Fara í innihald

Þorskastríðin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Landhelgisdeilan)
Breytingar á efnahagslögsögu íslands.
  Ísland
  Innsævi
  4 sjómílu landhelgi
  12 sjómílu landhelgi
  50 sjómílu efnahagslögsaga
  200 sjómílu efnahagslögsaga

Þorskastríðin nefndust pólitískar deilur milli ríkisstjórna Íslands og Bretlands um fiskveiðiréttindi á Íslandsmiðum, sem leiddu til átaka á miðunum, en frá árunum 1958 til 1976 voru háð þrjú þorskastríð.

Eina dauðsfallið sem varð í þorskastríðunum átti sér stað í deilu tvö þ. 29. ágúst 1973 en þá lést Halldór Hallfreðsson, vélstjóri á varðskipinu Ægi, er hann fékk raflost við viðgerðir eftir ásiglingu bresku freigátunnar Apollo.

Aðdragandi

[breyta | breyta frumkóða]

Saga þorskastríðanna hófst þegar Bandaríkjastjórn sendi frá sér tvær yfirlýsingar árið 1945 þess efnis að Bandaríkin gerðu tilkall til allra þeirra auðlinda sem á og undir hafsbotni við strendur þeirra voru (og hafa þessar yfirlýsingar síðar meir verið kallaðar Truman-yfirlýsingarnar). Árið 1945 var sendiherra Íslands í Washington Thor Thors, bróðir þáverandi forsætisráðherra Ólafs Thors. Þegar Truman-yfirlýsingarnar voru birtar var hann fljótur að flytja boðin heim og tóku þá ráðamenn strax til við að víkka út okkar eigin landhelgi. Á því voru þó þeir hængir að Bandaríkjastjórn mótmælti þeirri túlkun yfirlýsingarinnar að krefjast mætti yfirráða yfir sjónum yfir hafsbotninum og að enn var í gildi landhelgissamningur við Breta frá 1901 sem gerði ráð fyrir þriggja mílna landhelgi til 50 ára. Því var fátt gert í fyrstu en þó var ráðinn til starfa Hans G. Andersen, ungur þjóðréttarfræðingur sem átti eftir að koma við sögu síðar sem bæði sendiherra og sérfræðingur. Árið 1949 fóru málin loks á skrið og fór Bjarni Benediktsson, utanríkis- og dómsmálaráðherra, til Lundúna í þeim erindum að segja upp gildandi samningi um leið og hann rynni út. Voru rök Íslendinga til réttlætingar þessa að Bretar vildu ekki gangast við samningum um friðun Faxaflóa en þeir töldu sig hafa rétt til veiða við landið allt á grundvelli sáttmálans frá 1901. Landhelgin var þá stækkuð, í tveimur áföngum, í fjórar mílur frá landi en farið var eftir svokölluðum grunnlínum við mynni flóa og fjarða og þeim þannig lokað. Fyrri áfanginn var 1949 þegar landhelgin var stækkuð norðan landsins og var þeirri stækkun ekki mótmælt af neinum erlendum yfirvöldum en sú seinni, 15. maí 1952, var stækkun um allt land og lokaði þannig á aðgang Breta, og annarra þjóða, að Breiðafirði og Faxaflóa. Ástæða þess að beðið var með útvíkkun landhelginnar til miðs árs 1952 var að Norðmenn áttu í svipaðri deilu við Breta og fór hún fyrir Alþjóðarétt Sameinuðu þjóðanna um þessar mundir þar sem úrskurðað var í desember 1951 að Norðmenn hefðu allan rétt á að krefjast landhelgi út frá ystu mörkum hvers skaga og hverrar eyjar.

