Gísli Einarsson (prestur í Vatnsfirði)
Gísli Einarsson (um 1571 – 1660) var skólameistari í Skálholti eitt ár og síðan prestur í Vatnsfirði við Ísafjarðardjúp í fjörutíu ár og síðast prestur á Stað á Reykjanesi.
Gísli var sonur séra Einars Sigurðssonar í Eydölum og seinni konu hans Ólafar Þórarinsdóttur og því hálfbróðir Odds Einarssonar biskups. Gísli stundaði nám við Kaupmannahafnarháskóla en kom svo heim og varð skólameistari í Skálholti 1595. Hann þótti þó nær óhæfur til starfsins og lenti það á Oddi biskupi að hafa stöðugt eftirlit með skólanum. Hann var þó ekki skólameistari nema eitt ár. Oddur dæmdi séra Jón Loftsson í Vatnsfirði, sem eitt sinn hafði verið skólameistari í Skálholti skamman tíma, úr starfi fyrir embættisafglöp og vígði þá Gísla bróður sinn i brauðið 1596, en Oddur Stefánsson varð skólameistari. Sagt var að séra Jón hefði beðið þeim sem við Vatnsfirði tæki bölbæna og búnaðist séra Gísla ávallt illa þar þótt hann væri þar í fjóra áratugi, enda bjó hann við mikla ómegð. Á endanum flutti hann sig að Stað á Reykjanesi en séra Jón Arason tók við Vatnsfirði. Gísli var prestur á Stað til um 1653. Þá tók tengasonur hans við prestsembætti þar en Gísli var þar áfram og dó þar fjörgamall 1660.
Gísli var giftur Þórnýju Narfadóttur, sem var dóttir Narfa Ormssonar, sýslumanns og síðasta sjálfseignarbónda í Reykjavík. Hann þótti hafa tekið niður fyrir sig með ráðahagnum: „Þótti sú gipting af rasanda tihlaupi sjálfs hans, reið um Mosfellsheiði um sumarið, gisti á Víkurseli, smalamaður reið heim um nóttina og sagði bónda gestakomuna, hann brá skjótt við, kom að selinu óhentuglega, þótti fleira í sæng dóttur sinnar, en von átti á, sýndist gestinum skárst afráðið, að lofa eiginorði — hún var siðan sótt frá Skálholti til að læra sóma og siðu; veitti tregt þvi tamur er barnsvani.“[1]
Gísli og Þórný áttu fjölda barna og Gísli átti líka eina laundóttur.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Skólameistararöð í Skálholti“. Norðanfari, 59.-60. tölublað 1880.