Fara í innihald

Múmínpabbi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Múmínpabbi í skemmtigarðinum, Múmínheimur í Naantali, Finnlandi.

Múmínpabbi (s. Muminpappan) er persóna í Múmínálfunum eftir finnlanssænska rithöfundin og teiknarann Tove Jansson.

Múmínpabbi er nokkuð eirðarlaus sál, sem fór frá því að vera á munaðarleysingjahæli til þess að sökkva í fen fjárhættuspila, en er orðin allur rólegri og ákvað að gerast ábyrgur heimilisfaðir. Kona hans er Múmínmamma og sonur Múmínsnáðinn. Hann er smá aristókrat í sér og hallur undir bóhemlíf.

Hann er alltaf með sinn svarta pípuhatt sem á er letrað „MP frá MM þinni“ til að greina hann frá öðrum merkishöttum heimsins. Múmínpabbi er mjög forvitinn og hefur ríka ævintýraþrá. Til dæmis prófaði hann að búa einn á skipi með þremur Hattíföttum til að rannsaka hegðun þeirra, sem ekki telst auðvelt þar sem Hattífattar geta ekki talað né tjáð sig á nokkurn hátt. Samkvæmt fjölskyldu hans skráir hann öll ævintýri sín í bók sem heitir „endurminningar“. Hann sagði einu sinni að svo mörgum ævintýrum hafi hann lent að hann gæti aldrei klárað bókina.

Æska og uppvöxtur

[breyta | breyta frumkóða]

Skrautlegum ungdómsárum múmínpabba er lýst í bókinni Endurminningar Múmípabba en hann er draumóramaður sem lætur gjarnan hugann reika til æskuáranna og þeirra hetjudáða sem hann framdi sem ungur múmínálfur þó að uppvöxtur hans hafi verið erfiður í upphafi. Frænka Hemúlsins fann Múmínpabba yfirgefinn í körfu fyrir utan barnaheimili og ól hann upp. Fóstra hans var ströng og áttu þau ekki skap saman en þau áttu erfitt með að skilja viðhorf hvors annars til lífsins og endaði það með því að í skjóli nætur strauk Múmínpabbi af barnaheimilinu. Eftir það hitti hann uppfinningarmanninn Fredrikson og vini hans Joxaren, sem er pabbi Snúðs, og Rådd-djuret sem er hnappasafnari með pott á höfðinu og saman gerðu þeir lífið ævintýralegt. Lesa má um ævintýri þeirra félaganna í "Endurminningum Múmínpabba". Algengt er í japönsku teiknimyndunum að Múmínpabbi sé að bjástra við skriftir sem yfirleitt ganga mjög illa sökum ritstíflu.

Hann er aukapersóna í flestum bókum Tove en í einni þeirra er Múmínpabbi í aðalhlutverki en það er bókin Eyjan hans Múmínpabba. Þar gengur hann í gegnum hálfgerða miðaldra krísu eða gráan fiðring sem leiðir til þess að hann dregur fjölskylduna með sér út í eyju þar sem hann ætlar sér að upplifa meiri ævintýri og vinna að stórkostlegu ritverki. Það gengur ekki sem skyldi en hann nær þó að sættast við líf sitt og sjálfan sig að lokum svo fjölskyldan getur haldið aftur heim á leið.