Fyrsta þorskastríðið (1958–1961)

[breyta | breyta frumkóða]

Í aðdraganda þessarar fyrstu útvíkkunar, sem ekki má teljast mikil í samanburði við þær sem á eftir komu, áttu sér stað miklar deilur innanlands og voru það þá helst sósíalistar sem gagnrýndu ráðamenn fyrir ragmennsku. Átti sú staða eftir að haldast allt fram yfir lok síðasta þorskastríðsins en í fararbroddi var Lúðvík Jósepsson, þingmaður og formaður Alþýðubandalagsins og sjávarútvegsráðherra 1956-1958 og 1971-1974. Þegar íslensk stjórnvöld höfðu gert Bretum áform sín kunn stukku breskir útgerðarmenn til og settu löndunarbann á allan íslenskan fisk, í trássi við bresk lög um einokun. Yfirvöld þar úti gerðu þó ekkert og hafa seinni tíma rannsóknir á innanhússskjölum breska utanríkisráðuneytisins frá þessum tíma leitt í ljós að bresk stjórnvöld vildu heldur leyfa útgerðarmönnunum að eiga við Íslendingana þar sem þeim þótti ekki taka því að semja við „hrokagikkina“. Bretar höfðu raunar áður neitað að ræða málefnið við íslensk yfirvöld því þegar Ólafur Thors, þá forsætisráðherra, hélt til Bretlands 1951 til að leita sátta í málinu áður en í hart kæmi neitaði hver einn og einasti breski ráðherra að funda með honum. Fékk hann ekki að hitta nema fulltrúa útgerðarmanna frá nokkrum helstu fiskveiðiþorpum Bretlands, s.s. Hull og Grimsby. Hann náði loks tali af Anthony Eden, sem þá gegndi embætti utanríkisráðherra, í desember 1953 og varaði hann við að því lengur sem löndunarbannið stæði, því meiri ítökum næðu sósíalistar á Íslandi. Svo virðist sem þetta hafi ekki verið innantóm hótun því fyrr á árinu höfðu Íslendingar, eftir að hafa mátt þola bann á 80% útflutning fisks í nokkra mánuði, leitað til Sovétríkjanna og fór svo að þau keyptu meiri hluta aflans árið 1953. Við það leist ráðamönnum í Washington ekki á blikuna og lögðu hart að Bretum að aflétta banninu og leita lausna, t.d. íhugaði Eisenhower Bandaríkjaforseti að yfirbjóða Sovétana og gera þannig löndunarbannið tilgangslaust með öllu. 1956 útvíkkuðu Sovétríkin síðan landhelgi sína í 12 mílur og neyddust Bretar í kjölfarið til að viðurkenna hina nýju landhelgi Íslendinga og útgerðarmennirnir afléttu löndunarbanninu. Þá var þessari fyrstu rimmu lokið og völlurinn settur fyrir alvöru átök.

Boðað var til alþjóðlegrar hafréttarráðstefnu 1958 og hófst hún 24. febrúar það sama ár. Hafði stefnan hér á landi verið að víkka landhelgina út í 12 mílur strax árið 1957 en ákváðu ráðamenn að bíða þar til eftir ráðstefnuna. Þessu mótmæltu Alþýðubandalagsmenn sem þá sátu í stjórn með Alþýðuflokki og Framsóknarflokki en þeir urðu að lúffa svo ekki yrðu stjórnarslit. Á ráðstefnu þessari töluðu ríkin austantjalds, auk þriðja heims ríkja, mörg hver fyrir 12 mílna landhelgi en mörg ríki Suður-Ameríku vildu 200 mílna lögsögu. Endaði svo að vinsælustu tillögurnar kváðu á um þriggja eða sex mílna landhelgi og síðan níu eða 6 mílna fiskveiðilögsögu (gjarnan kölluð efnahagslögsaga þegar ekki er einungis talað um fiskveiðar) svo úr yrði 12 mílna fiskveiðilögsaga fyrir strandríki en að lokum fór svo að ekki var nógur stuðning tillögunni til staðar svo staðan var óbreytt að ráðstefnunni lokinni. Síðar árs 1958 var síðan NATO-fundur þar sem fulltrúar Íslands eiga að hafa fullyrt að yrði landhelgin ekki víkkuð til 12 mílna hið minnsta væri engin leið að tryggja að lýðræði héldist hér á landi. Innan ríkisstjórnarinnar var sem áður ósætti og hótaði Lúðvík Jósepsson, sjávarútvegsráðherra, að færa út lögsöguna einhliða og án stuðnings annarra flokka en hótaði Hermann Jónsson, forsætisráðherra, þá að sprengja stjórnina. Þar virðist hann þó hafa talað of fljótt því hefði verið gengið til kosninga um mitt árið 1958 hefðu sósíalistarnir í Alþýðubandalaginu að öllum líkindum unnið stórsigur, enda töluðu þeir máli þjóðarinnar í landhelgismálinu.

