Fara í innihald

Myndhöggvarafélagið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Myndhöggvarafélagið í Reykjavík er félagasamtök myndlistamanna við Nýlendugötu 15 í Reykjavík. Félagið var stofnað árið 1972. Það veitir félagsmönnum aðstöðu til að vinna að myndlist sinni í húsnæði félagsins. Í húsinu eru einnig tólf vinnustofur til útleigu.

Undanfari (1967-1971)

[breyta | breyta frumkóða]

Myndhöggvarafélagið í Reykjavík hefur síðastu áratugina verið mjög virkt og telur nú í kringum 130 félagsmenn. Strax í upphafi var stefnt að því að koma upp sameiginlegri vinnuaðstöðu fyrir félagsmenn og standa að öflugu sýningarstarfi. Félagið hefur allt frá byrjun sameinað mjög breiðan hóp listamanna, unga jafnt sem eldri og þá sem vinna í hefðbundna miðla ekki síður en hina sem fara ótroðnar slóðir.

Stofnun Myndhöggvarafélagsins í Reykjavík á sér aðdraganda í óformlegum útisýningum sem haldnar voru á Skólavörðuholti árin 1967 til 1972, en þær sýningar spönnuðu mikla umbreytingatíma í íslenskri myndlist. Ýmsir komu að þessum sýningum, bæði eldri listamenn og þeir yngri en til dæmis má nefna að á sýningunni 1969 sýndu bæði Magnús Á. Árnason sem fæddur var árið 1894 og Benóný Ægisson, fæddur 1952. Þar var líka að sjá mjög ólíka listamenn saman, Dieter Roth, Ragnar Kjartansson, Sigurjón Ólafsson, Jón Gunnar Árnason, Þorbjörgu Pálsdóttur og Kristján Guðmundsson, svo nokkrir séu nefndir.

Fyrsta útisýningin var haldin að hausti 1967 á vegum Skólafélags Myndlistarskólans í Reykjavík, en þar fór fram á kvöldnámskeiðum kennsla í höggmyndalist. Aðalumsjón með sýningunni höfðu þeir Ragnar Kjartansson, sem kenndi við skólann, og Jón Gunnar Árnason, en auk þeirra var Jón B. Jónasson í sýningarnefnd. Alls sýndu þar sautján listamenn. Geir Hallgrímsson borgarstjóri var fenginn til að vera viðstaddur opnunina og sagðist vera ánægður með það hvernig til hefði tekist. Mikið var fjallað um sýninguna í blöðum og margt skrafað í bænum. Fjölmargir lögðu leið sína á holtið til að skoða sýninguna og segir Bragi Ásgeirsson í gagnrýni í Morgunblaðinu að ávallt hafi verið hópur manna kringum verkin. Ekki voru þó allir sáttir við þetta framtak því mörg verkin voru nýstárleg og á mörkum þess sem almenningi þótti viðeigandi að kalla list – voru jafnvel hneykslanleg að því er sumum þótti. Þrándur í Götu, nafnlaus pistlahöfundur Vísis skrifaði: „Það er engin furða, að fólk sé yfirleitt hissa. Það getur verið gaman að svona sýningu einu sinni í ‚gamni‘ en það má engin lifandi sála gera svona í alvöru, þá fer maður að halda að aðstandendur sýningarinnar séu skrýtnir.“ Fleiri tóku til máls á þessum nótum og meðal annars voru ummæli Árelíusar Níelssonar birt í Morgunblaðinu: „Er íslenzk höggmyndalist að komast í sama bylgjudalinn og knattspyrnan? Það mætti halda, að svo væri, þegar litið er á útisýningu unga listafólksins við Ásmundarsal. Hvílík fádæmi!“

