Norska kvennalandsliðið í knattspyrnu
Íþróttasamband | Norska knattspyrnusambandið | ||
---|---|---|---|
Álfusamband | UEFA | ||
Þjálfari | Leif Gunnar Smerud (til bráðabirgða) | ||
Most caps | Hege Riise (188) | ||
Markahæstur | Isabell Herlovsen (67) | ||
FIFA sæti Hæst Lægst | 16 (15. mars 2024) 2 (júlí-ágúst 2003) 16 (des. 2023-mars 2023) | ||
| |||
Fyrsti landsleikur | |||
1-2 á móti Svíþjóð (7. júlí., 1978) | |||
Stærsti sigur | |||
17-0 á móti Slóvakíu (19. september, 1995) | |||
Mesta tap | |||
0-8 á móti Englandi (11. júlí, 2022) |
Norska kvennalandsliðið í knattspyrnu (norska: Norges kvinnelandslag i fotball) er fulltrúi Noregs á alþjóðlegum vettvangi. Liðið hefur löngum verið í hópi öflugustu kvennalandsliða en gullöld þess var á undir lok tuttugustu aldar þegar það varð Ólympíumeistari, heimsmeistari og Evrópumeistari í tvígang. Frá 2013 hefur Noregur hins vegar ekki komist í undanúrslit á stórmóti.
Saga
[breyta | breyta frumkóða]Í evrópsku samhengi var norska kvennalandsliðið stofnað snemma, en þó seint miðað við grannþjóðirnar Svíþjóð og Danmörku. Óopinber vináttulandsleikur milli Noregs og Svíþjóðar fór fram árið 1975 á Nya Ullevi í Gautaborg og lauk með 4:0 sigri gestanna. Fyrsti formlegi leikurinn var þó á Norðurlandamóti sem haldið var árið 1978 og telst það stofnár landsliðsins. Úrslitin fyrstu árin voru ekkert til að hrópa húrra fyrir en fóru þó jafnt og þétt batnandi.
Árið 1983 tók Erling Hokstad við stjórnartaumum landsliðsins og stýrði því til 1989. Liðinu mistókst að komast í úrslitakeppni EM 1984 eftir að hafa lent í öðru sæti í forkeppninni á eftir Svíum sem urðu meistarar. Þremur árum síðar komst norska liðið hins vegar upp úr sterkum forriðili og var ákveðið að fjögurra liða úrslitakeppni EM 1987 færi fram í Noregi. Norsku stúlkurnar unnu Ítali 2:0 í fyrsta leik, sem dæmdur var af Íslendingnum Eysteini Guðmundssyni. Í úrslitunum mættustu svo erkifjendurnir Norðmenn og Svíar á Ullevaal-leikvangnum að viðstöddum nærri 9.000 áhorfendum. Noregur sigraði 2:1 og varð Evrópumeistari í fyrsta sinn.
Næsta Evrópumót fór fram tveimur árum síðar, í Vestur-Þýskalandi. Norðmenn unnu Svía í sínum undanúrslitaleik en mættu heimakonum í úrslitum og töpuðu 4:1. Markaði sigurinn upphafið að drottnunarstöðu þýska landsliðsins sem varð Evrópumeistari í átta af níu mótum í röð.
Ný verkefni
[breyta | breyta frumkóða]Vaxandi vinsældir Evrópumeistaramótsins urðu til þess að FIFA ákvað að efna til fyrstu opinberu heimsmeistarakeppni kvenna og fór hún fram í Kína árið 1991 með þátttöku tólf liða. Forkeppni Evrópumótsins 1991 var jafnframt nýtt sem forkeppni fyrir þetta nýja mót. En í úrslitakeppni EM, sem fram fór í Danmörku unnu norsku stúlkurnar Dani í vítakeppni en töpuðu svo fyrir Þjóðverjum í úrslitunum í framlengdum leik.
Í Kína fékk norska liðið skell gegn heimakonum í fyrsta leik, 4:0, en komst þó áfram í útsláttarkeppnina. Þar voru Ítalir og Svíar lagðir að velli. Noregur mætti svo Bandaríkjunum í úrslitum en mátti sætta sig við silfurverðlaunin eftir 2:1 tap.