Úr varð að landhelgin var færð út í 12 mílur og Bretum einungis boðin takmörkuð veiðiréttindi innan hennar til þriggja ára. Fór svo að, eftir að NATO-ríkjum mistókst að miðla málum, sendu Bretar fjögur vopnuð skip togurunum til varnar og mættu þeim hér floti Landhelgisgæslunnar en hann samanstóð af Þór, eina raunverulega varðskipinu, Albert, Óðni og nokkrum öðrum minni skipum, s.s. vitaskipinu Hermóði. Þegar landhelgi var formlega útvíkkuð 1. september voru skipin öll á viðbúnaðarstigi en ekki dró til tíðinda fyrr en daginn eftir þegar Þór og María-Júlía læddust upp að breska togaranum Northern Foam í þoku undan Austfjörðum. Var ætlunin að taka hann herskildi en urðu þau undan að hörfa þegar HMS Eastbourne, flaggskip Breta kom á vettvang. Enduðu ryskingarnar þannig að nokkrir áhafnarmeðlimir íslensku skipanna voru teknir til fanga í stuttan tíma en enginn slasaðist, ekki í skipunum hið minnsta. Fréttirnar af viðureign þessari bárust fljótt í höfuðstaðinn og urðu mikil mótmæli við breska ráðherrabústaðinn sem enduðu með grjótkasti. Í þessum mómælum mælti Magnús Kjartansson, ritstjóri Þjóðviljans eftirfarandi orð sem urðu að baráttukalli það sem eftir var þorskastríðanna: „Við semjum ekki við Breta, við sigrum þá.“ Sendi Barry Anderson, skipherra, í kjölfarið skilaboð til Lundúna að annað hvort yrði leyst úr deilunni sem fyrst eða mannskaði yrði á sjó. Bretar virtust þá gera sér grein fyrir alvöru málsins og var föngunum á HMS Eastbourne hleypt í land þann 13. september. Lítið kom til átaka eftir það þó svo að Óðinn næði einu sinni upp að togara og menn væru sendir um borð. Togarinn var þó ekki tekinn í land. Pattstaða ríkti síðan en tíminn vann með Íslendingum því togaraveiðimenn gátu ekki farið í land án þess að eiga á hættu að vera teknir höndum og almenningsskoðun um allan heim snerist okkur í vil. Bretarnir þurftu því að láta undan og var einungis spurning um hvernig og hvenær.