Gagnrýnendur lofuðu þó framtakið og þann kraft sem í því birtist, jafnvel þeir sem ekki virtust eiga gott með að ráða í verkin. Gretar Fells skrifaði gagnrýni um sýninguna í Alþýðublaðið í þessum anda, hann hrósar framtakinu en segir: „Margt er þar furðulegt að sjá og erfitt að átta sig á, hvað eigi að tákna ..." Bragi Ásgeirsson mun einn hafa skrifað um sýninguna án þess að kippa sér upp við inntak eða framsetningu verkanna. Hann fann hins vegar að uppsetningu þeirra og þótti ekki hafa verið nægilega vandað til, enda fór svo að eitt verkið, Flugdreki eftir Sverri Haraldsson, fauk burt og fleiri verk skemmdust. Þá gjöreyðilögðu skemmdarvargar verk Ragnars Kjartanssonar, Klyfjahestana.

Í kjölfar sýningarinnar ákváðu borgaryfirvöld að styrkja tvo myndhöggvara, þá Hallstein Sigurðsson og Jón Gunnar Árnason, og var litið á styrkina sem greiðslu upp í verk sem þeir afhentu borginni seinna.

Það er óhætt að segja að þessi fyrsta útisýning á Skólavörðuholtinu hafi markað nokkur tímamót í myndlistarlífinu í Reykjavík og var til marks um þann anda sem ríkti í myndlistinni á þessum tíma. SÚM hafði nýlega verið stofnað utan um starfsemi ungra listamanna sem hneigðust að fluxus og ýmiss konar nýlist, en Jón Gunnar Árnason var þar einna fremstur í flokki líkt og við skipulagningu útisýningarinnar. Það sem líklega var þó einna sérstæðast við útisýninguna var að þar tóku höndum saman yngri listamenn og eldri, þeir sem stunduðu hefðbundna höggmyndalist, fígúratífa eða afstrakt, og hinir sem unnu í anda nýlista. Þessi breiða samstaða hélst meðan útisýningarnar voru haldnar og eftir að Myndhöggvarafélagið í Reykjavík var stofnað, og hefur alla tíð einkennt starfsemi þess.

Málaralistin hafði verið nær allsráðandi í íslensku myndlistarlífi frá upphafi tuttugustu aldarinnar. Nokkrir merkir myndhöggvarar höfðu þó komið upp, meðal annarra Einar Jónsson og síðar þau Ásmundur Sveinsson, Sigurjón Ólafsson, Jóhann Eyfells og Gerður Helgadóttir. En þótt þau ynnu mikið og nytu virðingar voru þau greinilega undantekning frá reglunni sem ávallt var málverkið. Lítil endurnýjun var meðal myndhöggvara enda lítil áhersla lögð á höggmyndalist í listnámi hér. Það var síðan upp úr miðjum sjöunda áratugnum að yngri listamenn fóru að leita eftir öðrum tjáningarleiðum en málverkinu og horfðu þá einkum til þeirra fersku strauma sem þá voru farnir að berast til Íslands frá meginlandinu og frá Bandaríkjunum. Fólk var farið að búa til listaverk úr bókstaflega hverju sem var og enginn hlutur var svo ómerkilegur að ekki mætti nýta hann í verk ef hugmyndin að því væri góð. Þetta var frelsandi uppgötvun því nú var hugarflugið ekki lengur bundið af hefð, reglum og samanburði við verk fortíðarinnar og eldri listamanna en í henni fólst einnig mikil ögrun við hið borgaralega samfélag samtímans þar sem allt skyldi vera fágað og slétt og í föstum skorðum, bæði líf fólks og listin. Mikilvægi þessarar ögrunar og uppbrotsins sem því fylgdi má hægast ráða af viðbrögðunum við fyrstu útisýningunni á Skólavörðuholti þar sem íslenskur almenningur stóð í fyrsta sinn frammi fyrir hinni nýju list og var hneykslaður og heillaður í senn af uppátækinu.

