Oleksandra Matvíjtsjúk
Oleksandra Matvíjtsjúk | |
---|---|
Олександра Матвійчук | |
Fædd | 8. október 1983 |
Þjóðerni | Úkraínsk |
Menntun | Taras Sjevtsjenko-þjóðarháskólinn í Kænugarði |
Störf | Lögfræðingur |
Þekkt fyrir | Störf með Miðstöð borgaralegra réttinda |
Oleksandra Vjatsjeslavívna Matvíjtsjúk (úkraínska: Олександра В’ячеславівна Матвійчук; f. 8. október 1983) er úkraínskur mannréttindalögfræðingur og aðgerðasinni með aðsetur í Kænugarði. Hún er forstöðumaður mannréttindasamtakanna Miðstöðvar borgaralegra réttinda og er virkur þátttakandi í herferðum fyrir lýðræðisumbótum í Úkraínu og á ÖSE-svæðinu.
Menntun
[breyta | breyta frumkóða]Oleksandra Matvíjtsjúk gekk í Taras Sjevtsjenko-þjóðarháskólann í Kænugarði og útskrifaðist þaðan með LL.M.-gráðu árið 2007. Árið 2017 varð hún fyrsta konan til að taka þátt í verkefninu „Komandi leiðtogar Úkraínu“ við Stanford-háskóla.[1][2]
Starfsferill
[breyta | breyta frumkóða]Matvíjtsjúk hóf störf fyrir Miðstöð borgaralegra réttinda árið 2007, þegar samtökin voru stofnuð.[3]
Árið 2012 varð Matvíjtsjúk meðlimur í ráðgjafarnefnd mannréttindastjóra úkraínska þingsins (Verkhovna Rada).[4][5]
Eftir að stjórn Úkraínu beitti ofbeldi gegn friðsamlegum mótmælum á Sjálfstæðistorginu í Kænugarði þann 30. nóvember 2013 stýrði Matvíjtsjúk borgaraframtakinu Evromajdan SOS (úkraínska: Євромайдан SOS). Framtakið snerist um að veita fólki sem hafði verið handtekið í Evromajdan-mótmælunum lagalega aðstoð í Kænugarði og öðrum úkraínskum borgum og safna og greina upplýsingar til að vernda mótmælendur.[6] Matvíjtsjúk hefur síðar staðið fyrir nokkrum alþjóðlegum herferðum fyrir lausn samviskufanga, meðal annars #letmypeoplego-herferðinni og herferð fyrir lausn kvikmyndagerðarmannsins Olehs Sentsov og annarra sem hafa verið ólöglega fangelsaðir í Rússlandi og hernámssvæði Rússa á Krímskaga og í Donbas.[7] Matvíjtsjúk er höfundur fjölda skýrslna til ýmissa stofnana Sameinuðu þjóðanna, Evrópuráðsins, Evrópusambandsins, Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu og nokkurra innsendinga til Alþjóðlega sakamáladómstólsins í Haag.[8][2]
Þann 4. júní 2021 var Matvíjtsjúk skipuð í nefnd Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum[9] og varð fyrsta úkraínska konan til að taka sæti í nefndinni.[10] Hún hafði talað fyrir takmörkun á ofbeldi gegn konum á átakasvæðum.
Frá úkraínsku byltingunni 2014 til ársins 2022 einbeitti Matvíjtsjúk sér að því að kortleggja stríðsglæpi í stríðinu í Donbas. Árið 2014 fundaði hún með Joe Biden, þáverandi varaforseta Bandaríkjanna, og mælti með því að fleiri vopn yrðu send til Úkraínu til að binda enda á stríðið.[11]
Frá upphafi innrásar Rússa í Úkraínu árið 2022 hefur Matvíjtsjúk birst í fjölda alþjóðlegra fjölmiðla í umboði borgaralegs samfélags Úkraínu, sér í lagi í tengslum við málefni fólks sem hefur hrakist á vergang innan landsins og í tengslum við stríðsglæpi og mannréttindi. Samkvæmt tímaritinu Foreign Policy hefur hún mælt með stofnun sérstaks „blandaðs dómstóls“ til að rannsaka stríðsglæpi og mannréttindabrot.[12]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Ukrainian Emerging Leaders Cohort 2017-18“. fsi.stanford.edu (enska). Sótt 17. ágúst 2021.
- ↑ 2,0 2,1 „Oleksandra Matviichuk | CivilMPlus“ (franska). 27. apríl 2018. Sótt 17. ágúst 2021.
- ↑ Todorov, Svetoslav (14. febrúar 2022). „Meet Oleksandra Matviichuk from Ukraine“. Friedrich Naumann Foundation (enska). Sótt 7. október 2022.
- ↑ „Про створення консультативної ради“. Офіційний вебпортал парламенту України (úkraínska). Sótt 17. ágúst 2021.
- ↑ „Women Pursue a Democratic Future for Ukraine“. National Endowment for Democracy (bandarísk enska). 7. mars 2022. Sótt 13. júní 2022.
- ↑ „Євромайдан SOS“. maidanmuseum.org (úkraínska). Sótt 17. ágúst 2021.
- ↑ „Oleksandra Matviichuk“. religiousfreedom.in.ua. Sótt 17. ágúst 2021.
- ↑ „Oleksandra Matviichuk“. Skopje Youth Summit (bandarísk enska). Sótt 17. ágúst 2021.
- ↑ „18th Meeting of States parties - Elections 2021“. www.ohchr.org. Sótt 17. ágúst 2021.
- ↑ „Оголошення про результати добору кандидата для висунення на обрання членом комітету ООН проти катувань“. minjust.gov.ua (rússneska). 4. júní 2021. Sótt 1. apríl 2022.
- ↑ „Activist who met Biden in 2014 says 'Putin war crimes could have been stopped'“. The Independent (enska). 29. mars 2022. Sótt 13. júní 2022.
- ↑ Mackinnon, Robbie Gramer, Amy. „Ukraine's 'Nuremberg Moment' Amid Flood of Alleged Russian War Crimes“. Foreign Policy (bandarísk enska). Sótt 13. júní 2022.