Fara í innihald

Mutapa

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kort eftir Willem Janszoon Blaeu frá 1635 sýnir hvernig Monomotapa nær yfir stóran hluta sunnanverðrar Afríku

Mutapa (sjónamál: Wene we Mutapa; portúgalska: Monomotapa) var ríki í sunnanverðri Afríku frá fyrri helmingi 15. aldar til 1760. Ríkið náði frá SambesíLimpopo þar sem nú eru ríkin Simbabve og Mósambík. Stofnendur ríkisins voru líklega afkomendur þeirra sem byggðu borgina Simbabve miklu. Höfuðborgin var Zvongombe við Sambesí. Titill konungsins var mwenemutapa. Þegar Portúgalir komu til þessa svæðis um aldamótin 1500 var Mutapa öflugasta ríki sjóna í sunnanverðri Afríku. Áhrif Portúgala og svahílímælandi kaupmanna voru mikil við ströndina og konungar Mutapa nutu góðs af verslun þeirra við Indland. Portúgalir tóku upp formleg samskipti við konungana um 1560. Árið 1629 reyndi konungur Mutapa að reka Portúgali af höndum sér en mistókst og neyddist til að gerast undirkonungur Portúgals að nafninu til. Þótt það hafi engin áhrif haft í reynd jukust völd Portúgala í suðausturhluta Afríku í kjölfarið, líka innanlands. Ástæðan fyrir áhuga Portúgala á landinu voru einkum gullnámur, en margir Portúgalir töldu að þar væri að finna landið Ófír og námur Salómons konungs sem talað er um í Biblíunni. Eftir miðja 17. öld stofnaði Changamire Dombo Rozwi-veldið með Danamombe sem höfuðborg. Konungur Mutapa varð nú ýmist undirkonungur Portúgala eða Rozwi næstu áratugina, eftir því hvor náði meiri áhrifum á svæðinu. Þegar síðasti konungurinn dó 1759 varð borgarastyrjöld vegna ríkiserfða. Sigurvegararnir ríktu eftir það frá Chidima og notuðust við titilinn mambo a Chidima. Þannig ríktu þeir til 1917 þegar síðasti konungur Chidima lést í orrustu gegn Portúgölum.

  Þessi sögugrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.