Útisýningar voru haldnar næstu tvö ár og árið 1970 var sýningin orðin liður í dagskrá Listahátíðar í Reykjavík, og svo var einnig árið 1972. Sýningarnar vöktu athygli og urðu fastur liður í menningarlífinu. Fólk hætti að mestu að hneykslast á verkunum og friður var um sýningarnar þótt sum verkin þættu undarleg. Eitt þeirra sem mjög var rætt um á sýningunni 1970 var verkið Vörðubrot eftir Kristján Guðmundsson en það var hlaðið úr brauði. Verkið var hins vegar fjarlægt af heilbrigðisyfirvöldum þegar brauðin fóru að mygla.

Stofnun félagsins

[breyta | breyta frumkóða]

Sumarið 1972 var loks tekin sú ákvörðun að stofna formlegt félag myndhöggvara, Myndhöggvarafélagið í Reykjavík, og var það gert á afmælisdegi Ragnars Kjartanssonar, 17. ágúst. Fyrsti formaður félagsins var Magnús Á. Árnason, Ragnar Kjartansson var ritari og Sigfús Thorarensen tannlæknir var gjaldkeri. Aðrir stofnfélagar voru Þorbjörg Pálsdóttir, Hallsteinn Sigurðsson, Sigrún Guðmundsdóttir, Magnús Tómasson, Jón Gunnar Árnason, Sigurður Steinsson, Jón B. Jónasson, Jón Benediktsson, Guðmundur Benediktsson, Snorri Sveinn Friðriksson og Björgvin Sigurgeir Haraldsson.

Eitt brýnasta verkefni félagsins var að finna hentuga aðstöðu og sumarið 1973 leitaði félagið til Reykjavíkurborgar um að fá á leigu húsnæði á Korpúlfsstöðum þar sem myndhöggvarar gætu unnið að verkefnum sínum. Þessari málaleitan var vel tekið og fékk félagið leigusamning til tuttugu ára og „ódýrustu leigu, sem um getur í Íslandssögunni", eins og Ragnar Kjartansson komst að orði í sýningarskrá árið 1974 – leigan var ein króna á ári. En húsnæði þetta var þó illa farið og óhentugt, súrheysturnar og gryfjur, auk tveggja íbúða austast í húsinu sem höfðu skemmst illa í eldi. Þarna var hvorki rafmagn né hiti, engri einangrun var fyrir að fara og húsið allt óþétt, en félagsmenn töldu þó að framfaraspor hefði verið stigið. Þremur árum seinna, árið 1976, tókst svo að skipta á súrheysgeymslunum og hlöðulofti sem lá að íbúðunum tveimur svo hægt var að opna á milli. Þá fengust líka styrkir frá ríki og borg til að gera húsnæðið nothæft og voru reistir veggir, þakið einangrað og lagt í salina rafmagn og hiti. Aðstaðan var formlega opnuð á Listahátíð 1980 og sagði Ragnar Kjartansson þá í blaðaviðtali að þetta væri stærsta og besta vinnustofa fyrir myndhöggvara á öllum Norðurlöndum. Vinna við húsnæðið hélt þó áfram og smátt og smátt var aukið við plássið svo að árið 1988 höfðu félagsmenn til afnota um 1000 fermetra á Korpúlfsstöðum. Þar var þá stór vinnusalur, fjórar vinnustofur sem leigðar voru út, fundaraðstaða og gestaíbúð.

Aðstöðumálin hafa alla tíð verið mikilvægur þáttur í starfi Myndhöggvarafélagsins. Meðlimir lögðu fram mikla vinnu við að koma húsnæðinu á Korpúlfsstöðum í lag og nutu við það góðs samstarfs við borgaryfirvöld allt þar til árið 1989 að farið var að endurskoða hlutverk Korpúlfsstaða, en að því verður komið síðar.

