Fara í innihald

Meiji keisari

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Meiji)
Skjaldarmerki Japanska keisaraættin Keisari Japans
Japanska keisaraættin
Meiji keisari
Meiji
明治天皇
Ríkisár 3. febrúar 186730. júlí 1912
SkírnarnafnMutsuhito (睦仁)
Fæddur3. nóvember 1852
 Kýótó, Japan
Dáinn30. júlí 1912 (59 ára)
 Meiji-höll, Tókýó, Japan
GröfFushimi Momoyama no Misasagi (伏見桃山陵), Kýótó
Undirskrift
Konungsfjölskyldan
Faðir Kōmei keisari
Móðir Nakayama Yoshiko
KeisaraynjaShōken
BörnYoshihito, Masako, Fusako, Nobuko, Toshiko

Meiji keisari (明治天皇 á japönsku letri) (3. nóvember 185230. júlí 1912) eða Meiji mikli (明治大帝) var 122. keisari Japans samkvæmt hefðbundinni talningu. Hann ríkti frá 3. febrúar 1867 til dauðadags þann 30. júlí árið 1912. Valdatíð hans var tími mikilla breytinga í Japan er þjóðin fór í gegnum iðnbyltingu og breyttist úr lénskerfi í kapítalískt heimsveldi.

Þegar Meiji fæddist árið 1852 var Japan einangrað, óiðnvætt lénsveldi undir stjórn Tokugawa-sjógunaveldisins sem réð yfir meira en 250 ómiðstýrðum fylkjum. Þegar hann lést árið 1912 hafði Japan farið í gegn um stjórnkerfis-, samfélags- og iðnbyltingu heima fyrir og hafði skapað sér sess sem eitt helsta heimsveldi á alþjóðavísu. The New York Times lýsti útför hans árið 1912 sem svo: „Munurinn milli þess sem kom á undan líkbílnum og á eftir honum var sláandi. Á undan kom gamla Japan; á eftir hið nýja Japan“.[1]

Í Japan er sitjandi keisari ávallt kallaður „keisarinn“ en látinn keisari fær annað nafn, sem er einnig nafn tímabilsins sem valdatíð hans spannaði. Þar sem hann réð á Meiji-tímabilinu er keisarinn eftir dauða sinn þekktur sem Meiji-keisarinn eða Meiji keisari. Eiginnafn hans, sem er ekki notað í neinu formlegu né opinberu samhengi að undirskrift hans undanskyldri, var Mutsuhito (睦仁).

Valdatíð keisarans var nefnd Meiji-tímabilið (tímabil „upplýstrar ríkisstjórnar“ eða „upplýstra stjórnmála“) og er gjarnan líkt við öld Upplýsingarinnar í Evrópu á 18. öld. Þetta var tímabil róttækra umbóta sem gerðu Japan kleift að létta á einangrunarstefnunni sem Tokugawa-sjógunarnir höfðu viðhaldið frá 17. öld, snúa sér til vesturs, iðnvæðast og umbylta samfélags- og efnahagskerfi sínu. Með Meiji-endurreisninni fór Japan að nútímavæðast, opnast fyrir umheiminum og gera út af við lénskerfið. Meiji setti af sjógunaveldið og kom á japönsku þingi og stjórnarskrá. Hann nam úr gildi stéttaskiptingu, úthlutaði jarðeignum til bænda, kom á skólaskyldu og sendi nemendur í fjarnám til erlendra háskóla. Samúræjar voru innlimaðir inn í japanska herinn, sem naut þjálfunar prússneskra herforingja.[2] Japanski herflotinn var endurnýjaður og nútímavæddur undir stjórn Meiji og átti eftir að vinna Japönum glæsta sigra gegn Kínverjum og Rússum.

Árið 1905, í stríði Rússa og Japana, hertók japanski flotinn rússnesku herstöðina Port-Arthur í suðurhluta Mansjúríu við Kínahaf, einu austurhöfn Rússa sem allt árið var laus við hafís. Rússar þurftu á þessari höfn að halda til að viðhalda Síberíujárnbrautarlínunni og ríkisstjórn Nikulásar 2. Rússakeisara tók þá ákvörðun að endurheimta hana með því að senda eigin flota alla leið frá Eystrasalti suður fyrir Góðrarvonarhöfða. Flotar Rússa og Japana mættust í sjóorrustu við Tsúsima þar sem Japanir unnu stórsigur og gereyddu rússneska flotanum í maí 1905. Í kjölfar sigursins gegn Rússum hertóku Japanir Kóreu, Port-Arthur og hluta Kúrileyja. Rússar neyddust til að hafa sig burt frá Mansjúríu, sem varð áfram hluti af Kína en undir miklum áhrifum Japana.

Þetta var fyrsti ósigur Evrópuveldis gegn Asíuveldi á nútímaöld. Í vestrinu var litið á hróður japanska keisarahersins undir stjórn Meiji sem byrjun „gulrar hættu“.

Árið 1910 var komið í veg fyrir morðtilræði anarkista gegn Meiji.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. https://query.nytimes.com/mem/archive-free/pdf?res=9D05E3DB1F3CE633A25750C1A9669D946396D6CF Geymt 14 mars 2017 í Wayback Machine "The Funeral Ceremonies of Meiji Tenno" reprinted from the Japan Advertiser Article 8—No Title], New York Times. 13. október, 1912.
  2. Welch, Claude Emerson. (1976). Civilian Control of the Military: Theory and Cases from Developing Countries, p. 161.


Fyrirrennari:
Kōmei
Keisari Japans
(3. febrúar 186730. júlí 1912)
Eftirmaður:
Taishō