Keflavíkurgangan 1964

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Keflavíkurgangan 1964 var haldin af Samtökum hernámsandstæðinga þann 21. júní árið 1964. Þetta var fjórða Keflavíkurgangan og beindist gegn bandarískri hersetu á Íslandi og áformum um aukin umsvif hennar.

Aðdragandi og skipulag[breyta | breyta frumkóða]

Keflavíkurgangan 1964 var fyrsta slíka gangan í þrjú ár.[1] Sumarið 1962 hafði verið haldin Hvalfjarðarganga og vegna þingkosninga hafði starfsemi Samtaka hernámsandstæðinga verið í lágmarki sumarið 1963. Hugmyndir um uppbyggingu kafbátamiðstöðvar Bandaríkjahers í Hvalfirði voru göngumönnum ofarlega í huga, en einnig rekstur Keflavíkursjónvarpsins. Þá komu skýrt fram í ræðum og skrifum í tengslum við gönguna ótti við að Kalda stríðið kynni að harðna í tengslum við harða orðræðu Barry Goldwater, frambjóðanda Repúblikana í bandarísku forsetakosningunum sama ár.

Þorvarður Örnólfsson og Þóroddur Guðmundsson frá Sandi ávörpuðu göngufólk áður en lagt var af stað. Sverrir Kristjánsson sagnfræðingur og Jón Snorri Þorleifsson formaður Trésmiðafélags Reykjavíkur héldu ræður við Miðbæjarskólann í göngulok en Jónas Árnason var fundarstjóri. Voru fundarmenn taldir á bilinu 1.500 og 2.000.

Nokkrar deilur urðu um fréttaflutning Ríkisútvarpsins af göngunni. Í fréttum var sagt að 120 göngumenn hefðu haldið af stað frá herstöðvarhliðinu, en skipuleggjendur töldu töluna nær 200. Málið var kært til Útvarpsráðs, sem vísaði því að lokum frá. Hernámsandstæðingar brugðust við með því að safna undirskriftum 194 einstaklinga sem lýstu því yfir að hafa gengið með frá byrjun.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Keflavíkurgöngur - sögusýning á Landsbókasafni“ (PDF).