Veitur ohf.
Veitur reka hitaveitu, rafveitu, vatnsveitu og fráveitu á höfuðborgarsvæðinu og víðar á Suður- og Vesturlandi. Fyrirtækið er alfarið í eigu Orkuveitu Reykjavíkur (OR).
Starfsemi
[breyta | breyta frumkóða]Veitur er stærsta veitufyrirtæki landsins. Þrír fjórðu hlutar landsmanna njóta hitaveitna fyrirtækisins, um helmingur landsmanna er tengdur rafveitu þess og um fjórir af hverjum tíu landsmönnum njóta vatnsveitna og fráveitna Veitna ohf. Um 160 manns starfa hjá fyrirtækinu við margvísleg verkefni. Veitur sjá um uppbyggingu og rekstur veitukerfa. Þær dreifa rafmagni, heitu og köldu vatni, auk þess að reka fráveitur á þéttbýlasta svæði Íslands. Starfssvæðið er að mestu á höfuðborgarsvæðinu en einnig víða á Suður- og Vesturlandi. Kerfið er afar umfangsmikið; lagnir og strengir eru alls um 9.000 kílómetrar að lengd, sem jafngildir vegalengdinni frá Reykjavík til Sjanghæ.
Víða má sjá aðveitustöðvar, dreifistöðvar, brunna, rafmagnskassa, borholuhús, tanka, dælustöðvar, lokahús og hreinsistöðvar í eigu Veitna, en byggingar fyrirtækisins eru yfir 1.000 talsins. Framkvæmdastjóri Veitna er Inga Dóra Hrólfsdóttir verkfræðingur. Í stjórn eru Ingvar Stefánsson, framkvæmdastjóri fjármála OR, formaður, Guðrún Sævarsdóttir og Skúli Skúlason.
Vatnsveita
[breyta | breyta frumkóða]Fyrirtækið rekur 12 vatnsveitur á starfssvæðinu auk þess að selja neysluvatn í heildsölu til tveggja sveitarfélaga að auki. Neysluvatns er aflað úr fjölda vatnsbóla. Áhersla er lögð á öfluga vernd auðlindarinnar þannig að sem flestir landsmenn eigi kost á hreinu og ómeðhöndluðu neysluvatni. Vatnsveitur Veitna gegna lykilhlutverki í brunavörnum.
Hitaveita
[breyta | breyta frumkóða]Hitaveita Veitna er stærsta jarðvarmahitaveita í heimi. Heita vatnsins afla Veitur úr lághitasvæðum og frá jarðgufuvirkjunum ON á Hengilsvæðinu. Fyrirtækið þjónar öllu höfuðborgarsvæðinu með rekstri hitaveitu, auk 16 smærri veitna á sunnan- og vestanverðu landinu.
Rafveita
[breyta | breyta frumkóða]Veitur sjá um dreifingu rafmagns til liðlega helmings landsmanna í sex sveitarfélögum við Faxaflóa. Sérstaða rafdreifikerfis Veitna á landinu er net háspennustrengja sem liggur á milli 13 aðveitustöðva á rafdreifisvæðinu.
Fráveita
[breyta | breyta frumkóða]Fráveitukerfi Veitna þjóna um helmingi landsmanna og hreinsistöðvar fyrirtækisins enn fleirum. Eftir hreinsun er frárennsli veitt út í sjóinn á Sundunum, um fimm kílómetra frá ströndinni. Í uppsveitum Borgarfjarðar reka Veitur fjórar lífrænar hreinsistöðvar. Veitur eiga og reka fráveitur í þremur sveitarfélögum og reka dælustöðvar fyrir fjögur til viðbótar. Afgreiðslustaðir eru fimm; í Reykjavík, Akranesi, Borgarnesi, Hveragerði og Þorlákshöfn.
Sagan
[breyta | breyta frumkóða]Rætur fyrirtækisins má rekja til ársins 1909, þegar vatnsveitan í Reykjavík tók til starfa. Rafstöðin við Elliðaár varð upphaf Rafmagnsveitu Reykjavíkur árið 1921 og 1930, þegar fyrstu húsin í Reykjavík voru tengd hitaveitu úr Þvottalaugunum. Árið 2002 var sameignarfyrirtækið Orkuveita Reykjavíkur stofnað og þá sameinuðust Akranesveita, Andakílsárvirkjun og Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar veiturekstrinum á höfuðborgarsvæðinu. Veitur ohf. urðu til sem Orkuveita Reykjavíkur-Veitur ohf. við uppskiptinu OR í ársbyrjun 2014. Nafninu var breytt í Veitur ohf. um mitt ár 2015.
Nýtt merki
[breyta | breyta frumkóða]Veitur fengu nýtt merki og auðkenni 1. desember 2015. Frá ársbyrjun 2014, þegar OR var skipt upp, hafði fyrirtækið starfað undir sama merki og heiti og móðurfélagið. Ákveðið var að auka sýnileika og sjálfstæði Veitna með því að gefa því sér auðkenni.