Sigurður Stefánsson (skólameistari)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Sigurður Stefánsson (d. 1594) var skólameistari í Skálholti í lok 16. aldar en drukknaði eftir fáeinar vikur í starfi. Hann var skáldmæltur og listfengur og sagður mikill lærdómsmaður.

Sigurður var sonur séra Stefáns Gíslasonar í Odda, sonar Gísla Jónssonar Skálholtsbiskups, og konu hans Þorgerðar Oddsdóttur. Hann fór til náms erlendis og var í Kaupmannahafnarháskóla 1593 en kom líklega heim ári síðar og tók þá við stöðu skólameistara í Skálholti af Oddi bróður sínum. Hann var sagður vel lærður og mjög fjölhæfur, latínuskáld, góður söngmaður og málari. Hann orti ljóð á latínu upp úr Samúelsbókum og orti einnig latínukvæði til Arngríms lærða. Hann skrifaði árið 1591 bók um álfa, drauga, svipi, vættir og forynjur, skrifaði um íslenska réttritun, lýsingu Íslands og gerði kort af norðurhöfum.

Fráfall Sigurðar bar aðmeð þeim hætti að hann fór frá Mosfelli og ætlaði til Skálholts ásamt öðrum manni en þegar þeir komu að ferjustaðnum á Brúará kom ferjumaðurinn ekki strax þegar þeir kölluðu og sofnuðu þeir á árbakkanum. Sigurður valt í ána og drukknaði. Lík hans fannst og var hann grafinn í forkirkjunni í Skálholti. Hann var ókvæntur og barnlaus.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • „Saga latínuskóla á Íslandi til 1846. Tímarit hins íslenska bókmenntafélags, 14. árgangur 1893“.
  • „Skólameistararöð í Skálholti. Norðanfari, 59.-60. tölublað 1880“.