Lyklarnir að Hvíta húsinu
Lyklarnir að Hvíta húsinu er kerfi sem sagnfræðiprófessorinn Allan Lichtman notar til að spá fyrir um úrslit forsetakosninga í Bandaríkjunum. Allan Lichtman byrjaði á þessu í kosningunum 1984 þegar hann spáði að rétt um að Ronald Reagan yrði kjörinn forseti en hann vann stórsigur á Demókratanum Walter Mondale og síðan þá hefur hann alltaf nema einu sinni spáð rétt fyrir um úrslit kosninga.
Lyklarnir sem Allan Lichtman notast við eru 13 talsins en þeir eru eftirfarandi.
- Hvort flokkur sitjandi forseta vann fleiri sæti í fulltrúadeildinni í liðnum miðkjörtímabilskosningum heldur en miðkjörtímabilskosningunum á undan.
- Hvort frambjóðandi flokks sitjandi forseta vinni meira en tvo þriðju hluta atkvæða í forvali flokksins.
- Hvort sitjandi forseti sækist eftir endurkjöri
- Hvort enginn þriðji frambjóðandi nái miklu fylgi í könnunum
- Hvort efnahagur til skamms tíma sé góður.
- Hvort efnahagurinn á kjörtímabilinu sé betri en síðustu tvö kjörtímabil á undan.
- Hvort gerðar hafa verið miklar breytingar á stefnu ríkisstjórnar á kjörtímabilinu.
- Hvort það séu engar samfélagslegar óeirðir.
- Hvort það séu engin alvarleg hneykslismál innan ríkisstjórnarinnar.
- Hvort ríkisstjórnin hafi náð miklum árangri í utanríkis- og hernaðarmálum.
- Hvort ríkisstjórnin sé laus við hrakfarir í utanríkis- og hernaðarmálum.
- Hvort frambjóðandi flokks sitjandi forseta (eða sitjandi forseti) hafi mikla persónutöfra eða sé álitinn vera þjóðhetja.
- Hvort að frambjóðandi stjórnarandstöðuflokksins hafi ekki mikla persónutöfra eða sé álitinn vera þjóðhetja.
Lichtman hefur það sem vinnureglu að ef fimm eða færri lyklar eru rangir þá eigi frambjóðandi flokks sitjandi forseta sigurinn vísann. Ef sex lyklar eru rangir þá vinnur hinsvegar frambjóðandi stjórnarandstöðuflokksins.
Nokkuð einfalt er að skilgreina nokkra af lyklunum en strangari reglur gilda um hina.
Úrslit miðkjörtímabilskosninganna eru löngu ráðin áður en forsetakosningar fara fram og því er búið að ráða þann lykil áður en umræðan um forsetakosningarnar fer af stað. Í seinni tíð er það algengara að flokkur sitjandi forseta missi þingmeirihlutann í Miðkjörtímabilskosningum en það hefur sjaldan haft áhrif á möguleika forsetans til að ná endurkjöri. Má þar nefna að Repúblikanar unnu stórsigur í miðkjörtímabilskosningunum á fyrra kjörtímabili Bill Clinton og á fyrra kjörtímabili Barack Obama en það kom ekki í veg fyrir að báðir unnu endurkjör nokkuð afgerandi.
Lichtman fylgist með hvort frambjóðandi flokks sitjandi forseta vinni meira en tvo þriðju hluta atkvæða í fyrstu umferð á landsþingi flokks síns. Þá er stórt atriði hvort sitjandi forseti sækist eftir endurkjöri. Það er sjaldgæft að sitjandi forseti fái öflugt mótframboð í forvali flokks síns en það gerðist síðast ári 1980 þegar Ted Kennedy fór gegn Jimmy Carter í forvali Demókrataflokksins, Ronald Reagan vann síðan kosningar.