Bestar í Evrópu og heiminum
[breyta | breyta frumkóða]Noregur tryggði sér sæti í úrslitakeppni EM 1993 á Ítalíu af fádæma öryggi með markatöluna 24:0 í fjórum leikjum í forkeppninni. Í úrslitakeppninni þurfti liðið hins vegar ekki nema tvö mörk til að tryggja sér Evrópumeistaratitilinn í annað sinn, með 1:0 sigrum fyrst á Dönum og svo á Ítölum. Hege Riise var valin leikmaður úrslitakeppninnar, en hún á flesta landsleiki fyrir norska liðið að baki.
Norska liðinu tókst ekki að verja titilinn tveimur árum síðar, árið 1995. Þá var í fyrsta og eina sinn notast við nýtt keppnisfyrirkomulag þar sem úrslitakeppnin fór ekki fram í einu landi. Undanúrslitaleikirnir fóru fram heima og heiman og tapaði Noregur þar fyrir Svíum.
Svíar voru hins vegar gestgjafar á HM 1995, síðar sama ár. Norðmenn byrjuðu með látum og unnu sinn riðil með markatölunni 17:0 í þremur leikjum. Í fjóðrungsúrslitum unnu Norðmenn Dani 3:1 og Bandaríkjakonur í undanúrslitum 1:0. Í úrslitaleiknum skelltu þær svo ógnarsterku liði Þjóðverja 2:0. Norska liðið var heimsmeistari og til marks um yfirburði þeirra í keppninni þá hlutu þær Hege Riise, Gro Espeseth og Ann Kristin Aarønes gull- silfur- og bronsknöttinn fyrir bestu einstaklingsframmistöðu.
Árið eftir var í fyrsta sinn keppt í knattspyrnu kvenna á Ólympíuleikum í Atlanta 1996. Á meðan knattspyrnukeppnin í karlaflokki hefur lengst af verið lágt skrifuð ungmennakeppni hafa bestu kvennalandsliðin tekið þátt á ÓL og mótið því verið í miklum metum frá upphafi. Noregur sló Þýskaland úr leik í riðlakeppninni og mætti svo bandaríska liðinu sem var dyggilega stutt. Norsku stúlkurnar náðu forystunni en Bandaríkin jöfnuðu og sigruðu svo með gullmarki í framlengingu. Norska liðið fékk þó bronsverðlaun í sárabætur með því að sigra Brasilíu í leiknum um þriðja sætið.
Ólympíugull
[breyta | breyta frumkóða]Tíu árum eftir að hafa síðast gegnt hlutverki gestgjafa á Evrópumóti var komið í hlut Norðmanna að hýsa EM árið 1997. Í forkeppnini hafði norska liðið unnið Slóvakíu 17:0 í leik þar sem Marianne Pettersen skoraði sex mörk. Er það enn metsigur Noregs á knattspyrnuvellinum, kvenna jafnt sem karla. Úrslitakeppnin byrjaði með ágætum þar sem Pettersen skoraði fernu í 5:0 stórsigri á Dönum. Við tók markalaust jafntefli gegn Þjóðverjum, sem talin voru ásættanleg úrslit en óvnæt 2:0 tap á móti Ítalíu þýddi að norska liðinu mistókst að komast í undanúrslitin á sínum eigin heimavelli. Þetta var jafnframt í síðasta sinn sem EM fór fram á tveggja ára fresti og var því breytt í fjögur ár til samræmis við karlakeppnina og til að losna við að HM og EM féllu á sama ár.
Næsta stórmót var því HM í Bandaríkjunum 1999 og einkenndist af aðsóknarmetum í knattspyrnu kvenna sem sum hver áttu eftir að standa lengi. Keppnisliðin voru sextán og fóru Norðmenn upp úr sínum riðli á fullu húsi stiga. Svíar reyndust ekki fyrirstaða í fjórðungsúrslitum en í undanúrslitum var norska liðið kjöldregið af Kína, 5:0. Bronsleikurinn gegn Brasilíu varð markalaus en Suður-Ameríkukonurnar unnu í bráðabana.
