Náttúruverndarráð Íslands

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Náttúruverndarráð var ráðgefandi nefnd á vegum íslenska ríkisins sem varð til með nýjum náttúruverndarlögum árið 1956. Sams konar ráð höfðu þá starfað á hinum Norðurlöndunum um nokkurt skeið. Náttúruverndarlögin voru fyrsta löggjöfin sem fjallaði almennt um náttúruvernd á Íslandi en þar var áhersla lögð á verndun náttúruminja. Gert var ráð fyrir því að í hverri sýslu starfaði náttúruverndarnefnd sem gæti skotið málum til náttúruverndarráðs. Ráðið heyrði undir menntamálaráðuneytið. Meðal þess fyrsta sem ráðið beitti sér fyrir var friðun hraunhella í Gullborgarhrauni og Rauðhóla við Reykjavík.

Í Náttúruverndarráði voru forstöðumenn þriggja deilda Náttúrugripasafnsins (jarðfræði, grasafræði og dýrafræði), einn fulltrúi Búnaðarfélags Íslands, einn fulltrúi Skógræktarfélags Íslands og einn fulltrúi Verkfræðingafélags Íslands og loks sjöundi fulltrúinn, lögfræðingur sem gegndi formennsku í ráðinu og var valinn af menntamálaráðherra.

Árið 1971 var náttúruverndarlögunum breytt. Ráðherra valdi áfram formann ráðsins og varaformann en aðrir í Náttúruverndarráði voru kosnir á Náttúruverndarþingi. Þá var opnuð skrifstofa Náttúruverndarráðs og starfsemi þess jókst mjög mikið.

Árið 1996 var lögum um náttúruvernd enn breytt. Frá upphafi árs 1997 var fulltrúum í Náttúruverndarráði fjölgað í níu, einn tilnefndur af Náttúrufræðistofnun Íslands, Háskóla Íslands, Bændasamtökum Íslands, Ferðamálaráði og skipulagsstjóra ríkisins, þrír kosnir af Náttúruverndarþingi og formaðurinn skipaður án tilnefningar af umhverfisráðherra. Þá breyttist aftur starfsvið náttúruverndarráðs því að ný stofnun, Náttúruvernd ríkisins, tók við skrifstofu ráðsins. Árið 2001 ákvað svo Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra að leggja Náttúruverndarráð niður. Eftir miklar deilur um Kárahnjúkavirkjun 2003-4 þar sem Náttúruvernd ríkisins hafði meðal annarra sett sig upp á móti framkvæmdinni, var sú stofnun lögð niður innan umhverfisráðuneytisins.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.