Kanansland
Útlit
(Endurbeint frá Kənáʿan)
Kanansland (norðvestursemíska: knaʿn; föníska: 𐤊𐤍𐤏𐤍; biblíuhebreska: כנען / knaʿn; masóretíska: כְּנָעַן / Kənáʿan) var landsvæði semískumælandi þjóða fyrir botni Miðjarðarhafs og samsvarar því sem í dag heitir Austurlönd nær, það er Palestína, Ísrael, Líbanon, Jórdanía og Sýrland. Svæðið varð mikilvægt á Amarnatímabili síðbronsaldar þegar þar komu saman áhrifasvæði stórvelda á borð við Hittíta, Forn-Egypta og Assyríu. Nafnið Kanan kemur oft fyrir í heimildum frá 4. árþúsundinu f.Kr. en Kananítar settust að á svæðinu á 8. árþúsundinu f.Kr. Þegar járnöld gekk í garð fyrir 1000 f.Kr. skiptist Kanansland milli Föníka, Ammoníta, Móabíta, Ísraelsmanna og Filistea en nafnið lifði áfram allt þar til Grikkir og Rómverjar lögðu svæðið undir sig.