Matís ohf
Matís ohf. var stofnað árið 2007 við sameiningu þriggja opinberra stofnana: Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, Matvælarannsóknir Keldnaholti og Rannsóknastofu Umhverfisstofnunnar.
Fyrirtækið[breyta | breyta frumkóða]
Hlutverk Matís er að bæta fæðuöryggi, bæta lýðheilsu og stuðla að verðmæta aukningu með því að efla nýsköpun og auka verðmæti matvæla, stuðla að öryggi matvæla, stunda þróunar- og rannsóknastarf og efla samkeppnishæfni íslenskrar matvælaframleiðslu á alþjóðlegum vettvangi. Matís þjónar jafnt opinberum aðilum sem einkaaðilum. Matís sér einnig um ýmsar mælingar og fræðslu fyrir stjórnvöld á Íslandi. Fyrirtæki rekur rannsóknarstofur þar á meðal tvær tilvísunarrannsóknarstofur fyrir Salmónellu og Kamfílóbakter.
Það á í samstarfi við ýmis fyrirtæki bæði íslensk sem erlend, sem dæmi um samstarfsaðila má nefna: Marel, HB Grandi, Lýsi, Skagann, TrackWell, HB Granda, Promens Tempra, Háskóla Íslands, Brim, Samherja, Genís, Actavis, hundahreysti, Pepsico, Nestlé og marga fleiri.
Áhersla er lögð á að bæta nýtingu á vannýttum afurðum eins og þörungum og slógi og auka verðmæti og bæta nýtingu. Auk þess stunda rannsóknir á líftækni og lífvirkum efnum. Í líftæknirannsóknum er leitast við að nýta íslenska náttúru sjálfbært til framleiðslu á eftirsóttum lífefnum og ensímum. Niðurstöður rannsóknanna hafa meðal annars sýnt fram á jákvæð áhrif fiskpróteina og þangefna á blóðþrýsting. Þá geta lífvirk efni aukið stöðugleika matvæla og haft jákvæð áhrif á heilsu.
Samstarf við menntastofnanir[breyta | breyta frumkóða]
Háskóli Íslands[breyta | breyta frumkóða]
Háskóli Íslands og Matís ohf. hafa gert með sér samning um að efla verklega kennslu og vísindastarf á sviði matvælafræði, matvælaverkfræði, líftækni og matvælaöryggis. Með samningnum fer verkleg leiðbeining meistara- og doktorsnema Háskóla Íslands fram hjá Matís. Nokkrir starfsmenn Matís kenna í B.S. og M.S. námi við Matvæla- og næringafræðaskor Raunvísindadeildar Háskóli Íslands.
Háskólinn á Akureyri[breyta | breyta frumkóða]
Samstarf Matís og Háskólans á Akureyri felur meðal annars í sér að sérfræðingar fyrirtækisins annast kennslu við Auðlindadeild HA, samkvæmt hæfismati (lektor - dósent - prófessor) á ákveðnum sviðum sem tengjast auðlindafræðum.
Háskólinn í Reykjavík[breyta | breyta frumkóða]
Opni háskólinn í Háskóla Reykjavíkur, Matís og Reykjavíkur Akademían eru í samstarfi um þróun námskeiða og námslína auk kennslu til að efla menntun í íslensku atvinnulífi. Með samstarfinu vill Opni háskólinn auðga íslenskt samfélag með miðlun og virkjun þekkingar utan hefðbundinna námslína á háskólastigi.
Hólaskóli[breyta | breyta frumkóða]
Samningur Matís og Hólaskóla kveður meðal annars á um að kennarar og nemendur skólans munu vinna að rannsókna- og þróunarverkefnum með sérfræðingum Matís og að sérfræðingar fyrirtækisins muni koma að kennslu við skólann, einkum hvað varðar leiðsögn við nemenda- og rannsóknaverkefni.
Sjávarútvegsskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna[breyta | breyta frumkóða]
Kennsla við Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna er orðinn hluti af reglulegri starfsemi Matís síðustu árin. Hafrannsóknastofnunin hefur veg og vanda af rekstri skólans, en hann er rekinn í samstarfi við Matís, Háskólann á Akureyri og Háskóla Íslands. Skólinn er starfræktur samkvæmt sérstöku samkomulagi við Háskóla Sameinuðu þjóðanna og er fjármögnun hans að mestu leyti hluti af framlögum Íslands til þróunaraðstoðar. Skólinn veitir sex mánaða nám og starfsþjálfun fyrir fagfólk og sérfræðinga frá þróunarlöndunum og ríkjum fyrrum lýðvelda Sovétríkjanna.
Starfsstöðvar Matís[breyta | breyta frumkóða]
Matís rekur starfsstöðvar um land allt, að höfuðstöðvum fyrirtækisins í Reykjavík meðtöldum. Þær eru:
- Reykjavík
- Akureyri
- Flúðir
- Höfn í Hornafirði
- Ísafjörður
- Neskaupstaður
- Sauðárkrókur
- Sunnanverðir Vestfirðir
- Vestmannaeyjar