Magnúss saga lagabætis
Magnúss saga lagabætis er konungasaga, sem fjallar um ævi og stjórnarár Magnúsar lagabætis Noregskonungs. Varðveitt eru tvö brot úr sögunni, sem segja frá atburðum 1264 og 1274.
Höfundur Magnúss sögu lagabætis var Sturla Þórðarson sagnaritari. Sturla var í Noregi 1278, og er talið að hann hafi þá ritað fyrri hluta sögunnar, að beiðni Magnúsar konungs, sem hafði áður falið Sturlu að rita sögu föður síns, Hákonar gamla, (Hákonar sögu Hákonarsonar). Vísbendingar eru um að sögunni hafi verið fram haldið allt til dauða Magnúsar, 1280, og hlýtur Sturla þá að hafa lokið henni á Íslandi skömmu síðar, því að Sturla dó 1284.
Varðveitt eru tvö blöð úr sögunni, úr skinnhandriti frá 14. öld, AM 325 X 4to. Alls eru varðveitt 14 blöð eða blaðhlutar úr þessari bók, og virðast eftirtaldar sögur hafa verið í henni:
- Sverris saga.
- Hákonar saga Sverrissonar eða Böglunga sögur.
- Hákonar saga Hákonarsonar.
- Magnúss saga lagabætis.
Árni Magnússon fékk flest þessi blöð á Íslandi. Sá sem skrifaði þetta handrit hefur verið atvinnuskrifari, og er rithönd hans einnig á blaði úr Heimskringluhandritinu Jöfraskinnu. Um 1600 var meira varðveitt af Magnúss sögu, og notaði Arngrímur lærði þá söguna við samningu rita sinna, einkum Crymogæu og Specimen Islandiæ Historicum. Einnig voru nokkrar fróðleiksgreinar úr sögunni teknar upp í íslenska annála um svipað leyti. Af einhverjum ástæðum virðist enginn hafa skrifað söguna upp á 17. öld.
Ef dæma skal af brotunum, sem varðveitt eru, hefur Sturla byggt frásögnina að talsverðu leyti á skjalasafni konungs, og er frásögnin fremur þurr og í strangri tímaröð, jafnvel smásmuguleg. Hefur sagan eflaust verið merk sagnfræðileg heimild, og er því mikill skaði hve lítið er eftir af henni. Upphaf sögunnar er glatað, og er því ekki vitað hvort sagan hefur verið beint framhald af Hákonar sögu, og frásögnin því hafist 1263, þegar Magnús tók að fullu við völdum eftir fráfall föður síns, eða hvort einnig hefur verið sagt frá fæðingu Magnúsar (1238) og uppvexti. Ekki er heldur vitað hvort Sturla hefur prýtt söguna með kveðskap sínum um Magnús konung.
Magnús lagabætir var síðasti Noregskonungur sem rituð var saga um, svo að fullvíst sé. Jafnframt er Magnúss saga lagabætis einhver síðasta konungasagan sem íslenskir höfundar rituðu. Litlu yngri eru tvö samsteypurit frá því um 1300.
Íslenskar útgáfur
[breyta | breyta frumkóða]Af því að Magnúss saga er óheil, hefur hún sjaldan verið gefin út, nema þá sem viðauki með Hákonar sögu. Íslenskar útgáfur sögunnar eru þessar:
- Guðni Jónsson (útg.): Konunga sögur 3, Rvík 1957: 465-475. Íslendingasagnaútgáfan.
- Þorleifur Hauksson og Sverrir Jakobsson (útg.): Hákonar saga 2, Reykjavík 2013. Íslensk fornrit 32. — Fræðileg útgáfa fyrir almenning. Með fylgja klausur úr annálum, sem taldar eru úr sögunni.
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- Magnúss saga lagabætis (brot) Geymt 11 janúar 2013 í Archive.today, úr Fornmanna sögum 10. bindi, 1835.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Enska Wikipedian, 24. mars 2008.
- Skrá um handritasafn Árna Magnússonar.