Maríukirkjan í Berlín
Maríukirkjan stendur við Alexanderplatz í miðborg Berlínar, við hliðina á sjónvarpsturninum. Hún er ein elsta kirkja borgarinnar.
Saga Maríukirkjunnar
[breyta | breyta frumkóða]Maríukirkjan kemur fyrst við skjöl 1292. Grunnurinn var gerður úr ótilhöggnu grjóti sem safnað var af víðavangi. Skipið er gert úr rauðum tígulsteinum í gotneskum stíl. Turninn brann á 17. öld og var endurgerður 1663-1666 og aftur 1789-1790. Orgelið er frá miðri 18. öld. Allan þennan tíma var Maríukirkjan önnur helsta kirkja borgarinnar. En 1938 var messuhöldum hætt í hinni nálægu Nikolaikirkju og hún gerð að tónlistarkirkju. Við það varð Maríukirkjan að helstu kirkju messukirkju borgarinnar og jafnframt þeirri elstu sem enn var í notkun. Í heimstyrjöldinni síðari varð hverfið sem kirkjan stóð í, Maríuhverfið, fyrir miklum loftárásum. Nær öll húsin í kring eyðilögðust en Maríukirkjan skemmdist aðeins lítillega. Hún var eina stærri kirkjan í Berlín sem hægt var að nota strax í stríðslok. Hins vegar þurrkaðist hverfið nær allt út. Fyrir stríð var þétt byggð í kringum kirkjuna en í dag stendur hún stök við norðvesturenda Alexanderplatz.
Dauðadansinn
[breyta | breyta frumkóða]Eitt helsta listaverk miðalda í Berlín er veggmyndin Dauðadansinn (Totentanz) sem er í Maríukirkjunni. Veggmyndin er aðeins 2 metra há en 22,6 metra löng. Myndin sýnir fólk, bæði leikmenn og kennimenn, í dansi við dauðafígúrur. Fyrir neðan eru rímur, þær elstu í Berlín. Ekkert er vitað um tilurð myndarinnar, en giskað hefur verið á að pestin sem geysaði 1484 gæti hafa verið innblásturinn að verkinu. Veggmynd þessi var hulin með kalki þegar siðaskiptin urðu í borginni snemma á 16. öld. Hún var ekki uppgötvuð aftur fyrr en 1861, rúmum 300 árum síðar, af byggingameistaranum Friedrich August Stüler. Listaverkið er heldur illa farið og er varið af glerrúðu í dag.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Marienkirche (Berlin)“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt desember 2009.