Jón Gunnar Árnason
Jón Gunnar Árnason (15. maí 1931 - 21. apríl 1989) var íslenskur myndhöggvari og vélsmiður. Jón Gunnar er höfundur fjölda þekktra höggmynda á höfuðborgarsvæðinu en þekktasta verk hans er Sólfar við Sæbraut í Reykjavík.
Jón Gunnar fæddist í Reykjavík og foreldrar hans voru Helga Jónsdóttir og Árni Steinþórsson, bílstjóri og síðar verkstjóri hjá Olíufélaginu hf. Jón Gunnar lauk námi í vélsmíði frá Iðnskólanum í Reykjavík árið 1952[1] og sótti námskeið í Myndlista- og handíðaskólann og Myndlistaskólann í Reykjavík á árunum 1944-1950. Hann var við nám í Hornsey College of Art í London frá 1965-1967. Jón Gunnar starfaði lengi sem vélsmiður en hóf að starfa sem myndlistamaður á sjötta áratugnum.
Jón Gunnar var einn af stofnendum Myndhöggvarafélagsins í Reykjavík, SÚM-hópsins og Nýlistasafnsins í Reykjavík.
Þekktasta verk Jóns Gunnars er listaverkið Sólfar sem stendur við Sæbraut í Reykjavík. Verkið er frá árinu 1986 og bar sigur úr býtum í samkeppni um útlistaverk sem Íbúasamtök Vesturbæjar í Reykjavík stóðu fyrir í tilefni af 200 ára afmælis Reykjavíkurborgar. Verkið var vígt árið 1990.[2] Á meðal annarra þekktra verka Jóns Gunnars eru Sólarauga (1982) staðsett í Mjódd í Reykjavík, Loft (1981) á lóð Utanríkisráðuneytisins við Rauðarárstíg og Taflmenn (1981) sem voru lengi við útitaflið við Lækjargötu í Reykjavík.[3]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Hjörtur Jónsson, „Jón Gunnar Árnason - Minningargrein“, Morgunblaðið, 29. apríl 1989 (skoðað 17. janúar 2021)
- ↑ Listasafnreykjavikur.is, „Listaverk vikunnar: Sólfar“ Geymt 22 janúar 2021 í Wayback Machine(skoðað 17. janúar 2021)
- ↑ Safneign.listasafnreykjavikur.is, „Jón Gunnar Árnason“ (skoðað 17. janúar 2021)