Önnur hafréttarráðstefna var haldin í Genf vorið 1960 og voru meðal fulltrúa Íslands þar Guðmundur Í. Guðmundsson utanríkisráðherra og Bjarni Benediktsson dómsmálaráðherra auk Hermanns Jónassonar og Lúðvíks Jósepssonar en þeir tveir síðarnefndu voru andsnúnir öllu leynimakki við Breta og fordæmdu hina tvo eftir að upp komst um baktjaldamakk þeirra. Fór svo að aðaltillaga ráðstefnunnar, um svokallaðan „sex plús sex rétt“ (þ.e. sex mílna landhelgi auk sex mílna fiskveiðilögsögu), var felld þegar aðeins eitt atkvæði vantaði upp á. Hefur síðar verið deilt um hvort atkvæði Íslands hafi upp á vantað eftir að þeir Hermann og Lúðvík gerðust andsnúnir hvers kyns samningaviðræðum öðrum en þeim sem fælu í sér fullkomna eftirgjöf Breta. Þegar heim var komið vissu stjórnarmeðlimir að ekki væri hægt að ganga til samninga án þess að bíða afhroð í næstu kosningum. Varðskip Landhelgisgæslunnar höfðu fengið boð um að halda sig til hlés en þó kom til nokkurra átaka og skotum var hleypt af. Fór svo að Hermann Jónasson leitaði til bandarískra flotayfirvalda en var hafnað. Það var kornið sem fyllti mæli Íslendinga og hótaði Bjarni Benediktsson, sem fram að því hafði verið helsti stuðningsmaður herstöðvarinnar innan ríkisstjórnarinnar, að beita sér fyrir því að herstöðinni yrði lokað að fullu og herinn rekinn úr landi. Þegar NATO hafði misst sinn helsta hróðurhalla hér á landi neyddust Bretar til að ganga til samninga þó ekkert væri gefið eftir hér; Framsóknar- og Alþýðubandalagsmenn ásamt hálfum þingflokki Sjálfstæðismanna sögðust ekki myndu gefa neitt eftir og því var ekki þingmeirihluti fyrir neinu öðru en algerum sigri. Ólafur Thors, þá aftur orðinn forsætisráðherra, tjáði Macmillan, forsætisráðherra Breta, þessa stöðu á fundi á Keflavíkurflugvelli í september 1961 og sagðist sjá fram á að hrökklast frá völdum ef nokkuð væri gefið eftir, þá þyrfti að kjósa aftur og allt stefndi í stórsigur „allaballanna“ (Alþýðubandalagsmanna). Fór loks svo að báðar hliðar mættust við samningaborðið þar sem Bretar gáfu meira eftir en fóru þó ekki heim tómhentir, lögsagan var útvíkkuð í 12 mílur en Bretar máttu veiða innan hennar einungis næstu þrjú árin og þá eftir ströngum reglum um staðsetningu, veiðafæri og tímabil. Helsti sigur Breta var þó að Íslendingar gáfu eftir málskotsrétt til Alþjóðadómstólsins ef síðari útvíkkanir fiskveiðilögsögu færu fyrir brjóstið á Bretum. Gáfu Íslendingar Bretum þá nánast rétt á að skjóta hvaða útvíkkun til dómsins ef hún væri ekki í fullkomnu samræmi við alþjóðasátt og -fordæmi. Sjálfstæðismenn og Alþýðuflokksmenn lýstu þessum samningi sem sigri þjóðarinnar og var honum einnig lýst sem stórum íslenskum sigri í Bretlandi.

Annað þorskastríðið (1972–1973)

[breyta | breyta frumkóða]
Myndin sýnir hverning togvíraklippunum var beitt.

Allt frá 9. mars 1961, þegar „friðarsamningurinn“ var undirritaður, og til miðs árs 1972 ríkti friður á Íslandsmiðum og vonuðust Bretar og Vestur-Þjóðverjar, sem fenguð höfðu samning keimlíkan þeim breska, til að hann yrði varanlegur. Íslendingar bundu hins vegar enn vonir um að víkka fiskveiðilögsöguna enn meir, upp í allt að 200 mílum frá landi. Deilunni um landhelgina var að mestu lokið og hefur hún staðið í 12 mílum síðan. Á þessum „millistríðsárum“ einbeittu Íslendingar sér helst að síldarveiðum (og hefur sá tími Íslandssögunnar gjarnan verið nefndur Síldarævintýrið en það er saga sem ekki verður rakin hér) og mátti togarafloti Íslendinga því drabbast niður á meðan þjóðin kom sér upp fínum nótaskipum. Lítið var veitt á þeim miðum sem lágu sunnan- og vestanlands en það var af hinu góða því þau svæði fengu að hvílast eftir ofveiðar í áratugi. Þau lágu þó ekki alls ónotuð því enn var gert út að sunnan, og þá helst Reykjanesi og Vestmannaeyjum, auk þess sem breskir lögsögubrjótar skutust stöku sinnum inn fyrir línuna til veiða. Þeirra fremstir í flokki voru Dick Taylor, sem handtekinn var fjórum sinnum fyrir landhelgisbrot og mátti gista Litla-Hraun um stund, og Bunny Newton á Brandi, Breti sem stýrði breskum togara undir íslensku nafni. Eitt skiptið sem Bunny var tekinn reyndi hann að flýja og sigldi úr landi með blindfulla áhöfn og tvo lögreglumenn læsta í káetu. Hófst þá eftirför og var Brandur kominn í höfn aftur stuttu eftir hádegi næsta dag. Feigðarflaninu var þó hvergi nærri lokið því skipverjarnir voru enn í glasi og kveiktu í skipinu svo þeir kæmust sem fyrst heim því, samkvæmt þeirra rökum, ef ekkert væri skipið yrðu þeir sendir heim með flugi. Slökkvilið náði þó að slökkva eldinn og Bunny á Brandi var sendur heim gegn tryggingu eftir að hafa verið dæmdur til tukthúsvistar sem hann afplánaði aldrei.

