Jónas Jónassen
Jónas Jónassen (18. ágúst 1840 – 22. nóvember 1910) var íslenskur læknir sem var landlæknir 1895 – 1906. Hann var jafnframt forstöðumaður Læknaskólans, alþingismaður og sat í bæjarstjórn Reykjavíkur.
Jónas var fæddur í Reykjavík, sonur Þórðar Jónassen háyfirdómara og stiftamtmanns og konu hans Dorotheu Sophiu Lynge. Hann tók stúdentspróf frá Lærða skólanum 1860 og lauk prófi í læknisfræði frá Kaupmannahafnarháskóla 1866. Hann var staðgengill Jóns Hjaltalín landlæknis frá apríl til júní 1867 og var árið 1868 settur aðstoðarmaður hans við læknakennslu og um leið sýslulæknir í Kjósarsýslu og Borgarfjarðarsýslu. Sama ár varð hann læknir við sjúkrahúsið í Reykjavík. Árið 1873 varð hann héraðslæknir í Reykjavíkurhéraði og gegndi því embætti allt til 1895.
Þegar Jón Hjaltalín var leystur frá embætti 1881 vegna elli og sjóndepru var Jónas settur til að gegna embættinu og áttu flestir von á að hann fengi það, enda þótti hann hæfur læknir og var vinsæll. Hann var líka vel menntaður, fór nokkrum sinnum til Danmerkur til að stunda framhaldsnám og varði doktorsritgerð um sullaveiki á Íslandi við Kaupmannahafnarháskóla 30. júní 1882. Þó fór svo að Daninn Schierbeck var skipaður í embættið 1882 og tók við í nóvember það ár eftir að hafa staðist íslenskupróf sem var skilyrði fyrir embættisveitingunni. Urðu allmiklir flokkadrættir, bæði meðal Reykvíkinga og Íslendinga í Kaupmannahöfn, vegna þessa. Samstarf þeirra Schierbecks og Jónasar var því ekki alltaf sem best og þeir deildu meðal annars töluvert um sjúkrahússbyggingu í Reykjavík en þar urðu sjónarmið Jónasar ofan á.
Jónas var jafnframt kennari við Læknaskólann allt frá stofnun hans 1876 og forstöðumaður á meðan hann gegndi landlæknisembættinu, sem hann fékk loks þegar Schierbeck fluttist af landi brott árið 1895. Hann lét af embætti 1906. Hann var kjörinn alþingismaður Reykvíkinga 1886 og sat á þingi til 1892 og varð svo konungkjörinn þingmaður 1899 og sat á þingi til 1905. Hann átti jafnframt sæti í bæjarstjórn Reykjavíkur frá 1888 til 1900. Hann skrifaði rit og greinar um ýmis efni, þar á meðal Lækningabók fyrir alþýðu, sem út kom 1884.
Kona hans var Þórunn Pétursdóttir Havstein (12. júní 1850 – 18. apríl 1922) og áttu þau eina dóttur, Soffíu Jónassen Claessen (1873-1943).
Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]
[breyta | breyta frumkóða]- Ljósmynd af Jónasi Jónassen á myndavef Ljósmyndasafns Reykjavíkur.[óvirkur tengill]
- Myndasafn Soffíu Jónassen Claessen (1873-1943) á myndavef Ljósmyndasafns Reykjavíkur.[óvirkur tengill]
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- „Æviágrip á vef Alþingis. Skoðað 4. apríl 2011“.
- „Um læknaskipun á Íslandi. Tímarit hins íslenzka bókmenntafélags, 11. árgangur 1890“.
- Jón Páll Björnsson, Doktor Schierbeck og Íslendingarnir, ritgerð til BA-prófs, júní 2010.