Oddur Snorrason

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Oddur Snorrason (var uppi á síðari hluta 12. aldar), var munkur í Þingeyraklaustri og kunnur rithöfundur. Hann var prestur að vígslu.

Fjölskylduhagir[breyta | breyta frumkóða]

Foreldrar Odds voru Há-Snorri Oddsson, og kona hans Ásdís (eða Álfdís) Gamladóttir. Há-Snorri var sagður kominn í beinan karllegg af Steingrími, sem nam land í Steingrímsfirði og bjó í Tröllatungu. Afi Ásdísar var Skeggi skammhöndungur, sem bjó á Bjargi í Miðfirði, systursonur Grettis Ásmundarsonar. Bróðir Ásdísar var Þóroddur Gamlason, sem var yfirsmiður við byggingu fyrstu dómkirkjunnar á Hólum, og tilgátur eru um að hann sé sami maður og Þóroddur rúnameistari, sem nefndur er í formála að málfræðiritgerðunum í Ormsbók Snorra-Eddu.

Lítið er vitað um æviferil Odds, annað en að hann var munkur í Benediktsklaustrinu á Þingeyrum. Klaustrið var þá mikil bókmenntamiðstöð, og voru þar auk Odds, rithöfundarnir Karl Jónsson ábóti og Gunnlaugur Leifsson munkur.

Sagnaritun[breyta | breyta frumkóða]

Oddur Snorrason samdi á latínu Ólafs sögu Odds, sögu Ólafs Tryggvasonar Noregskonungs sem hafði ríki í Noregi árin 995-1000. Þessi latneska frumgerð sögunnar er glötuð, en hún var þýdd á íslensku skömmu síðar (fyrir 1200), og er þýðingin til í tveimur heillegum handritum, og broti úr hinu þriðja. Sagan er oftast kölluð Ólafs saga Tryggvasonar eftir Odd munk, eða Ólafs saga Odds. Erfitt er að segja til um hversu góða mynd íslenska þýðingin gefur af latnesku frumgerðinni. Hins vegar er ljóst að Oddur hefur tekið mið af ævisögum dýrlinga, og lýsir Ólafi Tryggvasyni sem postula Norðmanna. Margt bendir til að Ólafs saga Odds hafi verið tímamótaverk í íslenskum bókmenntum og haft mikil áhrif.

Snorri Sturluson notaði Ólafs sögu Odds þegar hann samdi Heimskringlu, og sama er að segja um aðra höfunda konungasagna, t.d. höfund Ólafs sögu Tryggvasonar hinnar mestu.

Í Yngvars sögu víðförla kemur fram að Oddur hafi fyrstur ritað söguna, en fræðimenn hafa verið vantrúaðir á það, t.d. Finnur Jónsson prófessor. Á síðustu árum þó dregið úr efasemdum manna um þetta, sjá t.d. Margaret Clunies Ross 2000:306-308 og Theodore M. Andersson 2003:3.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Páll Eggert Ólason: Íslenskar æviskrár IV.
  • Theodore M. Andersson (þýð.): Oddr Snorrason. The Saga of Olaf Tryggvason. Cornell University Press, 2003. ISBN 0-8014-4149-8
  • Margaret Clunies Ross: Old Icelandic Literature and Society. Cambridge University Press, 2000. ISBN 0-521-63112-2.
  • Fyrirmynd greinarinnar var „Oddr Snorrason“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 12. apríl 2008.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]