Fara í innihald

Líffræði

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Líffræðingur)
Mynd af innri gerð plöntufrumu, einnig sjást heiti á mörgum frumulíffærum.
Animalia - Bos primigenius taurus
Planta - Triticum
Fungi - Morchella esculenta
Stramenopila/Chromista - Fucus serratus
Bacteria - Gemmatimonas aurantiaca (- = 1 Micrometer)
Archaea - Halobacteria
Virus - Gamma phage

Líffræði eða lífvísindi er sú vísindagrein sem fjallar um lífið. Allir þættir lífs eru rannsakaðir, allt frá efnasamsetningu lífveraumhverfi þeirra og atferli. Einnig er fjallað um sögu lífs frá uppruna og þróun þess fram til okkar daga. Alþjóðlegt heiti greinarinnar, biologia, er komið úr forngrísku og er sett saman af orðinu bio, sem merkir líf, og viðliðnum logia, sem merkir meðal annars fræði.

Meginstoðir líffræðanna

[breyta | breyta frumkóða]

Líffræði er afar víðfeðmt svið, svo nánast er ógjörningur að alhæfa um rannsóknanálgun líffræðinga. Því heyrist þó stundum fleygt að rannsóknir líffræðinga séu um margt ólíkar því sem tíðkast innan eðlisfræða og annarra raungreina og séu ekki byggðar á lögmálum og stærðfræðilegum útskýringum. Athuganir líffræðinga hafa þó leitt í ljós að lífið fylgir ákveðnum reglum sem lýsa má með eftirfarandi hugmyndum um einkenni lífvera, þróun þeirra, fjölbreytileika, skyldleika, jafnvægishneigð og samverkun.

Megineinkenni lífvera

[breyta | breyta frumkóða]

Ýmsir þættir og ferli eru sameiginleg á meðal lífvera og má telja grundvallar atriði lífsins. Þær verur sem búa yfir þessum eigindum má þá líta á sem „fullgildar“ lífverur. Til að mynda samanstanda allar lífverur af frumum sem allar eru um margt svipaðar að byggingu. Hafa til dæmis frumuhimnu úr fosfólípíðum og eru samsettar úr sams konar lífefnum. Allar lífverur hljóta í arf erfðaefni (frá foreldri eða foreldrum) sem inniheldur erfðamengi lífvera. Þroski fósturvísa hjá fjölfruma lífverum sýnir áþekk formfræðileg skref og þroskaferlinu er stjórnað með tjáningu líkra erfðavísa.

Þróun: meginregla líffræðanna

[breyta | breyta frumkóða]

Rannsóknir líffræðinga hafa leitt í ljós að allar lífverur eru afkomendur sameiginlegs áa og hafa orðið til fyrir tilstilli þróunar. Þetta er meginástæða þess að lífverur eru svo líkar að gerð og atferli. Charles Darwin setti fram þá útgáfu þróunarkenningarinnar sem enn er í gildi og skilgreindi drifkraft hennar, náttúruval.

Upprunaflokkun lífvera

[breyta | breyta frumkóða]

Þrátt fyrir að lífverur séu líkar í grundvallaratriðum, þá er afar mikinn fjölbreytileika að finna innan lífríkisins, til dæmis hvað varðar atferli, form og efnaskipti. Til þess að kljást við þennan fjölbreytileika hafa líffræðingar reynt að flokka allar lífverur. Flokkunarkerfið ætti að taka mið af skyldleika lífvera og endurspegla þróunarsögu þeirra. Slík flokkun heyrir undir flokkunarfræði og nafngiftargræði, þar sem lífverur eru flokkaðar í hópa (taxa) sem bera hvert sitt fræðiheiti. Lífverur eru flokkaðar í þrjú lén: gerla, fyrnur og heilkjörnunga. Innan lénanna eru síðan smærri flokkunar einingar, svo sem ríki, fylkingar og flokkar. Veirur, naktar veirur og prótínsýklar eru einnig taldin til viðfangsefna líffræðanna, þó svo hæpið sé að telja þessar verur til lífvera í eiginlegum skilningi.

Samvægi: aðlögunarhæfni lífvera

[breyta | breyta frumkóða]

Samvægi er tilhneyging lífkerfa til að bregðast við áreiti (breytingum í umhverfi o.s.frv.) þannig að innra jafnvægi haldist innan ásættanlegra marka. Allar lífverur, einfruma og fjölfruma, reyna eftir fremsta megni að halda líkamlegu jafnvægi. Samvægi sést hjá frumum sem leitast við að halda jöfnu sýrustigi eða saltmagni (sjá osmósa), hjá fjölfrumungum með heitt blóð sem leitast við að halda réttum líkamshita og í vistkerfum — t.d. þegar koldíoxíðmagn eykst, er meira brennsluefni handa plöntum svo að meira vex af þeim og þær eyða umfram koldíoxíði og koma á jafnvægi. Vefir og líffæri leitast einnig við að halda samvægi.

Samverkun: lífveruhópar og umhverfið

[breyta | breyta frumkóða]

Allar lífverur verka á víxl við aðrar lífverur og umhverfið. Stórt vandamál sem blasir við rannsóknum á stórum vistkerfum er að það eru svo margar víxlverkanir sem geta átt sér stað og erfitt að rekja eina til enda eða upphafs. Eins og ljón bregst við umhverfi sínu á veiðum á gresjunni bregst baktería við sykursameind sem verður á leið hennar. Hegðun lífvera gagnvart öðrum er hægt að flokka í samhjálp, árásagirni, gistilíf og sníkjulíf. Málið vandast þegar farið er að skoða samband lífvera í vistkerfi og heyra þær athuganir undir vistfræði.

Undirgreinar líffræðanna

[breyta | breyta frumkóða]

Viðfangsefni lífvísindanna eru mörg og fjölbreytt. Það má því skipta líffræðunum niður í nánast ótal margar undirgreinar. Hér er listi yfir nokkrar þeirra: