Fara í innihald

Maquiladora

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Maquiladora eða maquila er verksmiðja í Mið-Ameríku þangað sem hráefni er flutt tollfrjálst inn og unnið er úr því og fullunnin varan flutt út tollfrjálst á ný, oftast til sama lands og hráefnið kom frá. Í seinni tíð hafa sambærileg svæði, sem nefnd eru fríiðnaðarsvæði, sprottið upp víða um heim.

Aðstæðurnar í þessum maquiladora-verksmiðjum eru oftast slæmar. Rannsóknir hafa leitt í ljós að eigendur reyna að koma í veg fyrir myndun verkalýðssamtaka[1][2], vegna eðlis vinnunnar - einhæf og einföld færibandavinna - eru það oftast ungar konur sem ráðast til vinnu í nokkra mánuði í senn. Oft er ekki gætt að heilsu starfsfólks og önnur réttindi fótum troðin.

Orðið maquiladora er úr spænsku, sem töluð er í Mið-Ameríku, og vísar annað hvort til þess hluta korns sem malarinn þáði sem greiðslu fyrir að mala korn fyrir fólk eða þá vélar (sp. maquina). Á ensku er orðið sweatshop stundum notað um sambærilega vinnustaði en skásta íslenska þýðingin á íslensku er þrælkunarbúðir.[3] Maquiladora er helst notað um slíka vinnustaði í Mexíkó og víðar í Mið-Ameríku þaðan sem flutt er út aðallega til Bandaríkjanna.

Staðsetning

[breyta | breyta frumkóða]

Flestar maquiladora-verksmiðjurnar eru staðsettar meðfram landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó. Margar þessara verksmiðja hafa orðið til fyrir tilstilli Fríverslunarsamnings Norður Ameríku (NAFTA). Til dæmis eru 300 maquiladora-verksmiðjur í og við mexíkóska landamærabæinn Ciudad Juárez. Fjöldi þessara verksmiðja hefur aukist gríðarlega undanfarið. Árið 1985 voru 789 verksmiðjur, 2.747 árð 1995 og 3.508 árið 1997. Árið 1997 var áætlað að um 1 milljón manns störfuðu við þessar verksmiðjur.[4] Samkvæmt nýjustu tölum Alþjóða vinnumálastofnunarinnar, frá 2005, störfuðu rúmlega 1,2 milljón manns í maquiladora-verksmiðjum, 3,1 milljón ef tengd þjónustuvinna er tekin með. Samanlagt verðmæti útflutnings frá þessum verksmiðjum nam rúmlega 10,5 milljarði bandaríkjadala og er það helmingur af heildarútflutningi Mexíkó.[5]

Lagalegt umhverfi

[breyta | breyta frumkóða]

Í orði kveðnu eiga sömu kröfur um umhverfisvernd við á maquiladora-verksmiðjunum og annarsstaðar í Mexíkó. Opinbert heilbrigðiskerfi stendur öllum til boða sem hluti launanna eiga að renna til. Hverri þeirri verksmiðju með fleiri en 100 manns í vinnu ber að hafa lækni við vinnu.

Í Mexíkó eru þrjú mismunandi lágmarkslaun eftir landssvæðum. Við landamærin í norðri eru lágmarkslaunin um 49 pesóar. Meðallaun maquiladora-vinnufólks eru ríflega tvöföld sú upphæð, um 110 pesóar sem hækkar með vinnualdri. Vinnuvikan í Mexíkó er 48 klukkustundir, á sunnudögum er greidd yfirvinna.

  • Fyrirtækjaskattur - Fyrirtækjum bjóðast þrír valmöguleikar: að greiða 6,9% af öllum eignum skráðum í Mexíkó, 6,5% af rekstrarkostnaði og útgjöldum það árið eða beita milliverðlagningu skilyrta samþykkis yfirvalda BNA og Mexíkó. Í öllum þrem tilvikum er skatturinn frádráttarbær í BNA.
  • Fasteignaskattur - Varla marktækur.
  • Atvinnuskattur - Maquiladora-verksmiðjum ber að greiða sérstakan atvinnuskatt sem leggst ofan á tekjuskatt starfsmanna.
  • Virðisaukaskattur - Maquiladora-verksmiðjur þurfa eingöngu að greiða virðisaukaskatt af þeim vörum sem keyptar eru í Mexíkó. Hægt er að sækja um að fá hann endurgreiddan.

Allt hráefni, vélar og aukahlutir má flytja inn til Mexíkó án þess að greitt sé af þeim tollur í 18 mánuði. Sé um vélar að ræða má framlengja um óákveðinn tíma. Hráefni og aukahlutir þarf að flytja aftur út innan þess tímaramma. Innflutningur á vöru sem er framleidd innan NAFTA er tollfrjáls sömuleiðis en af henni þarf að greiða 10% virðisaukaskatt.

Landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó eru 3.169 km á lengd. Frá því á stríðsárunum eða árið 1942, þegar Bracero-samningurinn var gerður um aðgengi mexíkóskra verkamenn sem komu til árstíðarbundinna verkefna í landbúnaði, hefur samstarf tekist á milli þessara tveggja ríkisstjórna. Þeim samningi var slitið árið 1964 og Mexíkönunum gert að fara til síns heima.

Sökum þess að talsverður fjöldi Mexíkana reiddi sig á atvinnu handan landamæranna lagði mexíkanska ríkisstjórnin af stað með áætlun um iðnvæðingu landamæranna (e. Border Industrialization Program) strax árið eftir. Mexíkanar leyfðu því innflutning hráefnis án tolla og í staðinn ákváðu bandarísk yfirvöld að skattleggja aðeins virðisaukann, þ.e. andvirði vinnunnar. Þetta gerði það að verkum að vinnuaflið handan landamæranna varð ódýrara fyrir bandaríska framleiðendur. Upphaflega voru þessar maquiladora-verksmiðjur bundnar við landamærin en árið 1989 var samþykkt að leyfa framleiðendum að hafa slíkar verksmiðjur hvar sem er í Mexíkó.

Með tilkomu Fríverslunarsamnings Norður Ameríku árið 1994 var skatturinn á vinnunni sem framkvæmd er í Mexíkó afnuminn. Uppúr 2001, þegar Kína hlaut inngöngu í Alþjóða viðskiptastofnunina, leiddi aukin samkeppni til þess að mörg fyrirtæki færðu framleiðslu sína annað.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Questions about sweatshops“.
  2. „Document - Guatemala: Torture/ill-treatment / fear for safety“. 21. mars 1997.
  3. Beinþýðing skv. orðabók væri þrælabúðir eða þrælakista en það ýjar að nauðungarvinnu sem vinna við þessar verksmiðjur telst ekki vera.
  4. Naomi Klein (2001). No Logo. Flamingo. ISBN 0006530400., bls 205
  5. „ILO database on export processing zones (Revised)“ (pdf). apríl 2007.