Árið 1974 var útisýning á Listahátíð í fyrsta sinn haldin á vegum hins nýstofnaða Myndhöggvarafélags og var hún þá sett upp í Austurstræti í stað Skólavörðuholtsins. Þar með var sýningin komin í hjarta bæjarins og þetta var reynt aftur á Listahátíð 1976. Þá sýndu fimmtán listamenn í Austurstræti og vakti sýningin mikla athygli, en fljótlega fór að bera á skemmdarverkum og vandræðum með verkin. Verk Vignis Jóhannssonar, sex metra hátt járnvirki, hvarf um hábjartan dag og spannst af því nokkurt blaðamál, enda þótti þetta með ólíkindum bíræfinn þjófnaður. Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að starfsmenn borgarinnar höfðu fjarlægt verkið þótt ekki fengist skýring á því hvers vegna það var gert. Þá voru skemmdir unnar á átta verkum og eitt verkanna datt ofan á fót á barni sem meiddist nokkuð mikið svo fara þurfti með það á sjúkrahús. Allt þetta gerðist þrátt fyrir að miðbæjarlögreglan segðist hafa verið með gæslu á sýningunni dag og nótt.

Árið 1976 hafði fjölgað nokkuð í félaginu og tók þá einn hinna yngri félagsmanna, Níels Hafstein, við formannsstarfinu. Fyrir næstu Listahátíð, 1978, var ákveðið að flytja sýningu Myndhöggvarafélagsins inn í hús. Varð Ásmundarsalur fyrir valinu og sýndu þar tólf félagsmenn en auk þeirra voru á sýningunni verk eftir Sigurjón Ólafsson. „Þessi sýning, eins og flestar sýningar okkar, einkennist öðru fremur af mikilli breidd í vali verka," sagði Ragnar Kjartansson og bætti því við að sýningin væri nú haldin innan dyra vegna skemmdarverkanna sem unnin höfðu verið á sýningunum í Austurstræti. „Með því að halda innisýningu teljum við okkur hafa snúið á skemmdarvargana sem á undanförnum útisýningum hafa herjað á höggmyndir okkar."

Á Þessum árum unnu félagsmenn mikið starf við að endurbæta húsnæðið á Korpúlfsstöðum og gera það nothæft en þó var jafnframt því unnið að sýningum og í júlí 1979 hófst sýning Myndhöggvarafélagsins á Kjarvalsstöðum sem liður í dagskránni „Sumar á Kjarvalsstöðum“. Þar voru sýnd verk eftir sextán myndhöggvara og mátti vel sjá hve mikil breidd var í félagsskapnum, sumir sýndu hefðbundin natúralísk verk, aðrir afstraktmyndir og enn aðrir það sem nú væri líklega kallað innsetningar. Við opnun sýningarinnar flutti Rúrí gjörning. Þetta sýndi ekki aðeins þá fjölbreytni sem var í listsköpun heldur var líka til vitnis um hina umburðarlyndu stefnu félagsins, en Ragnar Kjartansson sagði einmitt í blaðaviðtali út af sýningunni að það væri „... eitt af markmiðum okkar í Myndhöggvarafélaginu að forðast allan meting um strauma í listum“.

Árið eftir, í júní 1980, opnaði félagið loks sýningu í sínu eigin húsnæði á hlöðuloftinu á Korpúlfsstöðum og voru þar verk eftir fimmtán félagsmenn og ellefu gesti. Sigurjón Pétursson, forseti borgarstjórnar, setti sýninguna og margt var á opnuninni enda veður gott og fólk forvitið að skoða aðstöðuna. Sýningin sjálf fékk þó misjafna dóma og skrifaði Valtýr Pétursson í Morgunblaðið að „hún hefði getað verið miklu betri og hún verður að verða miklu betri næst, þegar ýtt verður úr vör“. Hrafnhildur Schram skrifaði um sýninguna í Vísi og segir nokkurn flaustursbrag á henni þótt hún lofi framtakið og óski myndhöggvurum til hamingju með nýju aðstöðuna. En þetta sama sumar var hins vegar sett upp önnur sýning við Korpúlfsstaði, viðamikil útisýning sem fékk yfirskriftina Experimental Environment 1980 og var unnin með styrk frá Menningarsjóði Norðurlanda og menntamálaráðuneytinu. Þar sýndu íslenskir listamenn, margir þeirra meðlimir í Myndhöggvarafélaginu, með listamönnum frá hinum Norðurlandaþjóðunum og teygði sýningin sig um stórt svæði, allt neðan úr fjöru og upp á Úlfarsfellið. Verkin voru af ýmsum toga og þóttu flest nýstárleg, umhverfislistaverk, gjörningar, kvikmyndasýningar og landskúlptúrar. Var þessi sýning bæði frískleg og kröftug og áhorfendur jafnt sem listamennirnir sjálfir nutu þess frjálsræðis sem fólst í því að sýna verkin úti í náttúrunni. Í grein um sýninguna vitnar Bragi Ásgeirsson í einn þátttakendanna sem hafði einfaldlega sagt: „Nú er gaman að vera listamaður á Íslandi!“

