Jean-Baptiste Say

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jean-Baptiste Say
Fæddur5. janúar 1767
Dáinn15. nóvember 1832 (65 ára)
París, Frakklandi
ÞjóðerniFranskur
StörfHagfræðingur, athafnamaður, blaðamaður, þýðandi
BörnHorace Émile Say,
Octavie Say

Jean Baptiste Say (fæddur 5. janúar 1767 – 15. nóvember 1832) var Franskur kaupmaður og hagfræðingur sem er þekktastur fyrir kenningu sína um að framboð skapaði eigin eftirspurn, sem er kallað lögmál Say. Hann er einnig þekktur fyrir kenningar sínar um hlutverk frumkvöðla.

Ævi[breyta | breyta frumkóða]

Say var fæddur í Lyon í Frakklandi, en faðir Say hafði einnig sterk tengsl við Genf í Sviss. Say fór ásamt bróður sínum árið 1785 til Englands til að ljúka námi. Í London starfaði hann með tveim stórkaupmönnum. Hann snéri árið 1786 aftur til Frakklands þar sem hann starfaði fyrir líftryggingafyrirtæki.

Árið 1789 þegar Say var 22 ára braust Franska byltyngin út. Say var ákafur stuðningsmaður frjálslyndisstefnunnar, borgaralegra réttinda og viðskiptafrelsis. Auk pólítískra skrifa og samfélagsmála skrifaði Say ljóð. Á þessum árum skrifaði greinar undir höfundarnafninu Atticus. Á árunum 1794-1800 ritstýrði hann tímaritnu La Decade philosophique, litteraire, et politiqiue, þar sem hann kynnti kenningar og skrif Adam Smith fyrir frönskum lesendum. Árið 1799 var hann skipaður einn af 100 meðlimum le Tribunat, eins af fjórum þingum byltingarstjórnarinnar á árunum 1800-1807.

Say gerði ítarlega grein fyrir kenningum Smith í bók sinni Traité D'économie Politique (1803), sem jafnframt var meginverk Say. Áhersla hans á einstaklingsfrelsi, markaðs- og viðskiptafrelsi, sem hann taldi að væru skilvirkasta og besta leiðin til að minnka fátækt, ójöfnuð og spillingu og skapa velsæld, kom honum upp á kant við Napóleon, sem aðhylltist merkantílískari hugmyndir um hlutverk ríkisins. Bókin var því bönnuð frá 1803 til 1815, og Say vísað af þingi. Hann varði næstu árum við skrif og rekstur vefnaðarverksmiðju.[1] Árið 1819 var hann skipaður prófessor í iðnaðarhagfræði við Conservatoire des Arts et Métiers, verkfræðiháskóla Parísar.

Lögmál Say[breyta | breyta frumkóða]

Lögmál Say, einnig þekkt sem lögmál markaðarins í setti Say fram í bók sinni Of the Demand or Market for products sem kom út árið 1819. Lögmálið er oft sett fram með þeim hætti að "Framboð skapar eigin eftirspurn", en sú framsetning birtist fyrst hjá John Meynard Keynes. Keynes var mjög gagnrýninn á kenningu Say, enda hafði hún verið notuð af hagfræðingum til að hafna möguleikanum á almennri offramleiðslukreppu.

Skýrari framsetning lögmálsins er hins vegar "framleiðsla á sér stað á undan neyslu," því grundvallar atriði kenningarinnar er að til þess að neyta þarf fyrst að framleiða eitthvað af virði sem hægt er að skipta á markaði fyrir það sem viðkomandi hyggst neyta. Á sama tíma skapar framleiðsla samstundis eftirspurn eftir öllum þeim framleiðsluþáttum og vörum sem fara til framleiðslu hennar, og tekjur hjá þeim sem selja þær vörur og framleiðsluþætti. Framleiðsla skapar þannig samstundis jafn mikla eftirspurn.

Um leið og varan væri tilbúin hlyti hún að fara á markað til sölu, og þar sem verðgildi peninga væri óvíst myndu þeir losa sig við þá peninga sem þeir fengju fyrir söluna með því að kaupa aðrar vörur. Framleiðsla einnar vöru skapaði þannig samstundis eftirspurn eftir öðrum vörum. Drifkrafturinn væri nægt framboð ólíkra vara.