Utan landsteinanna efldu Banda- og Sovétríkin til þriðju hafréttarstefnunnar 1967 en tafðist hún til 1973 og fór síðan fram á fimm fundum sem haldnir voru á árunum 1973-76. Máttu því Íslendingar og Bretar sitja fundi um efnahagslögsögu á meðan skotum var hleypt af og mannskaði varð á hafi úti. Fóru þó allir fundirnir á sem besta vegu fyrir Íslendinga og átökin á hafi úti enduðu eins.

Annað þorskastríðið hófst 1972 en 1969 hafði ríkisstjórn Íslands fært í lög einkarétt Íslands til nýtingar auðlinda á landgrunninu. Hafa ber í huga að landgrunnið við Ísland liggur langt út fyrir meira að segja þær 200 mílur sem marka efnahagslögsöguna nú til dags og taldist þessi útvíkkun skýrt brot á sáttmálanum við Breta og Vestur-Þjóðverja. Þetta viðurkenndu íslenskir embættismenn og tóku þá upp sama þráð og Bretarnir. Það leið þjóðin ekki og tapaði Viðreisnarstjórn Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks naumlega í kosningunum 1971 svo Framsóknarmenn og Alþýðubandalagsmenn gátu myndað meirihluta með Samtökum frjálslyndra og vinstri manna. Helsta kosningaloforð flokkanna hafði verið að víkka lögsögu út í 50 mílur en einnig vildu flokkarnir senda herinn úr landi. Réðst nýja stjórnin strax í að byggja upp togaraflota landsins og síðan, eftir að yfirvöld í Lundúnum, Washington, Bonn og Moskvu höfnuðu öll áætlunum um frekari útvíkkun efnahagslögsögunnar, samþykkti Alþingi einróma að útvíkka skyldi lögsöguna. Höfðu stjórnarandstöðuflokkarnir algerlega skipt um skoðun á einungis nokkrum mánuðum. Var málinu strax skotið til Alþjóðadómstólsins  en Íslendingar sögðust ætla að hunsa hvern þann dóm sem kæmi til baka og halda sig við sitt. Bretar sendu þá flota til Íslands en Bandaríkjamenn, sem enn máttu teljast hlutlausir, svo næst sem grátbáðu Breta um að gefa eftir svo herinn þyrfti ekki frá að hverfa af Miðnesheiðinni. Þó flotinn væri hér við strendur hafði hann ekki leyfi til að skjóta að vild. Hittust sendinefndir landanna frá maí til júlí 1972 í bæði Lundúnum og Reykjavík en ekkert varð úr viðræðunum þar sem Lúðvík Jósepsson, sjávarútvegsráðherra, stóð enn gallharður á sínu og neitaði að viðurkenna nokkurs konar málamiðlun. Undirritaði hann reglugerð um að lögsagan skyldi útvíkkuð til 50 mílna þann 1. september 1972. Um miðjan ágústmánuð hið sama ár kvað Alþjóðadómstóllinn síðan upp bráðabirgðaúrskurð um að á meðan málið væri í meðferð mættu Íslendingar ekki hefta veiðar annarra þjóða við strendur landsins.

Allt stefndi í hart og þar sem Bretar höfðu kallað flotann heim höfðu Íslendingar yfirhöndina í fyrstu, Landhelgisgæslan hafði yfir öllum þeim sömu skipum að ráða og í síðasta stríði auk nýs Óðins (gamli Óðinn hlaut nafnið Gautur) og Ægis. Einnig var vitaskipinu Árvakri beitt og Hval-Tý, skipi sem ríkið hafði tekið leigunámi frá Hval hf. Í „flugher“ gæslunnar var síðan spáný Fokker-flugvél og 3 þyrlur, þar af ein fjögurra manna.

