Fara í innihald

Gunnlaugur Leifsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Gunnlaugur Leifsson (d. 1218 eða 1219) var íslenskur rithöfundur og skáld. Hann var munkur í Þingeyraklaustri, en þar var klaustur af Benediktsreglu.

Gunnlaugur samdi sögu Ólafs Tryggvasonar á latínu. Hún er nú glötuð, en talið að hún hafi verið talsvert aukin útgáfa af hinni latnesku Ólafs sögu Tryggvasonar eftir Odd Snorrason, klausturbróður hans á Þingeyrum. Snorri Sturluson studdist að hluta við sögu Gunnlaugs þegar hann vann að Heimskringlu. Kaflar úr verki Gunnlaugs voru teknir upp í Ólafs sögu Tryggvasonar hina mestu, sjá Simpson 2004:166.

Gunnlaugur samdi á latínu sögu Jóns Ögmundssonar hins helga, Hólabiskups. Þetta verk er glatað, en til eru íslenskar þýðingar á sögu Jóns.

Talið er að Gunnlaugur hafi skrifað þátt á latínu um Þorvald víðförla, en hann er aðeins varðveittur í íslenskri þýðingu.

Gunnlaugur mun hafa tekið þátt í að safna til jarteiknabókar Þorláks helga.

Vitað er að Gunnlaugur skrifaði um Ambrósíus kirkjuföður. Nýlegar rannsóknir benda til að Ambrósíus saga, sem er íslensk þýðing á Vita sancti Ambrosii, geti verið verk Gunnlaugs. (Katrín Axelsdóttir 2005:349).

Loks samdi Gunnlaugur Merlínusspá, sem er íslensk þýðing á Prophetiae Merlini eftir Geoffrey frá Monmouth. Myndmálið í þýðingu Gunnlaugs sýnir að hann hafði góða þekkingu á íslenskri skáldskaparlist. Kvæðið er varðveitt í Hauksbók, það skiptist í tvo hluta og er alls 171 erindi, undir fornyrðislagi.