Fara í innihald

Dolores Ibárruri

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá La Passionaria)
Dolores Ibárruri
Fædd9. desember 1895
Dáin12. nóvember 1989 (93 ára)
ÞjóðerniSpænsk
StörfStjórnmálamaður
FlokkurKommúnistaflokkur Spánar
MakiJulián Ruiz Gabiña
Börn6

Isidora Dolores Ibárruri Gómez (9. desember 1895 – 12. nóvember 1989), einnig þekkt undir viðurnefninu La Passionaria (sem merkir bókstaflega „passíublómið“ á spænsku, en hefur líka verið þýtt óeiginlega sem „eldmóðskonan“[1] og „eldsálin“[2]) var basknesk-spænsk kommúnísk stjórnmálakona sem barðist við hlið lýðveldissinna í spænsku borgarastyrjöldinni.

Ibárruri varð fræg fyrir baráttuorðin ¡No Pasarán! („Þeir skulu ekki komast í gegn“) sem hún beitti til að hvetja varnir lýðveldissinna í umsátrinu um Madríd. Baráttuorðin urðu fræg slagorð andfasista og spænskra lýðveldissinna. Eftir stríðið flúði Ibárruri til Moskvu en sneri aftur til Spánar eftir endalok einræðisins árið 1975.

Ibárruri fæddist í Somorrostro-dalnum í Baskalandi.[3] Hún ólst upp með fjölskyldu námuverkamanna í bænum Gallarta.[4]

Þegar Ibárruri var 20 ára gömul giftist hún byltingarsinnuðum, sósíalískum námuverkamanni að nafni Julián Ruiz Gabiña. Hjónin eignuðust sex börn en fjögur þeirra létust í frumbernsku.[5] Einkasonur hennar, Rubén, lést í orrustunni um Stalíngrad, þar sem hann barðist með sovéska hernum.[3]

Árið 1921 varð Ibárruri fulltrúi á fyrsta flokksþingi spænska kommúnistaflokksins.[3] Á fjórða áratugnum varð hún blaðamaður hjá flokksblaðinu Mundo Obrero. Eftir stofnun annars spænska lýðveldisins árið 1931 flutti Ibárruri til Madríd til að vinna sem blaðaritstjóri. Hún var handtekin í fyrsta skipti í september árið 1931.[6] Í fangelsi taldi hún samfanga sína á að fara í hungurverkfall til að krefjast frelsis allra pólitískra fanga spænsku lýðveldisstjórnarinnar.

Andfasisti og femínisti

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1933 tók Ibárruri þátt í stofnun kvennasamtakanna Mujeres Antifascistas sem hvöttu konur til að berjast gegn fasisma og stríði. Í nóvember árið 1933 ferðaðist hún til Moskvu sem fulltrúi á 13. allsherjarþingi framkvæmdastjórnar Alþjóðasamtaka kommúnista.[4] Þar hélt hún ræður um ógnina af fasismanum og hættuna á yfirvofandi heimsstyrjöld.

Árið 1934 tók hún þátt í fyrstu alþjóðlegu kvennasamkomunni Rassemblement Mondial des Femmes contre la guerre et le fascisme, þar sem mælt var á móti stríði og fasisma, og haldin var frá 4. til 7. ágúst í Frakklandi. Ráðstefnunni var stýrt af Gabrielle Duchêne, forseta Frakklandsdeildar Alþjóðafélags kvenna fyrir friði og frelsi.

Eftir borgarastyrjöldina

[breyta | breyta frumkóða]

Eftir lok spænsku borgarastyrjaldarinnar og flótta Ibárruri frá Spáni var hún útnefnd aðalritari miðstjórnar spænska kommúnistaflokksins. Hún hélt þeirri stöðu í 18 ár, frá 1942 til 1960. Eftir dauða Francisco Franco árið 1975 sneri hún aftur heim til Spánar og þegar fyrstu frjálsu þingkosningarnar voru haldnar eftir endurreisn lýðræðisins árið 1977 var hún kjörin á spænska þingið.[3]

Ibárruri er talin meðal upphafsmanna evrókommúnisma. Ásamt Santiago Carrillo hafði hún gert leiðtogum Sovétríkjanna ljóst að spænskir kommúnistar myndu ekki styðja sovéska innrás í Tékkóslóvakíu. Þegar Sovétríkin réðust inn í Tékkóslóvakíu árið 1968 til að binda enda á vorið í Prag fordæmdu spænskir kommúnistar sovéska kommúnistaflokkinn opinberlega.[7] Þetta stuðlaði að því að margir evrópskir kommúnistaflokkar byrjuðu að hafna fylgni við Sovétríkin.

Ibárruri lést árið 1989 úr lungnabólgu.

Eitt og annað

[breyta | breyta frumkóða]

Þann 18. apríl árið 1933 uppgötvaði sovéski stjörnufræðingurinn Grígoríj N. Neújmín smástirni sem hann nefndi 1277 Dolores í höfðuðið á Dolores Ibárruri.[8]

  • Dolores Ibárruri: Speeches & Articles 1936-1938, New York, 1938.
  • El único camino, Moskva, 1963.
  • Memorias de Dolores Ibarruri, Pasionaria: la lucha y la vida, Barcelona, 1985.
  • They Shall Not Pass: The Autobiography of La Pasionaria, New York, 1966.
  • Memorias de Pasionaria, 1939-1977: Me faltaba Espana, Barcelona, 1984.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Passionaria: Kvenhetja spönsku alþýðunnar. Verkalýðsblaðið. 17. ágúst 1936.
  2. Heimsþing kvenna í París. Melkorka. 1. maí 1946.
  3. 3,0 3,1 3,2 3,3 The New York Times > Obituaries: Dolores Ibarruri, 'La Pasionaria' Of Spanish Civil War, Dies at 93; An Indomitable Leftist
  4. 4,0 4,1 Marxist Internet Archive: Dolores Ibárruri (Dolores Ibárruri Gómez, "La Pasionara" (1895-1989)
  5. La Passionaria. Ný dagsbrún. 1. janúar 1977.
  6. Spartacus Educational > The Spanish Civil War > Dolores Ibárruri (Pasionaria)
  7. Anderson, Gidske (1979). Fra stalinisme til sosialdemokrati? : politiske strømninger i Sør-Europa (norska). Ósló: Fabritius. bls. 112. ISBN 8207004339.
  8. Lutz D. Schmadel: Dictionary of Minor Planet Names, 6. reviderte og utvidete utgave, Heidelberg: Springer, 2012, bls. 103.