Þann 1. september 1972 gerðist ekkert fréttnæmt á sjó úti en fjórum dögum síðar var klippum fyrst beitt af Íslendingum og átti þeim eftir að vera beitt á yfir 100 lögsögubrjóta. Klippurnar voru í raun járnkarl með beittum skurðarblöðum í endann sem kræktust um vörpuvírana og skáru á svo hala þurfti inn án trollsins og aflans. Leynivopn þetta hafði verið hannað í fyrsta þroskastríðinu en því lauk áður en færi gafst á að beita því. Á næstu mánuðum varð Guðmundur Kjærnested svo næst sem stríðshetja í augum landans en hann var skipsherra á Óðni og sótti hart að Bretum. Fram að áramótum ríkti þessi staða en nokkur færi til togaratöku gáfust þó alltaf væri horfið frá þeim þar sem talið var að þau leiddu til blóðugra átaka og jafnvel mannsfalla. Í nóvember reyndu ráðamenn að semja til friðar og kom hingað til lands samninganefnd undir forystu Lafði Tweedsmuir en það mátti heita nýmæli að kona kæmi að málum í þorskastríðunum og er hún eina konan sem það gerði.

Um miðjan janúar 1973 fengu breskir togaramenn nóg og hótuðu verkfalli fengju þeir ekki vernd flotans innan sólarhrings enda var Hval-Týr, óvopnaður og óbrynvarinn, þá einnig farinn að skera á trollin. Bretarnir tóku þá á leigu varnarskipið Statesman en ekki reyndist þörf á því strax því þann 23. janúar hófst Vestmannaeyjagos og þurftu þá öll tiltæk íslensk skip frá að hverfa svo hægt væri að nota þau við björgunarstörf. Þegar varðskipin komu loks aftur á miðin í mars var þangað komið annað breskt herskip, Englishman, og brátt mætti hið þriðja, Irishman. Bættust síðan við fjórar freigátur og Nimrod-þotur veittu yfirsýn úr lofti. Um þetta tímabil sagði Helgi Hallvarðsson, skipherra á Þór: „Aldrei hafa jafnfáir togarar veitt jafnlítið af þorski undir jafnstrangri vernd,“ og vísaði þá í orð Churchills um flugmennina í orrustunni um Bretland. Þann 29. ágúst varð síðan eina dauðfall deilnanna þegar vélstjóri á Ægi fékk raflost við viðgerðir á blautum tæknibúnaði eftir harðan árekstur við HMS Apollo.

Íslendingar voru nú nærri allir sameinaðir um málstaðinn og gekk Ólafur Jóhannesson svo langt að lýsa því yfir að NATO-ríkjum bæri að lýsa yfir stríði gegn Bretum þar sem herskip þeirra og orrustuflugvélar athöfnuðu sig leyfislaust innan íslenskrar landhelgi. Á miðunum tóku skipstjórar íslensku varðskipanna að sigla á þau bresku og þegar Bretarnir svöruðu í sömu mynt tóku Íslendingarnir að skjóta til baka. Munu sum þessara skota hafa verið púðurskot en sum götuðu skrokka bæði bresku togaranna og herskipanna. Norðmenn tóku við sér þegar allt virtist stefna í úrgöngu Íslands úr NATO (og mun það hafa verið helst vegna þess að þeir óttuðust um eigið öryggi ef Bandaríkjanna nyti ekki við á miðju Atlantshafi) og loks náðust samningar eftir utanför Ólafs Jóhannessonar til Lundúna í október 1973 þar sem hann fundaði með Edward Heath, forsætisráðherra Breta. Voru samningarnir undirritaðir 13. nóvember hið sama ár en svipar um margt frekar til samninga um vopnahlé en frið. Kváðu þeir á um minni aflaheimild Breta auk takmarkana á svæðum og tegundum skipa (frysti- og verksmiðjutogarar voru með öllu bannaðir). Íslendingar fengu ekki þá viðurkenningu á 50 mílna fiskveiðilögsögu sem þeir höfðu vonast eftir.

Þýska þorskastríðið (1973-1975)

[breyta | breyta frumkóða]

Þegar þessu þorskastríði lauk virtist hið næsta strax vera yfirvofandi enda höfðu nokkrar þjóðir þá þegar tekið upp 200 mílna landhelgi og virtist allt stefna í að þriðja hafréttarráðstefnan samþykkti hana. Árin 1973-75 héldu Bretar sig jafnan til hlés en Vestur-Þjóðverjar, sem enn höfðu ekki samþykkt 50 mílna lögsöguna, sóttu í sig veðrið og nýttu sér fjarveru Breta. Þegar brugðist var við því sem Íslendingar kölluðu veiðiþjófnað með vopnaðri töku togarans Arcturus var sett löndunarbann á íslenskan fisk í nokkrum þýskum höfnum. Var þessi deila óútkljáð þegar þriðja þorskastríðið brast á en hefur jafnan verið nefnd „gleymda þorskastríðið“ enda var sömu aðferðum beitt og klippt aftan úr 15 þýskum togurum á þessu tímabili.

