Fara í innihald

Pétursfiskur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá John Dory)
Pétursfiskur
Zeus faber
Zeus faber
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Seildýr (Chordata)
Flokkur: Geisluggar (Actinopterygii)
Ættbálkur: Pétursfiskar (Zeiformes)
Ætt: Zeidae
Ættkvísl: Zeus
Tegund:
Z. faber

Tvínefni
Zeus faber
Linnaeus
Útbreiðsla Pétursfisks
Útbreiðsla Pétursfisks

Pétursfiskur (Zeus faber), einnig þekktur sem Sankti Pétursfiskur eða John Dory er þunnvaxinn og hausstór botnfiskur. Útlit hans er töluvert frábrugðið útliti annarra fiska við strendur Íslands. Aðal útlitseinkenni hans eru stórir bak- og kviðuggar en út frá bakugga hans eru tíu áberandi stórir broddar. Litur er allt frá því að vera nær silfraður til þess að vera gullinn, brúngráleitur með gulleitum röndum eða ólífugrænn. Þá hefur hann áberandi svartan blett á hvorri hlið. [1]

Til eru margar getgátur um hvaðan nafn fisksins kemur, en hann gengur sem sagði ýmist undir nafninu John Dory eða Sankti Pétursfiskur. Seinna nafn hans er rakið til Péturs postula sem á að hafa misst smápening ofan í Galíleuvatn, sem fiskurinn náði í. Þá á Pétur að hafa gripið í fiskinn, endurheimt myntina og skilið eftir stóran svartan blett á hvorri hlið fisksins eftir fingur sína [2]. Nafnið John Dory gæti verið afbökun á frönsku orðunum dorée og jaune, sem þýða einmitt gullinn og gulur og er þar vitnun í lit fisksins, John Dory var síðan persóna í breskum barnavísum sem ferðaðist til Frakklands, þar sem hann gerðist sjóræningi [3].

Lífhættir

[breyta | breyta frumkóða]
Pétursfiskur

Pétursfiskur heldur sig við sjávarbotn á 5-150 metra dýpi en hefur þó veiðst allt niður á 400 metra dýpi. Hann er yfirleitt einfari og sjaldan torfufiskur. Hann er ekki mikill sundfiskur en felurlitir fisksins hjálpa honum í fæðuöflun, þá étur hann flesta minni botnfiska en einnig smokkfiska og krabbadýr [4]. Til eru dæmi um Pétursfiska sem náð hafa 12 ára aldri og aðra sem orðið hafa allt að 70 cm langir en algeng stærð þeirra er 35-40 cm [3]. Pétursfiskurinn verður kynþroska 3-4 ára, þá um 25 - 35 cm langur [5]. Hrygning á sér stað í júní til ágúst í Biskajaflóa, vestanverðu Ermasundi og einnig í Miðjarðarhafi. Egg eru sviflæg, þar sem móðirin skiptir sér ekkert af þeim [1].

Pétursfiskur finnst mjög víða í heimshöfunum, við alla strönd Evrasíu, nema strönd Rússlands, en helst í höfunum í kringum Noreg, í Eystrasalti og í kringum Bretland, Indónesíu, í Gulahafi og Austur-Kínahafi. Hann finnst einnig við allar strandlengjur Afríku og Ástralíu [1].

Það var 21. september árið 2004 sem fyrsti Pétursfiskurinn veiddist við Ísland svo vitað sé, ísfisktogarinn Helga RE 49 fékk fiskinn í trollið út af Sandgerði og reyndist hann 37 cm langur. Pétursfiskur er ekki markvisst veiddur, heldur er hann meðafli botnvörpu- eða línuveiða [6].

Pétursfiskur er mikill matfiskur, mikil eftirspurn er eftir honum á Íslandi, en framboðið miður lítið, vegna þess að hann veiðist einungis sem meðafli [1].

Heimsafli árið 2005 var 11 þúsund tonn en helmingi minni áratug áður [7]. Líkt og komið hefur fram veiðist pétursfiskur einungis sem meðafli. Mest veiðist af fisknum við strendur Afríku og aflamestu löndin árið 2010 voru Spánn, Frakkland og Marokkó.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (e.d.). Pétursfiskur. Í Bjarni Guðmarsson (ritsjtóri), Íslenskir fiskar (bls. 215-217). Reykjavík: Vaka-Helgafell.
  2. Nordsee. (e.d.). St. Peter’s fish (John Dory). Sótt 2. febrúar 2013 af http://www.nordsee.com/en/themen/210/St.%20Peter%E2%80%99s%20fish%20(John%20Dory))[óvirkur tengill]
  3. 3,0 3,1 Wikipedia. (e.d.). John Dory. Sótt 2. febrúar 2013 af http://en.wikipedia.org/wiki/John_Dory
  4. FAO. (e.d.). Zeus faber (Linnaeus, 1758). Sótt 3. febrúar 2013 af http://www.fao.org/fishery/species/2250/en
  5. Morgunblaðið. (2004, 24. september). Pétursfiskur finnst á Íslandsmiðum í fyrsta skipti. Sótt 3. febrúar 2013 af http://www.mbl.is/frettir/innlent/2004/09/24/petursfiskur_finnst Geymt 10 mars 2016 í Wayback Machine _a_islandsmidum_i_fyrsta_skipti/
  6. Morgunblaðið. (2004, 25. september). Fyrsti pétursfiskurinn. Sótt 3. febrúar 2013 af http://www.mbl.is/greinasafn/grein/820286/
  7. Jón Már Halldórsson. (2007, 22. ágúst). „Hvar veiðist pétursfiskur?“. Vísindavefurinn. Sótt 2. febrúar 2013 af http://visindavefur.is/svar.php?id=6770