Nayib Bukele

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Nayib Bukele
Nayib Bukele árið 2019.
Forseti El Salvador
Núverandi
Tók við embætti
1. júní 2019
VaraforsetiFélix Ulloa
ForveriSalvador Sánchez Cerén
Persónulegar upplýsingar
Fæddur24. júlí 1981 (1981-07-24) (42 ára)
San Salvador, El Salvador
ÞjóðerniSalvadorskur
StjórnmálaflokkurNýjar hugmyndir
MakiGabriela Rodríguez (g. 2014)
Börn4
HáskóliMið-Ameríkuháskóli José Simeón Cañas (útskrifaðist ekki)
Undirskrift

Nayib Armando Bukele Ortez (f. 24. júlí 1981) er salvadorskur stjórnmálamaður og núverandi forseti El Salvador. Hann tók við embætti árið 2019 en hafði áður verið borgarstjóri San Salvador frá 2015 til 2018.

Sem borgarstjóri og sem forseti hefur Bukele náð miklum vinsældum með árangri sínum við að draga úr gengjaofbeldi og lækka morðtíðni í landinu. Aftur á móti hefur hann verið sakaður um einræðiskennda stjórnarhætti og um ofríki gegn gagnrýnendum og stjórnarandstæðingum. Bukele er kunnur talsmaður rafmynta og á forsetatíð hans varð El Salvador fyrsta land í heimi sem gerði bitcoin að lögmiðli.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Bukele var kjörinn forseti El Salvador árið 2019 með loforðum um að uppræta spillingu í landinu. Hann er fyrsti forseti landsins í þrjátíu ár sem ekki er úr öðrum af stærstu stjórnmálaflokkum landsins, FMLN og ARENA, sem höfðu farið með öll völd í landinu frá lokum borgarastyrjaldarinnar í El Salvador.[1]

Nayib Bukele varð fljótt gríðarlega vinsæll forseti. Í skoðanakönnunum hafa gjarnan meira en níutíu prósent landsmanna sagt hann standa sig vel eða mjög vel í starfi. Meðal annars hafa þeir hrósað Bukele fyrir árangur hans við að lækka morðtíðni í El Salvador, sem hefur lengst af verið ein sú hæsta í heimi. Jafnframt hefur hann hlotið lof fyrir viðbrögð stjórnar hans við kórónuveirufaraldrinum og fyrir gagnrýni sína á spillingu í stjórnum forvera sinna.[1]

Bukele hefur verið sakaður um valdboðs- og einræðiskennda stjórnarhætti. Í febrúar árið 2020 sendi Bukele hóp þungvopnaðra lögreglu- og hermanna til að ryðjast inn í þinghús El Salvador á meðan hann hélt þar ræðu. Bukele hafði gefið þinginu sjö daga til að samþykkja lántöku upp á hundrað milljónir Bandaríkjadala til þess að kaupa betri vopn og búnað fyrir lögregluna. Þingmenn sögðu þennan gjörning beina hótun í þeirra garð.[2] Bukele hefur talað um gagnrýnendur og andstæðinga sína sem „svikara“ og hefur vegið að sjálfstæðum fjölmiðlum í landinu. Þegar hæstiréttur El Salvador ógilti hluta af sóttvarnaaðgerðum stjórnarinnar hunsaði Bukele niðurstöðuna.[1] Bukele hefur hert tökin á dómstólum enn frekar með því að reka alla dómara sem eru eldri en sextíu ára og með því að skipta út fimm dómurum í hæstarétti landsins.[3]

Þegar Bukele kom til valda hafði hann lítinn stuðning á þingi, þar sem gömlu valdaflokkarnir höfðu enn flest sætin. Í þingkosningum árið 2021 vann flokkur Bukele, Nýjar hugmyndir, hins vegar afgerandi sigur og færði Bukele þannig enn fastari tök á stjórn landsins.[1]

Í baráttu sinni gegn ofbeldisglæpum og hárri morðtíðni í El Salvador hefur Bukele beitt harkalegum aðferðum, meðal annars víðtækari heimild lögreglu til að skjóta glæpamenn til bana. Hann hefur jafnframt látið setja fanga í salvadorskum fangelsum í myrkvaða einangrun og látið innsigla klefa þeirra til þess að koma í veg fyrir samskipti þeirra á milli. Mikla athygli vakti í apríl 2020 þegar Bukele lét mynda hundruðir fanga sem höfðu verið strípaðir niður að nærbuxum og þeir látnir sitja þétt uppi hver við annan.[4]

Þrátt fyrir lækkandi morð- og glæpatíðni á stjórnartíð Bukele færðist gengjaofbeldi í aukana snemma árið 2022. Í lok mars voru tugir manns drepnir í átökum milli glæpagengja, þar á meðal 62 manns á einum degi þann 27. mars. Bukele brást við ofbeldishrinunni með því að lýsa yfir neyðarástandi í einn mánuð.[5] Neyðarástandið felur í sér víðtækari heimildir lögreglu og skerðingu á borgaralegum réttindum.[6] Á tveimur mánuðum eftir upphaf neyðarástandsins höfðu um 36 þúsund manns verið handteknir í aðgerðum lögreglu, eða um tvö prósent allra fullorðinna íbúa El Salvador.[7] Rúmlega 3.000 manns sem höfðu verið handteknir voru hreinsaðir af sök og þeim sleppt í janúar 2023.[8]

