Fara í innihald

Nebojsa Knezevic

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Upplýsingar
Fullt nafn Nebojša Knezević
Fæðingardagur 21. febrúar 1987
Fæðingarstaður    Melenci, Serbía
Hæð 196 cm
Þyngd 85 kg
Leikstaða Leikstjórnandi
Meistaraflokksferill1
Ár Lið
2010–2011
2011–2014
2014–2016
2015
2016–2020
2020–2022
KFÍ
Proleter
KFÍ
KFÍ-b
Vestri
Skallagrímur
Þjálfaraferill
2017–2020
2021
2022–2024
Vestri (aðstoðarþjálfari)
Skallagrímur
ÍA

1 Meistaraflokksferill
síðast uppfærður 24. september 2022.

Nebojša Knezević (fæddur 21. febrúar 1987 í Melenci, Serbíu) er serbneskur körfuknattleiksþjálfari og fyrrum leikmaður.

Hann lék fyrst á Íslandi tímabilið 2010–2011 með Körfuknattleiksfélagi Ísafjarðar (KFÍ) í Úrvalsdeild karla þar sem hann var með 14,6 stig og 4,5 fráköst í 22 leikjum. Eftir að tímabilinu lauk gekk hann til liðs við Proleter í serbnesku efstu deildinni.[1]

Hann gekk aftur til liðs við KFÍ haustið 2014[2] og var hann einn besti leikmaður 1. deildarinnar á tímabilinu en hann leiddi deildina í skotnýtingu og stolnum boltum auk þess að vera í topp 10 í stigaskorun, stoðsendingum og framlagsstigum. Mest skoraði hann 43 stig í sigurleik á móti Breiðablik en hann braut 40 stiga múrinn tvívegis og var með 24,7 stig að meðaltali í leik í deildinni.

Hann leiddi KFÍ aftur í stigaskorun tímabilið 2015–2016 með 18,8 stigum auk þess sem hann tók 6,7 fráköst og gaf 3,4 stoðsendingar þrátt fyrir að spila einungis um 24 mínútur að meðaltali í leik. Mest skoraði hann 32 stig í einum leik, en það gerði hann tvívegis og bæði skiptin á móti Ármanni frá Reykjavík.

Tímabilið 2016–2017 deildi hann spilatíma með bandaríkjamanninum Yima Chia-Kur en endaði aftur stigahæstur í liðinu með 18,7 stig að meðaltali í leik auk þess sem hann tók 7,9 fráköst að meðaltali.[3][4]

Eftir að hafa verið búsettur í 3 ár í röð á Íslandi, þá taldist Nebojsa ekki lengur sem erlendur leikmaður samkvæmt reglugerð KKÍ og þurfti því ekki lengur að deila spilatíma með öðrum erlendum leikmanni. Mínútufjöldi hans jókst til muna og lék hann að meðaltali rétt undir 38 mínútum að meðaltali í 27 leikjum í deild og úrslitakeppni. Leiddi hann Vestra í stigaskorun með 23,7 stig ásamt því að leiða 1. deildina með 7,3 stoðsendingum að meðaltali í leik.[5]

Í ágúst 2018 skrifaði hann undir 3 ára framlengingu á samningi sínum við Vestra.[5] Þann 16. desember 2018, skoraði hann 36 stig í óvæntum sigri Vestra á Úrvalsdeildarliði Hauka í Bikarkeppni KKÍ.[6]

Í Apríl 2020 samdi Nebojsa við Skallagrím um að leika með félaginu í 1. deildinni.[7] Tímabilið 2020–2021 glímdi hann við meiðsli og lék 11 deildarleiki þar sem hann var með 17,8 stig, 4,5 fráköst og 4,7 stoðsendingar í leik. Hann lék aukinheldur 6 leiki í úrslitakeppninni þar sem hann var með 17,8 stig, 2,8 fráköst og 5,0 stoðsendingar í leik og hjálpaði Skallagrím í undanúrslit þar sem liðið féll út á móti Vestra. Hann missti af nánast öllu 2021–2022 tímabilinu vegna meiðsla og lagði skóna á hilluna í lok þess.

Þjálfaraferill

[breyta | breyta frumkóða]

Nebojsa var aðstoðarþjálfari hjá Vestra frá 2017 til 2020. Í Október 2021 var hann ráðinn þjálfari liðs Skallagríms í Úrvalsdeild kvenna í stað Gor­ans Milj­evic sem var sagt upp störfum.[8] Nokkrum vikum seinna, þann 9. desember, ákvað stjórn Skallagríms að draga liðið úr keppni.[9] Í júní 2022 var hann ráðinn þjálfari ÍA í 1. deild karla.[10] Hann þjálfaði liðið tvö tímabil þar sem það vann 21 af 49 af leikjum sínum í deild og fór í úrslitakeppni 1. deildarinnar seinna árið þar sem liðið beið lægri hlut fyrir Fjölni.[11]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Nebebojša Knezević košarkaš i trener uživa na Islandu“. sportinfo.rs. 7. ágúst 2017. Afrit af upprunalegu geymt þann 11. ágúst 2017. Sótt 12. janúar 2019.
  2. „Nebojsa Knezevic á leið heim til KFÍ“. Vestri.is. 11. september 2014. Sótt 12. janúar 2019.
  3. „Vestri - 1. deild karla (2017 tímabil)“. Körfuknattleikssamband Íslands. Sótt 24. september 2022.
  4. „Nebojsa semur við Vestra“. Bæjarins besta. 21. apríl 2017. Sótt 12. janúar 2019.
  5. 5,0 5,1 „Körfuknattleiksdeild Vestra semur við Nebojsa“. Bæjarins besta. 1. ágúst 2018. Sótt 12. janúar 2019.
  6. Bjarni Þórarinn Hallfreðsson (15. desember 2018). „Fyrstu deildarlið Vestra sló út deildarmeistara Hauka“. Vísir.is. Sótt 12. janúar 2019.
  7. Ólafur Þór Jónsson (28. apríl 2020). „Nebojsa Knezevic í Skallagrím“. Vísir.is. Afrit af upprunalegu geymt þann 19. maí 2020. Sótt 9. maí 2020.
  8. Kristjana Arnarsdóttir (29. október 2021). „Nýr þjálfari í Borgarnesi“. RÚV. Sótt 24. september 2022.
  9. Einar Örn Jónsson (9. desember 2021). „Skallagrímur dregur lið sitt úr keppni“. RÚV. Sótt 24. september 2022.
  10. „ÍA semur við Nebojsa“. Morgunblaðið. 18. júní 2022. Sótt 24. september 2022.
  11. „Nebojsa yfirgefur ÍA“. Karfan.is. 31. maí 2024. Sótt 31. maí 2024.
  Þetta æviágrip sem tengist körfuknattleik er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.