Knattspyrnukeppnin á Ólympíuleikunum í Sydney 2000 var æsispennandi. Eftir tap gegn Bandaríkjunum í fyrsta leik máttu norsku stúlkurnar ekki misstíga sig gegn Nígeríu í næsta leik og þurftu svo að hefna ófaranna frá HM á móti Kínverjum í lokaleiknum, sem tókst. Þýskt sjálfsmark í undanúrslitunum þegar tíu mínútur voru til leiksloka fleytti Noregi í úrslitaleik gegn Bandaríkjakonum. Bandaríska liðið náði að knýja fram framlengingu með því að jafna í 2:2 í uppbótartíma en Noregur skoraði eina markið þegar þangað var komið, sigraði 3:2 og hreppt sinn fyrsta og eina Ólympíutitil.
Byrjar að halla undan fæti
[breyta | breyta frumkóða]Ólympíusigurinn 2000 kom nokkuð á óvart, þótt Noregur væri óumdeilanlega í hópi öflugustu kvennalandsliða. Í forkeppni EM 2001 fékk norska liðið til að mynda ekki á sig mark og skellti Englendingum 8:0. Í úrslitakeppninni í Þýskalandi komst Noregur í undanúrslit og tapaði þar fyrir heimakonum 1:0, en sigur þeirra þýsku var þó meira sannfærandi en tölurnar segja til um.
Noregur mætti til leiks á HM 2003 sem fram fór í Bandaríkjunum annað skiptið í röð eftir að Kínverjar neyddust til að gefa mótið frá sér vega SARS-faraldursins. Norska liðið hafnaði í öðru sæti í sínum riðli og þurfti því að mæta gestgjöfunum í fjórðungsúrslitum og tapaði þar 1:0. Norðmönnum tókst ekki að komast á ÓL 2004 til að verja titil sinn. Raunar hefur norska liðið aðeins einu sinni síðan komist á ÓL, í Beijing 2008 þar sem það féll úr leik í fjórðungsúrslitum.
Tapaðir úrslitaleikir
[breyta | breyta frumkóða]EM 2005 fór fram í Englandi og máttu Norðmenn sætta sig við annað sætið í riðli sínum í forkeppninni á eftir Dönum. Í riðlakeppninni skriðu Norðmenn áfram í undanúrslitin á betri markatölu en Ítalir. Þar vann liðið Svía í framlengdum leik en tapaði svo enn og aftur fyrir þýska liðinu í úrslitum.
Heimsmeistaramótið tveimur árum síðar var haldið í Kína. Noregur vann sinn riðil vandræðaliítið og sló svo gestgjafana úr leik í fjórðungsúrslitum. Í undanúrslitum fékk liðið skell gegn Þjóðverjum og tapaði svo fyrir Bandaríkjunum í bronsleiknum.
Finnar voru gestgjafar á EM 2009. Íslendingar voru í fyrsta sinn þátttakendur í úrslitakeppninni en töpuðu öllum sínum leikjum og sátu eftir á meðan Frakkar, Ítalir og Norðmenn komust áfram úr riðlinum. Noregur vann Svíþjóð en tapaði í undanúrslitum gegn Þjóðverjum, ekki var keppt um bronsverðlaun.
2011 mistókst norska liðinu að komast upp úr riðlakeppninni eftir töp gegn Brasilíu og Ástralía í móti sem fram fór í Þýskalandi. Þetta var lakasta frammistaða Noregs í háa herrans tíð.
Á EM í Svíþjóð 2013 komst Noregur í síðasta sinn í fremstu röð. Margrét Lára Viðarsdóttir tryggði Íslandi jafntefli í fyrsta leik riðlakeppninnar en Norðmenn unnu tvo næstu leiki, slógu því næst út Spán í fjórðungsúrslitum og lögðu svo Dani í vítaspyrnukeppni. Í úrslitaleikinum unnu Þjóðverjar enn einu sinni, að þessu sinni 1:0.
Á niðurleið
[breyta | breyta frumkóða]Norðmenn féllu út í riðlakeppni EM 2017 og 2021 (sem fram fór 2022 vegna Covid-faraldursins). Í seinna tilvikinu beið liðið afhroð gegn Englandi, 8:0, sem er stærsta tap Norðmanna í knattspyrnu kvenna.
Á HM 2015 og 2023 féllu Norðmenn úr leik í 16-liða úrslitum en í fjórðungsúrslitum árið 2019.
Titlar
[breyta | breyta frumkóða]Heimsmeistarar (1): 1995
Ólympíumeistarar (1): 2000
Evrópumeistarar (2): 1987, 1993