Bukele bauð sig fram til endurkjörs árið 2024 þrátt fyrir að stjórnarskrá El Salvador heimili forsetanum aðeins að sitja eitt kjörtímabil. Hann vann afgerandi sigur í kosningunum með um 85 prósentum atkvæða.[9]

Innleiðing bitcoin í El Salvador[breyta | breyta frumkóða]

Bukele er mikill aðdáandi rafmynta og hefur beitt auknum völdum sínum til að stuðla að aukinni notkun þeirra í El Salvador. Í júní árið 2021 samþykkti Bukele frumvarp um að gera rafmyntina bitcoin að lögeyri í landinu. Með lögunum varð verslunum kleift að birta verð í bitcoin og heimilað var að greiða skatta með myntinni. Fjármagnstekjuskattur er hins vegar ekki lagður á myntbreytingar með bitcoin. Stuðningsfólk frumvarpsins sagði að innleiðing bitcoin sem lögmiðils myndi gefa fleiri Salvadorum kost á að nýta sér hefðbundna bankaþjónustu.[10] Í nóvember sama ár kynnti Bukele áætlanir um að láta reisa sérstaka „Bitcoin-borg“ nálægt eldfjallinu Conchagua. Hugmyndir Bukele ganga út á að borgin verði laus við alla tekju- og eignarskatta og að eldfjallið verði orkugjafi fyrir borgina. Áætlað var að bygging borgarinnar yrði fjármögnuð með útboði ríkisskuldabréfa að andvirði eins milljarðs Bandaríkjadollara.[3]

Þegar bitcoin-lögin voru samþykkt var andvirði rafmyntarinnar þegar á niðurleið og virði hennar hafði lækkað um 56% síðasta mánuðinn.[11][12] Árið 2022 varð frekara hrun í andvirði bitcoin til þess að ríkisskuldabréf El Salvador féllu í verði og alþjóðleg matsfyrirtæki lækkuðu lánshæfiseinkunn landsins. Hrun í gengi rafmyntanna olli áhyggjum af því að El Salvador gæti ekki greitt ríkisskuldir sínar við næstu skuldardaga í janúar 2023.[13]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

 1. 1,0 1,1 1,2 1,3 Kjartan Kjartansson (1. mars 2021). „Kosningar gætu fært for­seta með ein­ræðis­til­burði frekari völd“. Vísir. Sótt 13. maí 2022.
 2. Atli Ísleifsson (10. febrúar 2020). „Vopnaðir her­menn ruddust inn í þing­húsið í El Salvador“. Vísir. Sótt 20. maí 2022.
 3. 3,0 3,1 Jónas Atli Gunnarsson (22. nóvember 2021). „Vill byggja „Bitcoin-borg" í El Salvador“. Kjarninn. Sótt 13. maí 2022.
 4. Kjartan Kjartansson (28. apríl 2020). „Fordæma meðferð á föngum í El Salvador“. Vísir. Sótt 20. maí 2022.
 5. Ásrún Brynja Ingvarsdóttir (27. mars 2022). „Vill lýsa yfir neyðarástandi vegna fjölda gengjamorða“. RÚV. Sótt 13. maí 2022.
 6. Ásrún Brynja Ingvarsdóttir (27. mars 2022). „Neyðarlög samþykkt í El Salvador“. RÚV. Sótt 20. maí 2022.
 7. Benedikt Arnar Þorvaldsson (2. júní 2022). „Tvö prósent full­orðinna í El Salvador í fangelsi“. Fréttablaðið. Sótt 9. júní 2022.
 8. Ævar Örn Jósepsson (18. janúar 2023). „Yfir 3.000 grunaðir glæpamenn hreinsaðir af sök og látnir lausir“. RÚV. Sótt 18. janúar 2023.
 9. Þorgils Jónsson (5. febrúar 2024). „Bukele endurkjörinn með yfirburðum í El Salvador“. RÚV. Sótt 5. febrúar 2024.
 10. Þorvarður Pálsson (9. júní 2021). „Bitc­o­in nú lög­mæt­ur gjald­mið­ill í El Salv­ad­or“. Fréttablaðið. Sótt 13. maí 2022.
 11. Bjarki Sigurðsson (8. júní 2021). „Stórar fregnir úr Bitcoin-heiminum“. DV. Sótt 13. maí 2022.
 12. Árni Sæberg (9. júní 2021). „Bitcoin löggiltur gjaldmiðill í El Salvador“. Vísir. Sótt 20. maí 2022.
 13. Kjartan Kjartansson (12. maí 2021). „El Salvador á barmi greiðslufalls vegna Bitcoin-hruns“. Vísir. Sótt 13. maí 2022.


Fyrirrennari:
Salvador Sánchez Cerén
Forseti El Salvador
(1. júní 2019 –)
Eftirmaður:
Enn í embætti