Fara í innihald

Jón Pétursson (háyfirdómari)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Jón Pétursson (16. janúar 1812 – 16. janúar 1896) sýslumaður, alþingismaður og háyfirdómari var fæddur á Víðivöllum í Blönduhlíð í Skagafirði og voru foreldrar hans Pétur Pétursson prófastur á Víðivöllum og síðari kona hans, Þóra Brynjólfsdóttir. Bræður hans voru þeir Pétur Pétursson biskup og Brynjólfur Pétursson Fjölnismaður og voru þeir oft kallaðir einu nafni Víðivallabræður.

Jón varð stúdent frá Bessastaðaskóla 1834, sigldi svo til Kaupmannahafnar og lauk lögfræðiprófi frá Kaupmannahafnarháskóla 1841. Síðan var hann sýslumaður, fyrst í Eyjafjarðarsýslu, svo í Strandasýslu, þá í Borgarfjarðarsýslu og að lokum í Mýra- og Hnappadalssýslum. Árið 1850 varð hann dómari í landsyfirdómi og 1877 var hann gerður að háyfirdómara (dómstjóra). Því embætti gegndi hann til 1889. Hann gegndi jafnframt ýmsum öðrum embættum og trúnaðarstörfum. Hann var konungkjörinn alþingismaður 1859-1887. 1846 festi Jón kaup á nýlegu húsi, sem síðar varð Laugavegur 1 og bjó þar til dauðadags.

Fyrri kona Jóns var Jóhanna Sofía Bogadóttir (7. febrúar 1823 – 21. maí 1855), dóttir Boga Benediktssonar á Staðarfelli og Jarþrúðar Jónsdóttur. Á meðal barna þeirra voru tvíburarnir séra Pétur og séra Brynjólfur og blaða- og kvenréttindakonan Jarþrúður. Seinni kona Jóns var Sigþrúður (19. mars 1830 – 17. október 1912), dóttir séra Friðriks Eggerz í Akureyjum og Arndísar Pétursdóttur. Á meðal barna þeirra voru hinir kunnu Sturlubræður.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]