Fara í innihald

Rudolf Keyser

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Jakob Rudolf Keyser)
Rudolf Keyser.

(Jakob) Rudolf Keyser (f. 1. janúar 1803, d. 9. október 1864) var norskur sagnfræðingur og prófessor við Háskólann í Kristjaníu.

Rudolf Keyser fæddist í Kristjaníu, nú Ósló. Faðir hans var Johan Michael Keyser, síðar biskup; móðir Kirstine Margaretha Vangensteen.

Keyser hóf nám í guðfræði 1820, en brátt kom í ljós að hann hafði meiri áhuga á sagnfræði, og þá einkum sögu Noregs. Árið 1825 fékk hann styrk til að fara í námsför til Íslands. Þar var hann í tvö ár og lærði íslensku, bæði talmál þeirra tíma og einnig ritmálið forna. Kynntist hann þá mörgum Íslendingum, m.a. Sveinbirni Egilssyni, og teiknaði af honum mynd. Eftir að Keyser kom aftur heim, 1827, fékk hann stöðu sem dósent við Háskólann í Kristjaníu, og átti að flytja þar fyrirlestra um sögu föðurlandsins, tungumálið forna og minjar frá fyrri tíð. Var það í fyrsta skipti að fornnorska (íslenska) varð kennslugrein þar.

Það var þó sagnfræðin sem Keyser fékkst einkum við. Vegna kunnáttu sinnar í fornmálinu lagði hann grunninn að sagnfræðirannsóknum sem byggðar voru á skrifuðum heimildum frá stórveldistíma Noregs. Árið 1829 varð hann lektor og árið 1837 prófessor við Háskólann, uns hann lét af störfum 1862. Árið 1833 átti hann frumkvæði að því að hafin var útgáfa á fyrsta sagnfræðitímariti Norðmanna: Samlinger til det norske folks sprog og historie.

Árið 1830 lagði norska Stórþingið fram fé til að gefa út hin fornu lög og réttarbætur Noregs. Keyser tók við verkinu 1834 og vann að því mörg ár, með besta nemanda sínum Peter Andreas Munch, að skrifa upp handrit í Noregi, Danmörku og Svíþjóð. Á árunum 1846–1849 komu svo út fyrstu þrjú bindin (af fimm): Norges gamle love inntil 1387. Verkið sker sig úr fyrir óvenjulega vísindalega nákvæmni, jafnvel á nútímamælikvarða, og er útgáfan enn í fullu gildi, þó að gotneskt letur lagatextanna sé ekki aðgengilegt. Þarna kom fram sterkasta hlið Keysers sem sagnfræðings, að leggja strangt fræðilegt mat á fornar heimildir.

Keyser hafði ekki jafn gott lag á því að miðla þekkingu sinni og niðurstöðum í aðgengilegum yfirlitsritum. Margt af því tagi setti hann einungis fram í fyrirlestrum, sem voru ekki gefnir út fyrr en eftir hans dag. Hann var vinsæll fyrirlesari, bæði í Háskólanum og utan hans.

Keyser ólst upp í umhverfi sem lagði mikla áherslu á sjálfstæði Noregs, og gætir þess í skrifum hans. Hann setti t.d. fram þá tilgátu að Noregur og Norður-Svíþjóð hefðu byggst fólki, sem kom úr norðri og austri, en Danmörk og Suður-Svíþjóð fólki sem kom úr suðaustri, frá Þýskalandi. Þessi kenning var þó byggð á fremur veikum grunni. Eitt mikilvægasta framlag Keysers var að hann sýndi ótvírætt fram á að Norðmenn hefðu verið forn menningarþjóð og stýrt voldugu ríki, en slík viðhorf voru alls ekki sjálfgefin hjá smáþjóðum Evrópu á þeim tíma. Taldi hann að hnignun Noregs eftir 1320 mætti rekja til þess að konungsvaldið hefði lent í höndum Dana, með stuðningi afla (m.a. innan kirkjunnar), sem voru ekki nógu þjóðholl. Meðal danskra sagnfræðinga vöktu þessi viðhorf litla hrifningu, sem töluðu um þau, í háði, sem „norska skólann í sagnfræði“.

Frá 1829 hafði Keyser umsjón með forngripasafni Háskólans, Universitetets oldsaksamling, og lét opna það stúdentum og öllum almenningi.

Rudolf Keyser giftist ekki, en helgaði allt líf sitt sagnfræðirannsóknum.

Rit (úrval)

[breyta | breyta frumkóða]
  • Om nordmændenes herkomst og folke-slægtskab, 1843. Fyrst prentað í Samlinger til det norske folks sprog og historie, 1839.
  • Nordmændenes religionsforfatning i hedendommen, 1847
  • Den norske Kirkes Historie under Katholicismen 1–2, 1856–1858
  • Norges Historie 1–2, 1866–1870
  • Efterladte skrifter 1–2, 1866–1867
  • Ludvig Holm-Olsen: Lys over norrøn kultur. Oslo 1981.
  • Norsk biografisk leksikon 5, Oslo 2002.
  • Fyrirmynd greinarinnar var „Rudolf Keyser“ á norsku útgáfu Wikipedia. Sótt 27. janúar 2008.