Þriðja þorskastríðið (1975–1976)

[breyta | breyta frumkóða]
Árekstur milli varðskipsins Óðins og freigátu breska sjóhersins HMS Scylla 23 febrúar 1976

Þegar árið 1975 gekk í garð hafði ný ríkisstjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarmanna tekið við völdum og stefndi leynt og ljóst að útvíkkun fiskveiðilögsögu í 200 mílur, enda kváðu lög frá fyrri stjórn á um að það skyldi gert. Um sumarið birti Hafrannsóknastofnunin síðan skýrslu sem hlaut nafnið „svarta skýrslan“ en fyrir henni stóð Hans G. Anderson, þjóðréttarfræðingur. Í henni var varað við alvarlegum afleiðingum ofveiða síðustu ára og að minnka þyrfti þorskveiðar um helming. Var skýrslunni tekið sem svo að erlendir aðilar þyrftu að víkja með öllu af Íslandsmiðum. Matthías Bjarnason, sjávarútvegsráðherra, undirritaði 15. júlí 1975 reglugerð þess efnis að fiskveiðilögsaga skyldi vera 200 mílur frá landi á alla vegu en þó skyldi semja um mörk lögsagna ef önnur ríki tækju upp hið sama (hér er átt við Danmörku fyrir hönd Grænlands og Færeyja). Báðar hliðar höfðu mikið að missa í þessu máli, Íslendingar sóttust eftir tollaívilnunum hjá Efnahagsbandalagi Evrópu (forvera ESB) en Bretar áttu á brattann að sækja því bæði ríkti olíukreppa í heiminum um þessar mundir og togarafloti þeirra var að mestu úreltur. Ef ekki mætti sækja Íslandsmið gæti farið svo að ekki væri hægt að endurnýja hann og útgerð í fjölmörgum sjávarþorpum legðist af.

Var þá hafið þriðja þorskastríðið en skip og skipsherrar Breta voru að mestu hin sömu enda ekki nema tvö ár frá lokum þess síðasta. Við flota Íslendinga höfðu bæst varðskipið Týr og skuttogarinn Baldur. Þann 14. nóvember 1975 tók nýja lögsagan gildi en breskir togarar innan hennar neituðu að víkja. Dró þó til tíðinda næsta dag þegar Þór og Týr skáru báðir á víra togara. Hitti ekki betur á en að bresk samninganefnd undir stjórn Roy Hattersley var nýlent á Keflavíkurflugvelli þegar hún frétti af klippingunum og neituðu Bretarnir þá með öllu að semja um neitt annað en fullkomna uppgjöf Íslendinga. Friður náðist þó við Vestur-Þjóðverja stuttu síðar og höfðu Bretar þá misst sinn helsta, og raunar eina, bandamann í deilunni. Bretar voru um þessar mundir gagnrýndir fyrir hræsni enda höfðu þeir sjálfir teygt út lögsögu sína í Norðursjó svo bora mætti fyrir olíu þar en það stöðvaði þá ekki í að senda herskip inn í hina nýju lögsögu Íslendinga. Það sem öðruvísi var í þessari lotu stríðanna var bæði að hún var ekki síður áróðursstríð sem fjölmiðlar áttu hlut að og að hún var háð að vetri til en Íslendingarnir höfðu talsvert meiri reynslu af frostinu og veðurofsanum. Þurftu minni herskip Breta því að hörfa alla leiðina heim eftir síendurteknar vélarbilanir og tilraun áhafnar Þórs til að byrða tvö þeirra skammt undan Seyðisfirði í óveðri.

