Eyjólfur Jónsson Johnsonius

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Eyjólfur Jónsson Johnsonius (173521. júlí 1775) var íslenskur vísindamaður á 18. öld og var gerður að konunglegum stjörnuskoðara á Íslandi árið 1773.

Eyjólfur var frá Háafelli í Hvítársíðu. Hann var stúdent frá Skálholtsskóla og lærði síðan guðfræði við Kaupmannahafnarháskóla en hóf síðan störf sem stjörnuathugunarmaður í stjörnuturninum í Kaupmannahöfn og var þar nokkur ár við stjörnuathuganir. Hann var skrifari landsnefndarinnar fyrri 1770-1771 en fékk síðan fyrirheit um prestsembætti á Staðarstað á Snæfellsnesi þegar það losnaði og var jafnframt útnefndur konunglegur stjörnuskoðari. Þá stóð til að reisa stjörnurannsóknarstöð á Staðarstað. Af þessu varð þó ekki, einkum vegna bágrar heilsu Eyjólfs. Þegar hann dó sumarið 1775 hafði verið ákveðið að reisa stjörnuathugunarstöð í Lambhúsum á Álftanesi og var það gert; þar stundaði Norðmaðurinn Rasmus Lievog veður- og stjörnuathuganir í allmörg ár.