Jón Gunnar Árnason tók við formannsstarfinu af Níels Hafstein árið 1981 og sinnti því til 1983 að Helgi Gíslason varð formaður. Árið 1985 urðu aftur formannsskipti og var þá Steinunn Þórarinsdóttir kjörin. Á þessum árum var hljótt um félagið ef miðað er við það mikla sýningarhald sem það hafði staðið fyrir árin á undan. Mikið átak hafði verið unnið við að koma upp aðstöðu og nú unnu félagar þar og réðu ráðum sínum. Næsta sýning minnti líka rækilega á félagið og það sem unnist hafði í starfinu.

Sýning félagsins á Kjarvalsstöðum í apríl og maí 1985 var stór í sniðum og þar voru sýnd 47 verk eftir tuttugu listamenn, unnin í ýmsan efnivið, allt frá steini yfir í myndband. „Við ætlum að sýna stöðuna eins og hún er í dag og kveða endanlega niður þann orðróm að íslensk höggmyndalist sé að líða undir lok,“ sagði Ragnar Kjartansson og bætti við: „Sýningarnar fram til þessa hjá okkur hafa verið mjög frjálsar og engin dómnefnd hefur verið hjá okkur til að velja og hafna verkum. En nú má hins vegar segja að við séum komnir með spariandlitið, vonandi. Sérstök sýningarnefnd hefur valið öll verkin á þessa sýningu.“ Vissulega var sýningin mun samstæðari og betur framsett en áður, þrátt fyrir mikla fjölbreytni, auk þess sem sýningarskráin var vegleg. „Þetta er án efa veglegasta sýning félagsins til þessa,“ skrifaði Halldór Björn Runólfsson í dómi þar sem hann lofar verk félagsmanna mjög og lýkur á þessum orðum: „Ef heldur fram sem horfir, þá má búast við gullöld á sviði höggmyndalistar á komandi árum.“ Valtýr Pétursson tekur í sama streng í Morgunblaðinu og segir það „... sannarlega ánægjulegt að fjör skuli vera í þessari listgrein hér á landi“.

Sýningin markaði vissulega eins konar tímamót í sýningarhaldi félagsins. Verkin voru ekki síður fjölbreytt en á fyrri sýningunum en öll framsetning og undirbúningur var með öðrum hætti. Í staðinn fyrir þann óformlega, nánast anarkíska blæ sem verið hafði á sýningum félagsins hafði sýningarnefndin nú leitast við að byggja upp sterka heild og fágaðra yfirbragð, án þess þó að draga úr slagkrafti verkanna. Kjarvalsstaðir voru stærsti og best búni sýningarsalur á landinu og nú höfðu félagsmenn sannað að list þeirra ætti ekki síður heima þar en verk annarra sem unnu eftir hefðbundnari leiðum. Jafnframt má líta á sýninguna sem sönnun þess að það starfsform sem félagarnir höfðu lagt upp með bæri árangur og væri til þess fallið að tengja saman og hvetja hugmyndaríka listamenn til dáða.

Myndhöggvarafélagið hefur sameiginlega aðstöðu á jarðhæð, þar er trésmíðaverkstæði, eldsmíði ofl. Auk þess leigir félagið út vinnustofur til félagsmanna sinna.