Eftir þetta urðu ryskingarnar stöðugt hatrammari og varð fyrsti árekstur freigátu og varðskips stuttu eftir áramótin 1975-76 þegar Týr og HMS Andromeda skröpuðust saman á fullum hraða. Í kjölfarið kom til fjölda árekstra en verður saga þeirra ekki rakin hér utan einnar og er hún hin alvarlegasta: mættu þá varðskipin Baldur, Óðinn, Týr og Ver fjórum freigátum skammt undan Austfjörðum 6. og 7. mars 1975 og slapp ekkert skipanna átta óskaddað úr þeirri viðureign. Allhvasst var og úfinn sjór þegar skipin mættust en breskir togarar voru þar að toga. Baldur sigldi á HMS Mermaid og tók hana þannig úr leik þar sem stór rifa myndaðist á síðu hennar og tók hún mikið vatn í kjölfarið. Óðinn glímdi við HMS Gurkha en sú viðureign endaði án sigurvegara á meðan Týr sótti að togurunum með HMS Falmouth skammt á eftir sér og Ver áttist við HMS Galateu sem reyndi af fremsta megni að halda honum frá togurunum. Týr kom úr rimmunni sem hin mesta hetja eftir að HMS Falmouth klessti á hann svo litlu munaði að honum hvolfdi en þegar hann hafði rétt úr sér sigldi hann beint af augum og skar á vír togarans Carlisle. Var HMS Falmouth þá aftur í sóknarfæri og sigldi á svo enn minna munaði að honum hvolfdi. Skipverjar sem leitað höfðu skjóls í þyrluskýli skipsins voru undir í nokkurn tíma og telja má víst að þeir hefðu allir drukknað ásamt mönnum í vélarrýminu ef skipið hefði ekki rétt úr sér á undraverðan hátt. Voru bæði HMS Falmouth og Týr, auk HMS Mermaid og Óðins, úr leik það sem eftir var þorskastríðanna. Næsta dag kom aftur til ryskinga og telja má víst að Bretar hefðu skotið á varðskipin þar sem leyfi hafði loksins borist frá Lundúnum. Áhöfn Þórs hélt áfram uppteknum hætti og dró nokkra togara í land en Ægir hélt vestur og mætti þar nokkrum togurum af Grænlandsmiðum. Ekki kom þó til mikilla átaka eftir þessa „sjóorrustu“ en má það sæta happi þar sem Íslendingar gátu ekki haldið upp sömu vörnum og áður með einungis tvö varðskip og eitt vitaskip (Árvak).

Skömmu fyrir þessa orrustu höfðu íslensk stjórnvöld gengið svo langt að slíta stjórnmálasambandi við Breta og önnuðust þá Norðmenn málefni Íslands í Bretlandi á meðan. Var þá uppi sú áður óséða staða að eitt NATO-ríki sleit stjórnmálasambandi við annað og varð öllum ljóst að Íslendingum var fúlasta alvara um útgöngu úr NATO. Eitthvað þyrfti að gera svo ekki flosnaði upp úr bandalaginu og hafði Noregsstjórn, með Knut Frydenlund utanríkisráðherra í broddi fylkingar, milligöngu fyrir sáttasamningum sem undirritaðir voru í Ósló 1. júní 1976. Með þeim viðurkenndu Bretar 200 mílna lögsöguna og fengu í staðinn einungis að afla sér 30.000 tonnum yfir næstu sex mánuðina. Hefur þessum málalyktum verið lýst sem nánast algerum sigri Íslendinga, líkt og Davíð sigraði Golíat forðum.

  • Björn Þorsteinsson. 1976. Tíu þorskastríð, 1415-1976. Sögufélagið, Reykjavík.
  • Einar Laxness og Pétur Hrafn Árnason. 2015. Íslandssaga A-Ö. Frá abbadís til Örlygsstaðabardaga. Vaka-Helgafell, Reykjavík.
  • Guðbjartur Þór Kristbergsson. September 2014. Gleymda þorskastríðið. [L]andhelgisdeilur Íslands og Vestur-Þýskalands 1972-1975. Sótt 5. nóvember 2020 af [1]
  • Guðni Th. Jóhannesson. 2006. Þorskastríðin þrjú. Saga landhelgismálsins, 1948-1976. Hafréttarstofnun Íslands, Reykjavík.
  • Gunnar Páll Baldvinsson. [Án árs]. 16. Þriðja hafréttarráðstefna Sameinuðu Þjóðanna 1974-1976. Sótt 8. nóvember 2020 af [2]