Fara í innihald

Búnaðarfélag Íslands

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Búnaðarfélag Íslands, formlega stofnað 1899, var íslenskt hagsmunafélag bænda sem hafði framfarir í landbúnaði að meginmarkmiði. Félagið starfaði til ársins 1975, er það sameinaðist Stéttarsambandi bænda. Árið 1995 var nafni þessara samtaka formlega breytt í Bændasamtök Íslands.[1]

Upphaf og stofnun

[breyta | breyta frumkóða]

Forveri Búnaðarfélags Íslands var Suðuramtsins húss- og bústjórnarfélag, stofnað 28. janúar 1837. Framhaldsstofnfundur var svo haldinn 8. júlí sama ár. Þetta fyrsta félag um íslenskan landbúnað á því tvenna afmælisdaga. Sérstakt verður að teljast að þetta fyrsta félag um framfarir í landbúnaði var alls ekki stofnað af bændum heldur nokkrum æðstu embættismönnum landsins. Stofnendur voru Þórður Sveinbjörnsson, háyfirdómari, fyrsti forseti félagsins, De Krieger, stiftamtmaður, biskup Íslands, dómkirkjupresturinn í Reykjavík, sýslumaður Árnessýslu, landlæknir, tveir bændur og einn kaupmaður. Félag þetta átti margt sameiginlegt með Konunglega danska landbúnaðarfélaginu, sem var stofnað 1769. Suðuramtsins húss- og bústjórnarfélag starfaði aðeins í Suðuramtinu, eins og nafnið ber með sér. Árið 1873 var félagið kallað Búnaðarfélag Suðuramtsins. Árið 1899 var nafni félagsins og lögum formlega breytt, og hét eftir það Búnaðarfélag Íslands. Saga þessa félags er í stuttu máli sú að það varð fjölmennt eftir 1873, og Alþingi veitti fé til starfsemi þess eftir að það fékk fjárveitingavald. Mikið af starfsemi félagsins fór fram með styrkveitingum til einstakra bænda.

Starfsemi Búnaðarfélags Íslands og þróun

[breyta | breyta frumkóða]

Búnaðarfélag Íslands hafði með höndum að sjá um að halda árleg Búnaðarþing, en lög um þau voru sett árið 1899. Fyrsta Búnaðarþingið kom saman sama ár og lögin voru sett. Ekki má rugla saman Búnaðarfélagi Íslands, Búnaðarþingi og búnaðarsamböndum einstakra landshluta, en síðarnefndu samböndin voru félög sem flest voru stofnuð á fyrsta áratug 20. aldar. Þau voru í fyrstu ekki með aðild að Búnaðarfélagi Íslands, en höfðu sjálfstæða starfsemi í hinum ýmsu landshlutum. Þannig var Ræktunarfélag Norðurlands stofnað árið 1903, og Búnaðarfélag Suðurlands 1908. Á þessum árum voru jafnframt stofnuð búnaðarsambandsfélög á Vestfjörðum og Austfjörðum. Um 1930 varð sú breyting að Ræktunarfélag Norðurlands, sem þó hélt áfram að starfa undir því nafni, var ekki lengur búnaðarsamband, en búnaðarsambönd voru stofnuð í öllum sýslum Norðurlands. Næsta stóra sporið í skipulagi Búnaðarfélags Íslands var tekið árið 1937, en það ár kusu búnaðarsamböndin sjálf í fyrsta sinn alla fulltrúa á Búnaðarþing með beinni kosningu. Búnaðarþing var haldið árlega frá og með 1950. Skipulag þessara félaga byggðist á kerfi þar sem minni félagseiningar áttu aðild að stærri einingum. Bændur landsins áttu aðild að svonefndum hreppabúnaðarfélögum. Hreppabúnaðarfélögin mynduðu 15 búnaðarsambönd, sem aftur áttu aðild að Búnaðarfélagi Íslands. Búnaðarfélag Íslands var sjálfstætt félag og kusu fulltrúar á Búnaðarþingi því stjórn.

Hlutverk Búnaðarfélags Íslands varð fljótlega að fara með eins konar framkvæmdavald, eða að hrinda lögum og reglugerðum sem ríkið setti í framkvæmd. Fylgdi þessu umfangsmikil vinna og starfsemi, sem greindist í marga, aðskilda þætti. Jarðræktarlögin frá 1923 og búfjárræktarlögin 1931 voru merkir áfangar í starfsemi Búnaðarfélags Íslands. Með jarðræktarlögunum var stjórn jarðræktunar í landinu færð til Búnaðarfélags Íslands, sem sá um að koma lögunum í framkvæmd. Lögin taka til opinbers stuðnings við jarðrækt og húsabætur í öllum sveitum landsins. Meðal þeirra skyldna sem voru lagðar á félagið var ráðning ráðunauta í landbúnaði og umfangsmikil leiðbeiningarþjónusta fyrir bændur. Búreikningastofa var jafnframt rekin af félaginu til aðstoðar bændum um bókhald búa sinna.

