Fara í innihald

Norður-þýska ríkjasambandið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Norðurþýska sambandið)
Norður-þýska ríkjasambandið
Fáni Skjaldarmerki
Höfuðborg Berlín
Opinbert tungumál Þýska
Stjórnarfar Þingbundin konungsstjórn

Forseti
 -1867–1871

Vilhjálmur 1.
Kanslari
 -1867–1871

Otto von Bismarck
'
 • Stofnun 16. apríl 1867 
 • Upplausn 18. janúar 1871 
Flatarmál
 • Samtals

405.278 km²
Mannfjöldi
 • Samtals (1870)
 • Þéttleiki byggðar

32.914.800
81,22/km²
Gjaldmiðill Vereinsthaler

Norður-þýska ríkjasambandið (Norddeutscher Bund á þýsku) var sambandsríki tuttugu og tveggja þýskra ríkja norðan við Main-fljót sem til var frá 1867 til 1871. Norður-þýska ríkjasambandið var stofnað að undirlagi forsætisráðherra Prússlands, Otto von Bismarcks, í kjölfar stríðs Prússlands og Austurríkis árið 1866 og upplausnar þýska ríkjasambandsins.

Eftir að Prússar sigruðu Austurríkismenn í orrustunni við Königgrätz þann 3. júlí 1866 innlimaði Vilhjálmur 1. Prússakonungur flest ríkin sem höfðu stutt Austurríki: Konungsríkið Hanover, Slésvík-Holtsetaland, hertogadæmið Nassá, kjörfurstadæmið Hesse-Kassel og borgríkið Frankfurt. Hluti stórhertogadæmisins Hesse-Darmstadt norðan við Main-fljót varð einnig hluti af ríkjasambandinu. Austurríkismönnum var haldið utan við sameiningu Þýskalands og neyddust þeir til að samþykkja útþenslu Prússa og upplausn gamla þýska ríkjasambandsins í friðarsáttmála í Prag þann 23. ágúst 1866.

Norður-þýska ríkjasambandið varð til sem hernaðarbandalag þann 18. ágúst 1866 og var þá kallað ágústbandalagið (August-Bündnis á þýsku). Í fyrstu voru aðildarríkin sextán: Prússland, hertogadæmin Saxe-Weimar-Eisenach, Oldenburg, Brúnsvík, Saxe-Altenborg, Saxe-Coburg og Gotha og Anhalt, furstadæmin Schwarzbourg-Sondernshausen, Schwarzbourg-Rudolstadt, Waldeck, Reuss-Gera, Schaumbourg-Lippe og Lippe-Detmold og borgríkin Hamborg, Lübeck og Brimaborg. Á næstu mánuðum bættust við stórhertogadæmin Mecklembourg-Schwerin og Mecklembourg-Strelitz þann 21. ágúst, héröðin Efra-Hessen og stórhertogadæmið Hessen þann 3. september, hertogadæmið Sachsen-Meiningen þann 8. október og konungsríkið Saxland þann 21. október.

Til þess að styggja ekki Napóleon III. Frakkakeisara forðaðist Bismarck að innlima ríkin í suðurhluta Þýskalands (konungsríkin Bæjaraland og Württemberg, stórhertogadæmið Baden og suðurhluta Hesse-Darmstadt) í norður-þýska ríkjasambandið. Vegna þrýstings frá Bismarck samþykktu þessi fjögur ríki þó að gera hernaðarbandalag við Prússland, bæði í varnar- og sóknarskyni. Stjórnarskrá norður-þýska ríkjasambandsins gerði því ráð fyrir að þessi ríki gengju í sambandið þegar fram liðu stundir.

Stjórnarskrá ríkjasambandsins var samþykkt þann 16. apríl 1867 og tók gildi þann 1. júlí sama ár. Konungur Prússlands varð jafnframt forseti norður-þýska ríkjasambandsins og þing sambandsins var sett með tveimur deildum: Sambandsþinginu (Bundesrat) og ríkisþinginu (Reichstag). Konunginum var jafnframt falið að útnefna kanslara sem yrði ábyrgur gagnvart honum einum. Kosið var til ríkisþingsins í einum almennum kosningum en þetta þing hafði í raun lítil völd. Mest völd hafði efri deild þingsins, þar sem Prússland réð lögum og lofum.

Stjórnarskráin var hugarsmíð Bismarcks, sem keyrði sín stefnumál í gegn þar, jafnvel þótt þau væru á öndverðum meiði við skoðanir Vilhjálms Prússakonungs. Stjórnarskráin tryggði yfirburði Prússa innan sambandsins. Með sambandinu tókst Bismarck að stíga fyrsta skrefið í átt að sameiningu Þýskalands árið 1871. Þýska keisaraveldið, sem stofnað var árið 1871, setti sér stjórnarskrá sem var að miklu leyti byggð á stjórnarskrá norður-þýska sambandsins.