Oddsdalur
Oddsdalur er syðsti dalurinn inn úr Norðfirði á Austfjörðum. Inn úr Norðfirði ganga þrír dalir: Fannardalur er nyrstur, þá Seldalur og syðstur er Oddsdalur. Föst búseta hefur verið í Fannardal og Seldal í aldanna rás, en ekki í Oddsdal. Oddsdalur er umlukinn tignarlegum fjallahring.
Samgönguæð
[breyta | breyta frumkóða]Samgöngur á landi hafa gegnum aldirnar farið um Oddsdal. Fyrrum fóru ferðamenn fótgangandi eða á hestum úr Norðfirði, upp Hátún, yfir Oddsskarð, niður í Sellátradal og þaðan til Eskifjarðar. Eftir að bílvegur var lagður yfir Oddsskarð 1949 hefur vegurinn legið eftir endilöngum Oddsdalnum. Árið 1976 voru Oddsskarðsgöng tekin í notkun. Göngin eru í meira en 600 metra hæð.Göngin eru 605 metra löng.
Fugla- og dýralíf
[breyta | breyta frumkóða]Á Oddsdal verpa fjölmargir fuglar. Fyrst ber þar að nefna rjúpu, einnig verpa þarna algengustu spörfuglar eins og þrestir, mikið er einnig um mófugla: spóa, heiðlóu og hrossagauk. Grágæsir verpa þar til fjalla. Hrafnar verpa í klettum og giljum. Hreindýr fara mikið um Oddsdal á vetrum og á vorin. Þau dvelja þar á beit. Dalurinn er einnig farleið milli hálendisins og svæða á fjörðum þar sem dýrin dvelja langdvölum t.d. Vaðlavík og Sandvík.
Steinaríki
[breyta | breyta frumkóða]Margar steina tegundir eru í Oddsdal og nágrenni. Á svæðinu finnast meðal annars jaspisar og geislasteinar.
Gróðurfar
[breyta | breyta frumkóða]Oddsdalurinn er grösugur neðan til, en lítið er um birkikjarr, kjarr er aðeins neðst í dalnum og er mun minna en í Fannardal og Seldal. Sjaldgæfar plöntur eins og jöklaklukka og lotsveifgras finnast í Oddsdal.
Skíðasvæði/Gamli skíðaskálinn
[breyta | breyta frumkóða]Upp úr 1950 reistu Norðfirðingar skíðaskála í Oddsdal. Þar var skíðasvæði Norðfirðinga þar til skíðamiðstöðin í Oddsskarði var byggð 1978. Gamli skíðaskálinn stendur neðst á framhlaupi í svokölluðum Grashólum neðarlega í Oddsdal. Gamli skálinn þjónaði Norðfirðingum til 1978. Skálinn er nú í einkaeign. Eigandi er Brynja Garðarsdóttir í Neskaupstað.
Gönguleiðir
[breyta | breyta frumkóða]Á Oddsdal eru fjölbreyttar gönguleiðir og gott gönguskíðaland. Hægt er að ganga á fjallatinda og einnig fara fjallvegi bæði til Hellisfjarðar og Viðfjarðar sem og yfir til Reyðarfjarðar.
Um Op frá Kambabrekkum í Reyðarfjörð:
Gengið upp í Op með Lakahnaus á hægri hönd.Farið upp í um 650 metra hæð. Gengið fyrir botn Hellisfjarðar, niður í Helgustaðardal, komið við í Helgustaðarnámunni. Náman var vel þekkt silfurbergsnáma. Þetta er gömul verslunarleið Norðfirðinga yfir í Breiðuvík.
Frá Geithúsaá um Vegahnjúka til Hellisfjarðar.
Gengið frá bílastæði við Geithúsaá. Gengið upp með ánni að austan, upp á brún Kolahlíðar og þaðan tekin stefnan yfir eða framhjá Heystæðismýri gengið að Vegahnjúkum.
Gamla þjóðleiðin, frá Seldalsá að Oddsskarði.
Gengið frá mótum Seldalsár og Hengifossár, upp að Hengifossi í átt að Hátúni. Gengið ofan við Blóðbrekkur að Oddsskarði.
Ár og fossar
[breyta | breyta frumkóða]Áin sem rennur eftir Oddsdal nefnist Hengifossá. Einnig nefnd Oddsdalsá. Í hana rennur síðan minni á er nefnist Geithúsaá. Margir fossar eru í Hengifossá en aðeins tveir eru nafngreindir, Svartifoss og Hengifoss.
Örnefni
[breyta | breyta frumkóða]- Blóðbrekkur
- Mýrarbrekkur undir Hátúni.
- Brattabrekka
- Brekka á þjóðleiðinni upp Hátúnið.
- Bröttubrekkuhjalli
- Hjalli ofarlega á þjóðleiðinni upp Hátúnið.
- Geithúsaá
- Þverá sem rennur í Hengifossá.
- Goðatindur
- Tindur sunnanmegin í Oddsdal og Sellátradal.
- Grashólar
- Fremsti hluti framhlaups, þar stendur gamli skíðaskálinn.
- Grænafell
- Ljóst fjall sunnanmegin í dalnum.
- Hátún
- Formfagurt fjall milli Oddsdals og Seldals.Hátúnið er 747 metra hátt.
- Hengifoss
- Foss neðst í Oddsdal.
- Hengifossá
- Vatnslítil á sem rennur eftir Oddsdal.(Oddsdalsá)
- Huldukonusteinn
- Áningasteinn framarlega í Hátúninu.
- Höllusteinn
- Stór steinn í Blóðbrekkum sem tengist þjóðsögu.
- Höllusteinsbrekka
- Brekkan þar sem Höllusteinn er.
- Kambabrekkur
- Brekkurnar ofan við Svartafoss.
- Kolahlíð
- Hlíðin milli Geithúsaár og Gamla skíðaskála.
- Lakahnaus
- Eldfjallatappi innst í Oddsdal.
- Lágdalsmýri
- Mýri neðst í Oddsdal, ræst fram þegar akvegurinn var gerður.
- Magnúsarklettar
- Klettar innst í Oddsdal.
- Magnúsarskarð
- Skarð milli Oddsdals og Sellátradals.
- Magnúsartindur
- Tindur milli Oddsskarðs og Magnúsarskarðs.
- Oddsskarð
- Skarð milli Oddsdals og Sellátradals, gamla þjóðleiðin.
- Oddsdalsá
- Heiti árinnar vestan Geithúsaár.
- Op
- Skarð milli Lakahnauss og Grænafells.
- Svartafjall
- Hæsta fjall við Oddsdal.
- Svartifoss
- Foss í Oddsdal miðjum.
- Vegahnjúkur
- Fell milli Norðfjarðar og Hellisfjarðar.
- Viðarhólar
- Grösugir hólar ofan við Grashóla.
- Þorgerðarbotnar
- Grösugir botnar fyrir ofan Viðarhóla.