Tveggja flokka kerfið hefur verið ríkjandi í Bandaríkjunum nánast frá upphafi og það heyrir til undantekninga að frambjóðandi utan stóru flokkanna tveggja vinni kjörmenn. Þá er sjaldgæft að frambjóðandi utan stóru flokkanna vinni meira en 5 prósent atkvæða á landsvísu en ef það er talið mjög líklegt þá metur Lichtman að það sé öflugur þriðji frambjóðandi.
Efnahagsmálin skipta miklu máli fyrir hverjar kosningar en Lichtman horfir á efnahagshorfur til skemmri og lengri tíma. Ef efnahagurinn er ekki í alvarlegri niðursveiflu á kosningaári þá metur Lichtman lykil númer 5 vera réttan og ef hagvöxturinn er meiri á kjörtímabilinu en síðustu tvö kjörtímabil á undan þá telur Lichtman lykil númer 6 vera réttan. Lykill 5 getur verið réttur þótt að lykill 6 sé rangur en ef lykill 5 er rangur þá er lykill 6 alltaf rangur. Í öll skipti sem lykill 5 var rangur þá tapaði frambjóðandi flokks sitjandi forseta og í tvö af þeim skiptum var það sitjandi forseti Bandaríkjanna.
Lichtman fylgist einnig með hvort gerðar séu miklar breytingar á stefnu ríkisstjórnarinnar á kjörtímabilinu. Dæmi um það má nefna þegar Barack Obama kom fram með umfangsmiklar breytingar á sjúkratryggingalöggjöfinni (Obamacare) og þegar Joe Biden núverandi forseti kom fram með Build Back Better. Annað dæmi sem Lichtman notar er þegar Franklin D Roosevelt kom fram með New Deal á sínum tíma en sú stefna var mikilvægt skref fyrir Bandaríkin út úr kreppunni miklu.
Þá fylgist Lichtman með hvort samfélagið sé laust við samfélagslegar óeirðir á kjörtímabilinu. Eina skiptið sem þessi lykil var metinn rangur var fyrir kosningarnar 2020 en þá var búin að vera mikil ólga í samfélaginu.
Einnig fylgist Lichtman með hvort ríkisstjórn Bandaríkjanna sé laus við alvarleg hneykslismál. Þessi lykill var rangur fyrir kosningarnar 2000 og aftur 2020 en þeir Bill Clinton og Donald Trump voru báðir kærðir til embættismissis.
Þá kannar Lichtman hvort ríkisstjórn Bandaríkjanna sé laus við hrakfarir í utanríkis og hernaðarmálum auk þess að hann skoðar hvort ríkisstjórnin hafi náð miklum árangri í utanríkis og hernaðarmálum.
Flest allir forsetar Bandaríkjanna hafa persónutöfra en til að forsetaframbjóðandi uppfylli skilyrði Lichtman um að teljast vera „Charismatic“ þarf viðkomandi að hafa persónutöfra sem nær til mjög breiðs hóps kjósenda og til að teljast þjóðhetja þarf viðkomandi að hafa afrekað eitthvað sem skarar fram úr öllu. Þeir forsetar sem Lichtman álítur hafa mikla persónutöfra eru Theodore Roosevelt, Franklin Delano Roosevelt, John F. Kennedy, Ronald Reagan og Barack Obama. Þá telur Lichtman þá Ulysses S. Grant og Dwight D. Eisenhower sem þjóðhetjur en báðir voru leiðtogar í Bandaríkjaher á stríðstímum.
Eina skiptið sem Lichtman hafði rangt fyrir sér var árið 2000 þegar hann spáði Al Gore sigri en George W. Bush var kjörinn forseti þrátt fyrir að Gore hefði fengið fleiri atkvæði á landsvísu. Fimm lyklar voru rangir fyrir þær kosningar.
Vegna þess möguleika að forseti sé kjörinn á færri atkvæðum á landsvísu þá spáir Lichtman aldrei fyrir um hvor frambjóðandinn fái fleiri atkvæði á landsvísu.
Ætla má að Lichtman spái Kamölu Harris sigri í komandi kosningum en tíminn verður að leiða í ljós hvort sú spá reynist rétt.