Fara í innihald

Bjarnargildran í Norðursetu

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kort yfir Norðursetu, Bjarnargildran fyrir ofan miðju

Bjarnargildran er nafn á mannvirki af norrænum uppruna norðarlega á því svæði sem Grænlendingar hinir fornu nefndu Norðursetu. Meðal sagn- og fornleifafræðinga er byggingin þekktust sem Bjørnefælden upp á dönsku. Bygging þessi er utarlega og allhátt á Nuussuaq-skaganum (Eysunesi). Hún er hlaðin úr flötum steinum sem hafa verið teknir á nesinu. Byggingin er vel hlaðin og skiptast á þunnir og þykkir steinar á svipaðan hátt og í norrænum byggingum á Suður-Grænlandi. Ekki er hægt að greina hvenær byggingin var hlaðin.

Í raun er með öllu ókunnugt til hvers húsið var byggt eða til hvaða nota. Byggingin er nánast ferningur að utanmáli, hver hlið um 440 til 450 cm löng. Hleðslan er um 150 cm há. Veggirnir eru mjög þykkir, vesturhliðin 110 cm á þykkt og norðurhliðin 180 cm. Op er inn í hleðsluna austanmegin, um 50 cm breitt og um eins metra hátt, inn að aðalrýminu sem er 230 cm langt og um 120 breitt. Norðan megin er um 50 cm há slétt klöpp sem er eins konar hilla, um 80 cm breið. Meðfram henni er því einungis rúmlega 40 cm breiður gangur sem framhald af innganginum. Ekki er annað að sjá en að hleðslan standi enn eins og hún var hlaðin. Ekki er hægt að sjá hvort eða hvernig þak var yfir byggingunni. Stærð og hlutföll gera það ósennilegt að þetta hafi verið húsnæði til búsetu, það er einnig heldur ósennilegt að það hafi verið hentugt sem gildra fyrir hvítabirni. Sennilegast er að hér hafi verið geymd verðmæti, t.d. rostungstennur, meðan á veiðiferðum stóð.

Poul Egede nefnir Bjarnargildruna árið 1736, fyrstur seinni tíma Evrópumanna. Hann hafði þá verið þar á ferð og rakst á þessa byggingu. Inuítar, ferðafélagar hans, sögðu honum að byggingin væri nefnd Putdlagssuaq á grænlensku (þ.e. Bjarnargildran) og hermdu sögur að norrænir menn hefðu byggt hana til að veiða ísbirni.

  • Bjørnefælden vid Nugssuaq og nordboernes Eysunes i geologisk belysning, Alfred Rosenkrantz, 1967, Tidskriftet Grønland