Jodie Foster
Jodie Foster | |
---|---|
Upplýsingar | |
Fædd | Alicia Christian Foster 19. nóvember 1962 Los Angeles, Kaliforníu, Bandaríkjunum |
Ár virk | 1965– |
Maki | Alexandra Hedison (g. 2014) |
Börn | 2 |
Helstu hlutverk | |
Iris í Taxi Driver (1976) Sarah Tobias í The Accused (1988) Clarice Starling í The Silence of the Lambs (1991) | |
Óskarsverðlaun | |
Besta leikkona í aðalhlutverki fyrir The Accused (1988) Besta leikkona í aðalhlutverki fyrir The Silence of the Lambs (1991) |
Alicia Christian „Jodie“ Foster (f. 19. nóvember 1962) er bandarísk leikkona, leikstjóri og kvikmyndaframleiðandi.[1][2] Hún hefur hlotið tvenn Óskarsverðlaun, þrenn BAFTA-kvikmyndaverðlaun, tvenn Golden Globe-verðlaun og Golden Globe Cecil B. DeMille-verðlaunin. Hún hefur jafnframt verið tilnefnd til Emmy-verðlauna fyrir störf sín sem leikstjóri.
Ferill
[breyta | breyta frumkóða]Jodie Foster hóf feril sinn á hvíta tjaldinu þegar hún var barn. Hún hafði unnið sem fyrirsæta frá því að hún var þriggja ára og átti frumraun sína sem leikkona í sjónvarpsþættinum Mayberry R.F.D. árið 1968. Seint á sjöunda áratuginum og í byrjun þess áttunda birtist hún í ýmsum sjónvarpsþáttum og hóf síðan leikferil í kvikmyndum með Disney-myndinni Napoleon and Samantha árið 1972.
Foster skaust upp á stjörnuhimininn eftir að hún birtist í kvikmyndinni Taxi Driver eftir Martin Scorsese árið 1976, þar sem hún lék barnunga vændiskonu að nafni Iris. Fyrir leik sinni í myndinni var hún tilnefnd til Óskarsverðlauna í flokki bestu leikkonunnar í aukahlutverki, aðeins fjórtán ára gömul. Á næstu árum birtist Foster meðal annars í söngleiknum Bugsy Malone (1976) og spennumyndinni The Little Girl Who Lives Down the Lane (1976). Foster varð vinsæl stjarna meðal táninga og ungmenna með kvikmyndum á borð við Freaky Friday (1976), Candleshoe (1977), Carny (1980) og Foxes (1980).
Eftir að hafa lokið námi í Yale-háskóla átti Foster lengi erfitt með að endurnýja leikferil sinn og hljóta fullorðinshlutverk í kvikmyndum. Ferill hennar fór á flug á ný eftir að hún birtist í kvikmyndinni The Accused árið 1988. Þar lék hún fórnarlamb hópnauðgunar sem leitar réttar síns innan bandaríska dómkerfisins og vann til Óskarsverðlauna sem besta leikkonan í aðalhlutverki. Foster vann önnur Óskarsverðlaun aðeins þremur árum síðar fyrir kvikmyndina The Silence of the Lambs, þar sem hún lék rannsóknarlögreglukonuna Clarice Starling.
Sama ár og The Silence of the Lambs kom út reyndi Foster fyrir sér sem kvikmyndaleikstjóri í fyrsta sinn með kvikmyndinni Little Man Tate. Hún stofnaði sitt eigið kvikmyndafélag, Egg Pictures, árið 1992. Fyrsta myndin sem fyrirtækið gerði var Nell árið 1994, en Foster lék jafnframt aðalhlutverkið í myndinni og var tilnefnd til Óskarsverðlauna í fjórða sinn fyrir hana. Meðal annarra vinsælla mynda sem Foster birtist í á tíunda áratugnum má nefna Maverick (1994), Contact (1997) og Anna and the King (1999).
Ferill Fosters hægði nokkuð á sér snemma eftir aldamótin. Kvikmynd hennar var meðal annars aflýst og kvikmyndaverinu hennar lokað. Foster rétti úr kútnum á næstu árum með hlutverkum í fjórum vinsælum spennumyndum: Panic Room (2002), Flightplan (2005), Inside Man (2006) og The Brave One (2007). Á öðrum áratugi 21. aldar hefur hún að mestu einbeitt sér að leikstjórn og hefur meðal annars leikstýrt kvikmyndunum The Beaver (2011) og Money Monster (2016)[3] auk þess sem hún hefur leikstýrt stökum þáttum í þáttaröðunum Orange Is the New Black, House of Cards og Black Mirror. Á seinni árum hefur Foster meðal annars leikið í myndunum Carnage (2011), Elysium (2013) og Hotel Artemis (2018).
Árið 2018 lýsti Foster yfir áhuga á að leikstýra og fara með aðalhlutverkið í bandarískri endurgerð á íslensku kvikmyndinni Kona fer í stríð.[4]
Morðtilræðið gegn Ronald Reagan
[breyta | breyta frumkóða]Þegar Jodie Foster var á fyrsta ári sínu í Yale-háskóla árið 1981 reyndi sturlaður aðdáandi hennar að nafni John Hinckley yngri að myrða Ronald Reagan Bandaríkjaforseta, að eigin sögn til þess að ganga í augun á Foster. Hinckley skaut á Reagan úr byssu þann 30. mars 1981 en mistókst að drepa Reagan og var í kjölfarið handtekinn. Þrátt fyrir að Foster hafi ekki átt neina aðild að tilræðinu var mikið fjallað um hana í fjölmiðlum í kjölfar þess og hún neyddist til að þiggja vernd lífvarða á lóð Yale-háskóla.[5]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Jodie Foster slams media, defends Kristen Stewart after breakup“. CTV News. 15. ágúst 2012. Sótt 23. maí 2015.
- ↑ Dwyer, Michael (6. desember 1996). „Jodie Foster's Christmas turkey“. The Irish Times. Sótt 23. maí 2015.
- ↑ „Jodie Foster | American actress and director“. Encyclopedia Britannica (enska). Sótt 11. ágúst 2017.
- ↑ „Jodie Foster endurgerir Kona fer í stríð“. RÚV. 11. desember 2018. Sótt 11. desember 2018.
- ↑ Hirshey, Gerri (21. mars 1991). „Jodie Foster Makes It Work“. Rolling Stone. Afrit af upprunalegu geymt þann 27. september 2015. Sótt 26. september 2015.