristinni trú. Í frásögnum guðspjallanna er Pílatusi lýst sem tregum til að dæma Jesú til dauða en hann gerir það engu að síður til þess að friðþægja almúgann og æðstu presta Gyðinga, sem vilja Jesú feigan. Hugsanlegt er að við ritun guðspjallanna hafi frumkristnir menn viljað draga úr hlutverki Rómverja í drápi Jesú til þess að auka lögmæti kristinnar trúar innan Rómaveldis.[1]

Í Markúsarguðspjalli, sem er talið hið elsta af guðspjöllunum, er greint frá því að öldungaráð Gyðinga hafi framselt Jesú Pílatusi. Í guðspjallinu yfirheyrir Pílatus Jesú og spyr hann hvort hann sé konungur Gyðinga en fær ekki skýr svör.[6] Því næst er greint frá því að Pílatus hafi verið vanur því að leysa einn fanga úr haldi á páskahátíðinni samkvæmt ósk almennings. Hann býðst til þess að veita Jesú frelsi en æðstu prestar Gyðinga æsa upp lýðinn og fá hann til að heimta að upphlaupsmaður að nafni Barabbas verði leystur úr haldi í stað Jesú. Pílatus spyr þá mannfjöldann hvað skuli gert við Jesú og mannfjöldinn heimtar að hann verði krossfestur. Þótt Pílatus sjái ekki að Jesús hafi framið neinn glæp ákveður hann að gera fólkinu til geðs, leysir Barabbas úr haldi og lætur húðstrýkja Jesú og framselja hann til krossfestingar.[7]

Sagan um val almúgans milli Jesú og Barabbasar er endurtekin í hinum guðspjöllunum. Ekki eru til neinar aðrar heimildir um að Rómverjar hafi boðið almenningi slíkt uppboð á föngum. Því er talið að frásögnin hafi táknrænt gildi og að henni sé ætlað að sýna fram á sekt múgsins í Jerúsalem umfram sekt Pílatusar.[8]

Sambærileg frásögn birtist í Matteusarguðspjalli en þar þvær Pílatus hendur sínar fyrir framan múginn og segist sýkn af blóði Jesú.[9] Í guspjallinu bætist við frásögn þar sem Pílatus veitir Jósef frá Arímaþeu leyfi til að greftra Jesú eftir krossfestinguna.[10] Einnig kemur fram að Pílatus hafi veitt æðstu prestum og faríseum Gyðinga leyfi til að standa vörð um gröf Jesú til að koma í veg fyrir að líki hans verði stolið og látið sem hann hafi risið upp frá dauðum.[11]

Í frásögn Lúkasarguðspjalls reynir Pílatus að afsala sér lögsögu yfir máli Jesú þegar æðstu prestarnir og múgurinn færa Jesú í hans hendur. Þegar Pílatus heyrir að Jesús er frá Galíleu lætur hann senda Jesú til Heródesar Antípasar, fjórðungsstjóra í Galíleu, en Heródes sendir Jesú síðan aftur til Pílatusar.[12] Þessi frásögn hefur einnig verið dregin í efa af sagnfræðingum þar sem ólíklegt þykir að landstjóri Rómverja í Júdeu hefði reynt að afsala sér lögsögu yfir uppreisnarmanni. Líklegt þykir að hún eigi að gera Heródes meðsekan Pílatusi og sýna fram á að allir óvinir Jesú hafi átt hlutverk í píslun hans.[13]

Í Jóhannesarguðspjalli spyr Pílatus Jesú hinnar frægu spurningar „Hvað er sannleikur?“ eftir að hafa yfirheyrt hann.[14]

  • Sverrir Jakobsson (2018). Kristur: Saga hugmyndar. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag. ISBN 9789979664017.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 Illugi Jökulsson (11. apríl 2015). „Hörkutól hugleiðir sannleikann“. Fréttablaðið. bls. 36.
  2. 2,0 2,1 Sverrir Jakobsson 2018, bls. 13.
  3. „Æfi Jesú“. Kirkjuritið. 1. júní 1957. bls. 269–279.
  4. 4,0 4,1 Sverrir Jakobsson 2018, bls. 14.
  5. Sverrir Jakobsson 2018, bls. 15.
  6. Biblían. Markúsarguðspjall. 15:1-5. (Netútgáfa Snerpu).
  7. Biblían. Markúsarguðspjall. 15:6-15. (Netútgáfa Snerpu).
  8. Sverrir Jakobsson 2018, bls. 57.
  9. Biblían. Matteusarguðspjall. 27:24. (Netútgáfa Snerpu).
  10. Biblían. Matteusarguðspjall. 27:57. (Netútgáfa Snerpu).
  11. Biblían. Matteusarguðspjall. 27:62–65. (Netútgáfa Snerpu).
  12. Biblían. Lúkasarguðspjall. 23:6–12. (Netútgáfa Snerpu).
  13. Sverrir Jakobsson 2018, bls. 119.
  14. Biblían. Jóhannesarguðspjall. 18:36. (Netútgáfa Snerpu).
  Þessi sögugrein sem tengist trúarbrögðum er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.