Búnaðarfélag Íslands hafði allmikla útgáfustarfsemi með höndum áratugum saman. Fyrst má nefna útgáfu Búnaðarritsins frá 1899 og Freys frá 1936. Auk þess voru gefnir út ýmsir leiðbeiningabæklingar fyrir bændur um einstaka þætti landbúnaðar og bækur um ýmis efni.[2]

Staða landbúnaðar á tímamótum

[breyta | breyta frumkóða]

Í viðtali við Hjört E. Þórarinsson bónda á Tjörn í Svarfaðardal, formann Búnaðarfélags Íslands, í tilefni af 150 ára afmæli félagsins 1987 kom fram að áhrifa félagsins hefði gætt víða í íslensku þjóðfélagi. Búnaðarþingin voru þungamiðja starfseminnar, þar sem stefna var mörkuð og mál afgreidd. Óskað var eftir áliti félagsins um mörg og mismunandi málefni, m.a. af Alþingi. Félagið skipaði einnig fólk í margar stjórnir, nefndir og ráð. Meðal þeirra voru Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Bjargráðasjóður, Stofnlánadeild landbúnaðarins og Veiðimálastjórn. Þar sem þetta var afmælisár félagsins var ákveðið að halda mikla landbúnaðarsýningu í Reiðhöllinni í Víðidal, og áætlað var að hafa þar stærsta sýning sem haldin hafði verið á landinu til þess tíma. Hjörtur taldi styrk Búnaðarfélagsins einkum liggja í því hversu mikið félagið hefði endurnýjað sig og fylgst með tímanum. Starfsemin hefði aukist og breitt úr sér eftir því sem nýjar búgreinar væru teknar upp. Þetta sæist vel með því að skoða fjölgun ráðunauta á ýmsum sérsviðum landbúnaðarins. Um vandamál ársins 1987 sagði Hjörtur að krafa um samdrátt í framleiðni landbúnaðarins hefði komið á óvart og skapað neikvæðan anda um ýmislegt. Meðal annars væru ráðunautar nú að ráðleggja um hvernig mætti halda uppi framleiðni með lægri tilkostnaði, en auk þess vantaði talsvert á að nægilega margir ráðunautar væru í starfi hjá félaginu, og nefndi hann loðdýrarækt og garðyrkju sérstaklega í því sambandi. Þá minnti Hjörtur á að Búnaðarfélagið vildi stuðla að jafnvægi í byggð landsins, og að reyna að hindra að sveitabýli færu í eyði. Að lokum tók hann fram að hann vildi sjá fleiri konur taka að sér forystuhlutverk í samtökum bændastéttarinnar, og taldi að það myndi koma smám saman þannig að meira jafnvægi yrði í stöðu kynjanna á þeim vettvangi.[3]

Síðasta þing Búnaðarfélags Íslands 1995

[breyta | breyta frumkóða]

Á síðasta þingi Búnaðarfélags Íslands, sem var haldið í mars 1995, var ljóst að kjósa þyrfti nýjan formann hinna nýju bændasamtaka. Þrír menn voru í framboði til þessa embættis: Jón Helgason, fráfarandi formaður Búnaðarfélags Íslands, Haukur Halldórsson, formaður Stéttarsambands bænda, og Ari Teitsson, búnaðarþingsfulltrúi Suður-Þingeyinga og ráðunautur á Hrísum í Reykjadal. 38 þingfulltrúar tóku þátt í kjörinu. Þessir þrír frambjóðendur voru spurðir að því hver væru meginverkefnin fyrir hin nýstofnuðu bændasamtök. Jón Helgason taldi að brýnast væri að koma í veg fyrir "stórkostlegt slys" vegna erfiðrar stöðu og sívaxandi vanda bændastéttarinnar í landinu. Þá lagði hann áherslu á framtíðarmöguleika íslensks landbúnaðar. Haukur Halldórsson lagði áherslu á að ná samkomulagi við ríkisvaldið um kjör landbúnaðarins næstu árin. Þá væri nauðsynlegt að auka tekjur í landbúnaði og takast sérstaklega á við vandann í sauðfjárræktinni og garðyrkjunni. Ari Teitsson benti á að afkoma sauðfjárbænda væri að hruni komin og stöðva þyrfti þá þróun, og styðja við allar búgreinar. Hann vildi auka samræmi í vinnubrögðum og nýta fagþekkingu betur en gert væri. Ari Teitsson var talinn forsvarsmaður óánægjuradda innan bændahreyfingarinnar, ekki síst sauðfjárbænda, og einn af helstu gagnrýnendum þáverandi stjórnar Búnaðarfélags Íslands.[4] Ari Teitsson var síðan kosinn fyrsti formaður hinna nýju bændasamtaka hinn 15. mars 1995 með 22 atkvæðum. Haukur Halldórsson fékk 16 atkvæði og Jón Helgason 9 atkvæði.[5]

Bændahöllin

[breyta | breyta frumkóða]

Bygging Bændahallarinnar var stærsta einstaka verkefni Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda. Byggingin var ein sú stærsta í Reykjavík á þeim tíma sem hún var reist, en húsið var nánast fullbúið í desember 1964. Kostnaður við bygginguna var 130 milljónir króna. Í þessari byggingu var margvísleg starfsemi. Hótel Saga, veitingasalir og samkvæmissalir tóku stærsta hluta hússins. Flugfélag Íslands leigði heila hæð fyrir starfsemi sína. Búnaðarfélag Íslands og Stéttarsamband bænda höfðu þar starfsemi sína, þar var leiðbeiningarþjónusta landbúnaðarins, ráðunautar, skrifstofur sem Búnaðarfélagið rak fyrir landbúnaðarráðuneytið, skrifstofa Stéttarsambands bænda, ofl. Upplýsingaþjónusta Bandaríkjanna og Búnaðarbankinn leigðu líka hluta hússins.[6]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]


  1. „Framtíð bændsamtaka Íslands“.
  2. „Samtök um framfarir í landbúnaði 150 ára“.
  3. „Hjörtur E. Þórarinsson: Búnaðarfélagið síungt þrátt fyrir 150 árin“.
  4. „Óvissa um hver úrslit verða í kosningunum“.
  5. „Ari Teitsson kjörinn formaöur Bændasamtaka íslands“.
  6. „Flutt í Bændahöllina“.