Max Black
Max Black | |
---|---|
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 24. febrúar 1909 |
Svæði | Vestræn heimspeki |
Tímabil | Heimspeki 20. aldar |
Skóli/hefð | Rökgreiningarheimspeki |
Helstu ritverk | Models and metaphors: Studies in language and philosophy |
Helstu kenningar | Models and metaphors: Studies in language and philosophy |
Helstu viðfangsefni | heimspeki stærðfræðinnar, frumspeki, málspeki |
Max Black (fæddur 24. febrúar 1909 í Rússneska keisaradæminu (í dag Aserbaídsjan), dáinn 27. ágúst 1988 í Ithaca í New York-fylki í Bandaríkjunum) var bandarískur heimspekingur, sem hafði mikil áhrif innan rökgreiningarhefðarinnar í heimspeki á fyrri hluta 20. aldar. Hann fékkst einkum við málspeki, vísindaheimspeki, heimspeki stærðfræðinnar og listaheimspeki.
Black fæddist í Aserbaídsjan en ólst upp í London á Englandi. Þangað flutti fjölskylda hans árið 1912 þegar hann var þriggja ára gamall. Hann nam stærðfræði við Cambridge-háskóla og fékk áhuga á heimspeki stærðfræðinnar. Russell, Wittgenstein, Moore og Ramsey voru allir í Cambridge á þeim tíma og höfðu mikil áhrif á Black. Hann brautskráðist árið 1930 og hlaut styrk til eins árs námsdvalar í Göttingen í Þýskalandi.
Fyrsta bók Blacks var Eðli stærðfræðinnar (e. The nature of mathematics, 1933) sem fjallaði um kenningu Russells í Principia Mathematica og önnur viðfangsefni í heimspeki stærðfræðinnar.
Black fékkst einnig við frumspeki, einkum samsemdarhugtakið. í ritgerð sinni „The Identity of Indiscernables“ andmælir Black lögmáli Leibniz um samsemd óaðgreinanlegra hluta.
Black kenndi stærðfræði í London á árunum 1936 til 1940. Þá flutti hann til Bandaríkjanna og tók við kennslustöðu við Illinois-háskóla í Urbana-Champaign. Hann þáði prófessorsstöðu í heimspeki við Cornell-háskóla í Ithaca í New York-fylki árið 1946. Hann gerðist bandarískur ríkisborgari árið 1948.
Bróðir Blacks var arkitektinn Misha Black.
Helstu rit
[breyta | breyta frumkóða]- „Vagueness: An exercise in logical analysis“, Philosophy of Science 4 (1937): 427–455.
- „Metaphor“, Proceedings of the Aristotelian Society 55 (1954): 273-294.
- Models and metaphors: Studies in language and philosophy (1962).
- „More about Metaphor“, hjá A. Ortony (ritstj.) Metaphor & Thought (1979).