Say taldi að það gæti skapast tímabundið offramboð af ákveðnum vörum, en það gæti aldrei orðið almennt offramboð eða ójafnvægi milli framboðs og eftirspurnar í hagkerfinu sem heild. Án inngripa myndi hagkerfið leita í jafnvægi þar sem framleiðsla í viðkomandi grein drægist saman.

Forsenda Say var sú að neytendur eða framleiðendur, sem seljendur vöru eða framleiðsluþátta, myndu ekki sitja á peningum heldur setja þá aftur í umferð samstundis. Ef fólk situr hins vegar á peningum getur eftirspurn hins vegar orðið minni en framboð. Við slíkar aðstæður myndast verðhjöðnun eða eftirspurnarkreppa. Á okkar dögum bregðast stjórnvöld við slíkum aðstæðum með því að halda uppi eftirspurn með útgjöldum á fjárlögum eða í gegnum peningastefnu seðlabankans.

Kenning Say um frumkvöðla[breyta | breyta frumkóða]

Say taldi að til þess markaðir væru skilvirkir þyrftu þeir að fá að starfa óhindrað og einstaklingarnir að njóta fulls efnahagslegs frelsis til að ráðstafa tekjum sínum og stofna til viðskipta. Til þess að framleiðsla fyrir markað ætti sér stað þyrfti auk hráefna og vinnu verkamanna framlag frumkvöðla (f: entrepreneur). Say er talinn hafa fyrstur sett fram orðið, en það er dregið af orðinu entreprendre, sem merkir að taka yfir.[2]

Hlutverk frumkvöðulsins var ómissandi fyrir efnahagslífið og framleiðsluna að mati Say. Þeirra hlutverk var að leiða saman alla framleiðsluþætti, verkamenn, hráefni og vélar, og koma vörunni svo til neytenda. Þetta krefðist vinnu, athygli og þekkingar frumkvöðulsins.

Góðir frumkvöðlar samkvæmt honum eru þeir sem skynja hvað markaðurinn spyr eftir og hver sé besta leiðin til að bjóða því fram. Say greind þrjár ólíkar leiðir sem frumkvöðlar hasla sér völl á markaði. Í fyrsta lagi með því að búa til nýja vöru. Í öðru lagi með því að þróa áfram eldri uppfiningar. Í þriðja lagi að framleiða eldri vörur með ódýrari hætti.

Þar sem starf frumkvöðulsins fól í sér vinnu, þekkingu og stöðuga beitningu dómgreindar taldi hann að tekjur sem frumkvöðlar hefðu af starfi sínu væru fyrst og fremst laun fyrir vinnu. Með þessu gerði hann greinarmun á tekjum af fjármagni í rekstrinum og launum frumkvöðulsins fyrir að beita sérfræðiþekkingu sinni og innsýn. Sýn Say á tekjur frumkvöðulsins er ólík skilningi Joseph Schumpeter sem leit á þær sem greiðslu fyrir áhættu.[3]

Heimilildir:[breyta | breyta frumkóða]

"Jean Baptiste Say", Famous economist Geymt 7 september 2021 í Wayback Machine (sótt 3 sept 2021).

Evert Schoor, Jean-Baptiste Say. Revolutionary, Entrepreneur, Economist (2012)

Jacoud, G. (2012). Why Does Jean-Baptiste Say Think Economics is Worth Studying. History of Economics Review; Hobart 55. 29-46.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Economic Ideas: Jean-Baptiste Say and the "Law of Markets". The Future of Freedom Foundation (bandarísk enska). Sótt 7. september 2021.
  2. Boutillier, Sophie; Uzunidis, Dimitri (2013), Carayannis, Elias G. (ritstjóri), „Entrepreneur: Etymological Bases“, Encyclopedia of Creativity, Invention, Innovation and Entrepreneurship (enska), Springer, bls. 580–584, doi:10.1007/978-1-4614-3858-8_465, ISBN 978-1-4614-3858-8, sótt 7. september 2021
  3. Koolman, G. (1971). „Say's Conception of the Role of the Entrepreneur“. Economica. 38 (151): 269–286. doi:10.2307/2552843. ISSN 0013-0427.