Oddur Stefánsson
Oddur Stefánsson (d. 3. desember 1641) var skólameistari í Skálholtsskóla tvívegis, prestur í Skálholti og síðan í Hraungerði og Gaulverjabæ í Flóa og prófastur í Árnesprófastsdæmi.
Oddur var sonur séra Stefáns Gíslasonar í Odda, sonar Gísla Jónssonar Skálholtsbiskups, og konu hans Þorgerðar Oddsdóttur. Oddur fór ungur utan og nam við Kaupmannahafnarháskóla. Hann var skólameistari í Skálholti frá 1591-1594 en varð þá kirkjuprestur í Skálholti. Sigurður bróðir hans varð þá skólameistari en drukknaði eftir fáeinar vikur í starfi og er ekki ólíklegt að Oddur hafi að einhverju eða öllu leyti stýrt skólanum út skólaárið.
Árið 1595 varð Gísli Einarsson, hálfbróðir Odds biskups, skólameistari en þótti óhæfur og var aðeins í eitt ár. Var þá Oddur fenginn til að gegna skólameistarastarfinu að nýju jafnhliða prestsstarfinu og sinnti því til 1600. Þótti honum farnast skólastjórnin mjög vel. Hann varð svo prestur í Hraungerði í Flóa árið 1600 og í Gaulverjabæ árið 1606. Prófastur í Árnesprófastsdæmi var hann frá 1630. Hann þótti einn hinn helsti klerkur í Skálholtsbiskupsdæmi, var officialis og sinnti biskupsstörfum eftir lát Odds biskups. Til greina kom að hann yrði sjálfur biskup en hann þótti þó of gamall og var Gísli sonur Odds biskups þá valinn.
Fyrri kona Odds var Ingibjörg Eyjólfsdóttir frá Eyvindarmúla og áttu þau nokkur börn. Seinni kona séra Odds var Anna Þorláksdóttir, ekkja eftir séra Guðmund Gíslason, forvera Odds í embætti í Gaulverjabæ.