Lasanja

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Lasanja í ofni

Lasanja, eða Lasagna (eintala, borið fram [laˈzaɲa] á ítölsku; lasagne [laˈzaɲe] í fleirtölu) er annars vegar ákveðin tegund af pasta í blöðum eða plötum og einnig réttur sem fullu nafni heitir lasagne al forno á ítölsku (það þýðir „lasanja eldað í ofni“).

Uppruni[breyta | breyta frumkóða]

Upprunalega merkti heitið lasagna ílátið sem rétturinn var eldaður í en nú er það eingöngu haft um réttinn sjálfan og pastaplöturnar. Yfirleitt er rétturinn talinn upprunninn á Ítalíu en þó er orðið lasagna dregið af grísku orðinu λάσανα (lasana) eða λάσανον (lasanon) sem þýðir „pottpallur“. Lasanja á sér líka ævafornar rætur og í Grikklandi, á Balkanskaga og víða í Arabalöndunum eru eldaðir áþekkir réttir en þar er reyndar yfirleitt ekki haft pasta á milli laga, heldur grænmeti af ýmsu tagi, svo sem eggaldin- eða kartöflusneiðar. Þó eru dæmi um að pasta sé notað, til dæmis í gríska réttinum pastitsio, þar sem oftast eru notaðar makkarónur eða annað pípulaga pasta.

Pastaplöturnar[breyta | breyta frumkóða]

Lasanjaplötur eru ýmist þurrkaðar (og þá forsoðnar fyrir notkun) eða ferskar og þá oft búnar til á staðnum. Þær eru yfirleitt rétthynrndar, stundum stórar, lasagnoni, eða minni en þessar hefðbundnu og kallast þá lasagnette. Stundum er spínati blandað saman við deigið svo plöturnar verða grænar að lit og kallast lasanja sem gert er úr slíkum plötum Lasagne verdi eða grænt lasanja.

Í ítölsku lasanja er gjarna hlutfallslega mun meira af pasta en í lasanja sem gert er í öðrum löndum.

Mismunandi tegundir lasanja[breyta | breyta frumkóða]

Lasanja alla bolognese sett saman.

Rétturinn er lagskiptur og í formið eru á víxl sett lög af pastaplötum og sósu eða sósum, og síðan er osti stráð yfir eða þá að hann er hafður á milli laga. Á Suður-Ítalíu er oftast notuð kjötsósa (ragù) og eða tómatsósu en á norðanverðri Ítalíu er yfirleitt notuð béchamel-sósa (uppstúf) í lasanja. Í lasagne alla bolognese eru aðalhráefnin til dæmis bolognese-sósa, parmesanostur og béchamel-sósa krydduð með múskati.

Til eru margar ólíkar útgáfur, mismunandi eftir héruðum, og eftir að lasanja varð vinsæll réttur í öðrum löndum hafa margvíslegar nýjar útgáfur komið fram.

Misjafnt er hvaða ostar eru notaðir í lasanja en algengastir eru ricotta-ostur, parmesan-ostur og mozzarella-ostur. Sá síðastnefndi er sérlega algengur í lasanja frá suðurhluta Ítalíu þar sem hann er upprunninn þar um slóðir. Í öðrum löndum eru notaðar ýmsar tegundir af osti og í Bandaríkjunum eru uppskriftir að fjögurra eða fimm osta lasanja algengar.

Lasanja á Íslandi[breyta | breyta frumkóða]

Lasanja sást varla á Íslandi svo heitið gæti fyrr en snemma á 9. áratug 20. aldar. Í Heimilistímanum árið 1975 er talað um „italska spaghettiréttinn lasagna, sem er lag af breiðu spaghetti, til skiptis með sterku kjötfarsi, lauk, hvítri sósu og osti“ og síðan eru gefnar leiðbeiningar um hvernig eigi að búa til slíkan rétt en nota pönnukökur í staðinn fyrir pasta, enda fengust lasanjaplötur þá varla hérlendis. Innflutningur þeirra hófst um eða skömmu fyrir 1980 og eftir það jukust vinsældir réttarins jafnt og þétt.