Loðvíðir
Loðvíðir | ||||||||||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Lauf á loðvíði.
| ||||||||||||||
Vísindaleg flokkun | ||||||||||||||
| ||||||||||||||
Tvínefni | ||||||||||||||
Salix lanata L. |
Loðvíðir (fræðiheiti: Salix lanata) er sumargrænn, margstofna runni af víðisætt. Hann einkennist af loðnum laufblöðum. Annað sérkenni loðvíðisins er að hann blómstrar mjög snemma á vorin, áður en hann laufgast. Blóm loðvíðis eru ljósgulir reklar sem stundum kallast víðikettlingar.
Loðvíðir gengur líka undir nafninu grávíðir, þó að plöntubækur noti það nafn yfir fjallavíði (Salix arctica).
Loðvíðir á Íslandi[breyta | breyta frumkóða]
Loðvíðir vex um allt land upp að 900 m hæð. Hann verður allt að 4 metra hár. Loðvíðir oft fljótur að birtast þegar land er friðað fyrir beit, sem er til marks um getu hans til að sá sér í mismunandi landgerðir.[1]
Samband við aðrar tegundir[breyta | breyta frumkóða]
Loðvíðir getur gegnt mikilvægu hlutverki í ýmsum vistkerfum, jafnvel sem lykiltegund, þar sem fjöldi tegunda reiðir sig að sumu- eða öllu leyti á loðvíði sér til viðurværis.[heimild vantar]
Sveppir[breyta | breyta frumkóða]
Víðikjarr, sem myndað er af loðvíði og gulvíði, hefur yfirleitt fáa fylgisveppi en þó vex fjöldi sveppa á rökum kjarrbotninum.[2] Þó eru tegundir sem lifa sérstaklega í samlífi við loðvíði.[3] Hér á landi er um að ræða eftirfarandi smásveppi:
- Amphisphaeria papillata sem vex á viði loðvíðis,[3]
- Arachnopeziza trabinelloides sem líkleg er alltíð á Íslandi,[3]
- Snæhnyðlingur (Dasyscyphella nivea) vex á spreki af loðvíði og ilmbjörk á Norður- og Austurlandi,[3]
- Fenestella fenestrata hefur aðeins fundist við Fornhagagil í Hörgárdal og þar aðeins á loðvíði.[3]
- Tegundin Lasiobelonium corticale hefur sömuleiðis aðeins fundist á loðvíði í Hörgárdal.[3]
- Stautpinklar (Linospora) eru tveir á loðvíði hér á landi, Linospora capreae, sem hefur verið nefndur víðistautpinkill, og Linospora salicis-reticulata.[3]
- Víðiryð (Melampsora epitea) vex á öllum víðitegundunum á Íslandi og er ein af fáum mishýsla tegundum ryðsveppa á Íslandi, en hitt lífsstigið lifir á steinbrjótum, aðallega þúfusteinbrjóti og mosasteinbrjóti.[2]
- Blaðögnin Mycosphaerella capronii er önnur tegund sveppa sem hefur fundist á loðvíði í Hörgárdal og hvergi annars staðar á Íslandi.[3]
- Víðipinkill (Pleuroceras insulare) vex á loðvíði í Kjarnaskógi og á Eskifirði.[3]
- Víðitjörvi (Rhytisma salicinum) er algengur á öllum víðitegundum um allt land.[3]
- Víðikláðasveppur (Venturia chlorospora) er sömuleiðis algengur um allt land á ýmsum víðitegundum, meðal annars á loðvíði.[3]
Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]
- ↑ Víðitegundir Geymt 2015-09-12 í Wayback Machine Skoðað 25. nóvember 2015.
- ↑ 2,0 2,1 Helgi Hallgrímsson. 2010. Sveppabókin. Skrudda, Reykjavík. ISBN 978-9979-655-71-8
- ↑ 3,00 3,01 3,02 3,03 3,04 3,05 3,06 3,07 3,08 3,09 3,10 Helgi Hallgrímsson & Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir (2004). Íslenskt sveppatal I - smásveppir. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar. Náttúrufræðistofnun Íslands. ISSN 1027-832X